Einar Gíslason fæddist í Reykjavík 29. apríl 1946. Hann lést á Landspítalanum 24. nóvember 2024.
Foreldrar Einars voru Sigríður Jónsdóttir húsmóðir og verslunarkona, f. 22.12. 1925, d. 5.3. 1989, og Gísli Einarsson hæstaréttarlögmaður, f. 26.12. 1922, d. 25.1. 1992. Bæði borin og barnfæddir Reykvíkingar. Bræður Einars eru Ragnar, skólastjóri í Garðabæ, f. 1951, d. 2014, eiginkona Ingibjörg Gunnarsdóttir, leikskólastjóri í Garðabæ; Jón Otti lögregluvarðstjóri, f. 1955, d. 2003. Fyrri kona Jóns Otta var Ástríður Einarsdóttir, seinni kona, Berglind Eyjólfsdóttir, lögreglukona. Hálfbróðir samfeðra er Gísli Þór Gíslason, f. 1969, d. 2023. Eiginkona Gísla Þórs var Laila Gislason.
Einar kvæntist árið 1967 Halldóru Jóhannsdóttur, f. 16.12. 1944 í Hafnarfirði, d. 27.1. 2005. Dætur Einars og Halldóru eru: 1) Kristín, f. 1967, búsett í Danmörku, var gift Úlfi Grönvold, þeirra börn eru Ylfa, f. 1988, Ými, f. 1994, og Högn1, f. 2004. Eiginmaður Kristínar er Richard Scobie. 2) Brynja, f. 1970, búsett í Bandaríkjunum, gift Erni Almarssyni, þeirra börn eru Karítas, f. 1991, Halldór Alex, f. 1994, og Bjarki, f. 2000. 3) Þóra, f. 1973, búsett í Hafnarfirði, var gift Árna Björgvinssyni, þeirra börn eru Brynjar Logi, f. 1996, Birgitta Rún, f. 2002, og Andri Fannar, f. 2009, fyrir átti Þóra soninn Einar Orra, f. 1992. Eiginmaður Þóru er Karl Ragnarsson.
Einar kvæntist á ný árið 2012, Bergþóru Jónsdóttur, f. 28.10. 1945, í Bolungarvík. Heimili þeirra var í Hafnarfirði.
Einar ólst upp að Bergstaðastræti 12, Brennulóð í Reykjavík til 24 ára aldurs en þá flutti fjölskyldan í Hafnarfjörð þar sem hann bjó síðan. Einar gekk í Miðbæjarskólann og Gagnfræðaskólann við Vonarstræti. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands og íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni. Hann stundaði einnig síðar á ævinni framhaldsnám við Kennaraháskóla Íslands. Einar var kennari við Vogaskóla í Reykjavík 1966-1977, Stýrimannaskóla Íslands 1966-1972, Grunnskóla Hafnarfjarðar 1977-2011, lengst af sem sundkennari við Sundhöll Hafnarfjarðar og íþrótta- og smíðakennslu við Engidalsskóla.
Einar vann sem sendill hjá Ritsímanum við útburð símskeyta í sumarvinnu árið 1958, þá 12 og 13 ára í fullu starfi 40 klst. á viku. Á námsárunum stundaði Einar sumarvinnu hjá afa sínum og alnafna við húsamálun. Að námi loknu fékkst Einar lengst af við kennslu á sumaríþróttanámskeiðum í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Um 10 ára bil rak Einar sumarnámskeið fyrir 5 og 6 ára börn í Hafnarfirði. Meðfram kennslustörfum starfaði Einar við þjálfun hjá fimleikasambandinu og frjálsíþróttadeild KR. Hann var einnig aðstoðarmaður landsliða Knattspyrnusambands Íslands um 11 ára skeið. Einar stundaði og æfði frjálsar íþróttir um árabil. KR var hans félag. Undir merkjum þess félags náði Einar góðum árangri í spretthlaupum. Merkastur árangur var drengjamet í 100 metra hlaupi 1963 og Íslandsmeistaratitill í sömu grein árið 1969. Hann var landsliðsmaður í spretthlaupum frá 1963-1969. Einar hlaut viðurkenningu fyrir störf sín fyrir íþróttahreyfinguna, silfurmerki Knattspyrnusambands Íslands og gullmerki KR.
