Hinn nýkjörni og orðvari þingmaður Samfylkingarinnar, Þórður Snær Júlíusson, er hvergi nærri hættur í pólitík ef marka má skrif hans eftir kosningar. Þar dregur hann ekki af sér frekar en fyrri daginn og fyrir helgi fjallaði hann til að mynda um það sem biði landsmanna með nýrri stjórn, sem yrði alls ólík þeim sem setið hafi á Íslandi megnið af lýðveldistímanum með Sjálfstæðisflokk eða Framsóknarflokk innanborðs, og stundum báða.
Nú segir hann að tækifærið sem sé til staðar sé „svipað því sem var í Reykjavíkurborg fyrir 30 árum og varð til þess að Sjálfstæðisflokknum hefur, meira og minna, verið haldið frá stjórn hennar nær alla tíð síðan.“
Þetta er athyglisverð framtíðarsýn, ekki síst í ljósi þess að þegar Samfylkingin og forveri hennar tóku við stjórnartaumunum í Reykjavík var borgin skuldlétt og skattar í lágmarki. Síðan er borgin komin í þá stöðu, undir stjórn Samfylkingar þrátt fyrir stöðugt fallandi fylgi flokksins í borginni, að skattar eru í hæstu lögleyfðu mörkum og skuldir svo sligandi að borgin getur vart fjármagnað sig.
Er þetta það sem bíður almennings á landinu öllu í boði nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar, ríkissjóður á vonarvöl og skattgreiðendur með alla vasa tóma?