Útför Einars fer fram í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 10. desember 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.
Ég er yngst þriggja systra og átti alltaf sérstakt samband við pabba. Ég fæðist á þeim tíma sem leyfilegt var að feður væru viðstaddir fæðingar og fékk pabbi að upplifa það til fulls. Ljósmóðirin var að hringja á lækni sem varð til þess að pabbi tók á móti mér í heiminn og var fyrsti andardráttur minn í faðmi pabba. Hann rifjaði það reglulega upp hversu stoltur hann hafi verið á þeirri stundu, að hafa fengið að taka á móti mér. Þegar hans tími kom var ég hjá honum, rétt eins og hann hafði verið hjá mér í upphafi lífs míns. Það var sársaukafull stund en jafnframt dýrmæt, sú tilfinning að við skyldum vera saman í upphafi og lok lífsferilsins, eins og lífið hefði lokað hringnum okkar.
Ég á einstakar minningar frá æsku minni. Fastir liðir voru bíltúrar um Hafnarfjörð og smábátabryggjuna á laugardags- og sunnudagsmorgnum. Við pabbi vorum bæði morgunhanar, ef til vill var ég frekar krefjandi barn og voru þessir bíltúrar hans leið til að gefa mömmu frið til að sofa út.
Í þessum bíltúrum okkar var mikið rætt og þreyttist pabbi ekki á að segja mér sömu sögurnar aftur og aftur og kynna mér ýmis kennileiti í firðinum fagra, hann söng oft fyrir mig lagið „Þú ert yndið mitt yngsta og besta“ með ákveðnum léttleika og hlýju. Eftir bíltúrinn helltum við upp á kaffi fyrir mömmu og settum Lúðrasveit Hafnarfjarðar á fóninn og stilltum hátt, mömmu til mikillar „gleði“.
Pabbi var mikill íþróttagarpur og lagði áherslu á að við systurnar æfðum íþróttir. Hann kenndi mér ungri að synda og sundíþróttin varð fljótt mikilvægur hluti af lífi mínu. Hann var alltaf minn stærsti stuðningsmaður, sama hvaða íþrótt ég valdi að stunda í æsku – hvort sem það var sund, fótbolti eða frjálsar íþróttir.
Pabbi var góður afi og mikill húmoristi. Hann lék á als oddi og sagði fimmaurabrandara og sá til þess að það væri alltaf stuð og stemning í kringum krakkana.
Það dró ský fyrir sólu í lífi fjölskyldunnar árið 2005 þegar mamma lést, allt of ung. Það var erfiður tími fyrir okkur öll, og sorgin var yfirþyrmandi, þó svo við hefðum öll vitað í hvað stefndi var svo sárt þegar hún kvaddi okkur.
Það birti aftur til hjá pabba þegar hann og Begga felldu hugi saman og í framhaldi giftu sig árið 2012. Það var dásamlegt að sjá pabba hamingjusaman á ný og ég er Beggu óendanlega þakklát fyrir hvernig hún lýsti upp síðustu árin hans pabba. Vinátta þeirra var falleg.
Síðustu vikur voru þér erfiðar, líkaminn var að gefast upp en kollurinn var í lagi. Það var ekki í þínum stíl að bíða með hlutina, þú varst „strax-ari“ eins og við töluðum oft um. Í þínum anda var lokakaflinn stuttur en þú náðir að kveðja okkur sem næst þér stóðu.
Elsku pabbi minn, takk fyrir allt. Ég á eftir að sakna þín.
Ég kveð þig með laginu sem þú söngst svo oft og nú síðast fyrir mánuði raulaðir þú þetta lag fyrir mig:
Þú ert yndið mitt yngsta og besta,
þú ert ástarhnossið mitt nýtt,
þú ert sólrún á suðurhæðum,
þú ert sumarblómið mitt frítt,
þú ert ljósið sem lifnaðir síðast,
þú ert löngunnar minnar Hlín.
Þú ert allt sem ég áður þráði,
þú ert ósk, – þú ert óskin mín.
(Gestur)
Þóra.
Einar Gíslason, tengdafaðir minn og vinur, er fallinn frá.
Það er ótrúlega erfitt að finna orð til að lýsa þeim áhrifum sem Einar hafði á mig. Yndislegri tengdapabba er vart hægt að hugsa sér. Hann var alltaf með bros á vör, hlýtt viðmót og stutt í hláturinn. Hann var mikið fyrir að segja brandara, sem hann sjálfur hló oftast mest að. Það var einstakt að upplifa hvernig hann fyllti allt rými með jákvæðni og gleði. Lífsgleði hans og smitandi jákvæðni gerðu það að verkum að öllum í kringum hann leið vel.
Ég kynntist Einari árið 2009 þegar hann og Begga, kona hans, komu í mat heim til mín og Kristínar. Strax við fyrstu kynni fór einstaklega vel á með okkur. Þessi vinátta skapaðist á augabragði, þökk sé Einari, sem hafði einstakt lag á að láta manni líða eins og hluta af fjölskyldunni frá fyrstu stundu.
Einar var höfðingi heim að sækja. Að koma í mat til hans og Beggu var ekki bara kvöldverður – það var veisla. Hann var sannkallaður listakokkur sem lagði sig alltaf fram um að gera allt veglegt og rausnarlegt, með mikilli gjafmildi og ástríðu.
Þrátt fyrir að við Kristín flyttum utan, sem dró úr beinum samskiptum, var vináttan alltaf jafn sterk. Hvort sem við hittumst í heimsóknum þeirra til okkar erlendis eða okkar til þeirra var hláturinn og gleðin alltaf sú sama, eins og ekkert hefði breyst. Þetta var einstakur eiginleiki Einars – maður fann aldrei fyrir fjarverunni. Ég minnist með hlýju þegar við héldum upp á sjötugsafmælið hans í kastala á Írlandi – það var gaman, eða þegar við fórum saman að sjá óperuna Carmen undir berum himni í danskri sumarnótt. Einstakar minningar.
Síðustu árin settu veikindi sitt mark á líf Einars, en ég er þakklátur fyrir að hafa fengið dýrmæta stund með honum í október, án þess þó að vita að það væri okkar kveðjustund. Hefði ég vitað það hefði ég viljað þakka honum fyrir allar góðu stundirnar, fyrir hvernig hann tók mér opnum örmum og lét mig alltaf finna að ég væri hluti af fjölskyldunni. Ég hefði þakkað honum fyrir að hafa alið upp þá einstöku konu sem ég hef fengið að eiga að eiginkonu, og fyrir að hafa alltaf mætt mér með virðingu og vinsemd. Þessi stund var áminning um mikilvægi þess að nýta hvert augnablik með þeim sem okkur þykir vænt um. Við vitum aldrei hvenær tíminn rennur út.
Ég mun sakna Einars, þessa einstaka og góða manns, og mun ávallt varðveita ljúfar minningar um vináttu okkar. Hann var ekki bara frábær tengdapabbi – hann var vinur sem ég gat alltaf treyst á.
Sofðu rótt, elsku vinur. Ég vona að við hittumst á ný, og þá tökum við nokkrar hláturrokur saman – það er eitthvað til að hlakka til.
Ég votta Beggu, dætrum Einars og öllum hans nánustu mína dýpstu samúð.
Richard Scobie.
Þakklæti og söknuður: Þessar tvær tilfinningar eru mér efst í huga þegar ég hugsa til Einars tengdaföður míns, sem nú er fallinn frá. Í nokkrum orðum minnist ég góðs manns sem tók mér vel og reyndist mér og fjölskyldu minni máttarstólpi. Ég hef alltaf kunnað að meta Einar, allt frá því að ég fékk fyrstu gráðu yfirheyrsluna þegar ég og miðdóttirin fórum að vera saman árið 1988 og alla tíð síðar, fram að jólaveislu 2023 þar sem hann fór á kostum í eldhúsinu á Norðurbakkanum.
Það var heppilegt að ég ólst upp í nágrenni Kaplakrika og komst því ekki hjá því að verða FH-ingur og það skipti sannarlega máli í viðtalinu áðurnefnda. Enda var Einar mikið fyrir íþróttir og hafði sjálfur sem ungur maður unnið mikil afrek í spretthlaupum og fjölþraut. Þótt Einar hefði alist upp í KR og væri innfluttur í Fjörðinn úr Reykjavik var hann með sterka skoðun um að tengdasynir hans skyldu styðja FH. Ef ég var svolítið stressaður gagnvart honum var það líklega vegna þess að hann var sundkennarinn minn rúmum áratug áður en viðtalið átti sér stað. Hann var oft strangur við okkur pollana og við hræddumst hann stundum.
Einar þurfti að sættast við að við Brynja byggjum langdvölum með barnabörnin í Bandaríkjunum. Þangað heimsótti hann okkur, á báðar strandir, í gegnum árin. Fyrsta ferðin var til Kaliforníu þegar við Brynja vorum þar með dóttur okkar nýfædda. Ég fór þá með Einari í dagsferð til Los Angeles að sjá körfuboltaleik þar sem LA Lakers töpuðu fyrir Phoenix Suns. Þetta var árið 1992, sama daginn og Erwin „Magic“ Johnson tilkynnti að hann hefði fengið eyðnigreiningu. Ógleymanleg er ferðin þessi, frá Santa Barbara til Inglewood og til baka um kvöldið.
Við höfðum síðan í gegnum árin önnur tækifæri til að horfa á leiki í fótbolta, sem mér þótti gaman að gera með honum. Eftir flutning okkar á austurströndina fengum við heimsóknir frá Einari og Dóru, sem lést 2005. Eftir andlát hennar urðu ferðirnar hingað vestur færri, en við hittumst hins vegar oft í kaffi eða kjötsúpu hjá Einari í heimsóknum okkar til Íslands. Einar fann sér annan förunaut í lífinu, Beggu, sem við kunnum sannarlega að meta. Síðast komu Begga og Einar til okkar vorið 2023 og við náðum hágæðatíma með þeim í þeirri ferð. Til er ljósmynd af þeim hjónum með allri fjölskyldunni hér vestra, sem er nú orðin kær varðveiting á þeirri minningu. Einar þurfti að líða fyrir ýmsan missinn í gegnum tíðina og þótt elstur væri í hópi fjögurra bræðra er hann samt síðastur þeirra til að kveðja jarðvistina.
Kæra Begga, ég samhryggist þér innilega og við fjölskyldan hér vestra vonum að minningarnar um góðar stundir hjálpi á erfiðum tímamótum. Ég kveð Einar með virðingu, söknuði og þakklæti. Takk fyrir allt.
Örn Almarsson.
Elsku afi minn, mér finnst sorglegt að þú skulir vera farinn. Það var alltaf svo gott að koma í heimsókn til þín og Beggu. Þú áttir alltaf lakkrís og ískalt Pepsi Max. Stundum kom svo líka einn Hafnfirðingabrandari með í kaupbæti.
Ég var ekki tilbúinn að kveðja þig strax, mér fannst við eiga eftir að gera svo mikið saman.
Fyrir nokkrum vikum tók ég viðtal við þig um kalda stríðið, að hafa rödd þína varðveitta á upptöku er eitthvað sem mér mun alltaf þykja vænt um.
Þú varst ótrúlega sterkur andlega og alltaf stutt í grínið, en líkaminn þinn var orðinn veikur og þreyttur. Ég ætla að passa upp á Beggu fyrir þig. Ég á svo góðar minningar með þér sem munu lifa með mér. Takk fyrir allt elsku afi minn, ég samdi kveðjuljóð til þín;
Farðu upp til skýja,
þar sem þú passar upp á vini og fjölskyldu þína.
Ég veit þú getur ekki svarað í síma
en ég mun hugsa um þig alla tíma.
Þinn
Andri Fannar.