Hafsteinn Júlíusson fæddist 10. desember 1984 í Reykjavík. Hann ólst upp í Grafarvogi og er elstur fjögurra bræðra. „Við bræðurnir höfum alla tíð verið afar nánir og átt í góðu sambandi, en sá yngsti er einna helst eins og sonur okkar Karitasar, konu minnar, enda skilja 20 ár okkur að.“
Hafsteinn spilaði fótbolta með Fjölni sem strákur eins og allir hans bræður og eru þeir allir miklir Fjölnismenn í grunninn.
Hafsteinn fékk snemma áhuga á hönnun og arkitektúr og minnist hann þess þegar hann vann hjá pabba sínum í versluninni Hólf og gólf sem var sérverslun með parket, flísar og blöndunartæki þegar hann sá salernislínu hannaða af franska hönnuðinum Philippe Starck, Hafsteinn hefur þá verið 14 ára gamall. „Það var ákveðið ljósaperumóment þegar ég sá að það var hægt að taka eins óspennandi hlut og klósett og blöndunartæki og gera að einhverju jafn áhugaverðu og fallegu og þessi lína var,“ segir Hafsteinn. „Súrrealískt síðan að við áttum nýlega stuttan vídeófund með honum út af mögulegu verkefni, hann er virkilega skemmtilegur karakter og gaman að spjalla við hann.“
Hafsteinn skráði sig á málabraut í Menntaskólanum við Sund og var áhugi hans þar mestur á heimspeki og listasögu. Á lokaárinu í MS kynntist hann svo ástinni í lífinu, henni Karitas Sveinsdóttur, og hafa þau verið óaðskiljanleg allar götur síðan, í nú að verða 21 ár.
Eftir MS lá leiðin í fornám myndlistardeildar Listaháskóla Íslands þar sem Hafsteinn fékk hrós fyrir skapandi hugsun, en teikning hefur aldrei legið vel fyrir honum þrátt fyrir frjóa hugsun. Hann leit aldrei á það sem neitt vandamál þar sem hann sá alltaf fyrir sér að skapa teymi sem leysti verkefnin í sameiningu með ólíkri sérfræðiþekkingu. „Fleiri gera meira,“ hefur Hafsteinn iðulega sagt.
Eftir fornámið fór Hafsteinn í Listaháskóla Íslands og lærði þar vöruhönnun. Útskriftarverkefni Hafsteins 2008 vakti mikla athygli þar sem hann hannaði mosaskartgripi, þetta var ádeiluverkefni um það að samfélög heimsins þyrftu að hugsa meira um umhverfisvernd og að hinn raunverulegi skartgripur væri náttúran. Í kringum þessa vöru skapaði Hafsteinn sýningarumhverfi sem var vísun í lítið gróðurhús en í lokaritgerð sinni skrifaði hann um ímynd vörumerkja í sölurými en þetta er einmitt það sem Hafsteinn og teymi hans hjá HAF STUDIO fást iðulega við í hinum ýmsu verkefnum.
Eftir útskrift og korter í fjármálahrun skráði Hafsteinn sig í meistaranám í innanhúss- og iðnhönnun í Scuola Politecnica di Design í Mílanó og fluttust þau Hafsteinn og Karitas saman þangað og bjuggu í þrjú ár. Í byrjun var Karitas í fjarnámi frá Háskóla Íslands en fattaði svo hvar áhugasviðið lægi eftir að hún var farin að skipta sér mikið af skólaverkefnum Hafsteins og skráði hún sig í inannhússhönnun við IED í Mílano. Hafsteinn fékk svo vinnu á hönnunarstofu Diegos Grandis þar sem hann lærði heilmikið. „En eftir útskrift hjá Karitas ákváðum við að flytja heim þar sem það var jú fjárhagsleg áskorun að búa úti í miðri fjármálakreppu.“
Við heimkomuna ákváðu þau að ganga í hjónaband og kaupa saman sína fyrstu íbúð. Einnig stofnuðu þau HAF STUDIO sem fyrst var til húsa í sex fermetra herbergi við Fiskislóð. Þau hafa síðan þá tekið að sér fjölbreytt verkefni og byggt upp stórt tengslanet af viðskiptavinum og klárað hundruð innanhússhönnunarverkefna. „Það er gaman að nefna að eitt af okkar fyrstu verkefnum var Loksins barinn á Keflavíkurflugvelli og eitt af nýjustu verkefnunum okkar er nýr Loksins Café & Bar, sem var opnaður í ár, en síðustu misseri hefur stofan unnið mikið uppi á Keflavíkurflugvelli við hönnun nýrra staða sem hafa verið opnaðir þar. í Loksins Café & Bar hönnuðum við líka og framleiddum öll húsgögnin, en nýlega höfum við bætt húsgagna- og innréttingaframleiðslu við starfsemi okkar.“
Meðal fleiri verkefna HAF STUDIO eru endurhönnun Högnuhússins í Brekkugerði, Kvika banki, verslanir Húrra og fullt af veitingastöðum, einnig í Svíþjóð, sem og mathöll þar.
Árið 2016 sáu þau Hafsteinn og Karitas auglýst eftir tillögum að starfsemi í verbúð á Geirsgötu 7. „Þá kom upp sú hugmynd hjá okkur að stofna HAF STORE sem væri hönnunar- og lífsstílsverslun sem myndi selja okkar hönnun sem og innflutta einnig. Karitas hafði þá nýlega þróað kertastjaka og fleiri vörur til framleiðslu og sölu. Hönnunarstofan væri svo staðsett á efri hæð verbúðarinnar. Þessi tillaga stóð upp úr sem besta hugmyndin að mati Faxaflóahafna og upphófst um 18 mánaða ferli í að endurgera verbúðina sem var nánast að hruni komin.“
Þau hjónin hafa gaman af framkvæmdum og umbreytingarverkefnum og hafa þau gert upp sex heimili síðan, nú síðast á Fjölnisvegi þar sem þau búa. „Svo finnst mér fátt skemmtilegra en að elda og bjóða vinum í mat. Mér finnst líka gaman að horfa á fótbolta, sér í lagi þegar bræður mínir eru að spila. Svo er ég byrjandi í laxveiði, tók maríulaxinn í ár.“
Fjölskylda
Eiginkona Hafsteins er Karitas Sveinsdóttir, f. 4.3. 1987, innanhússarkitekt. Þau eru búsett í 101 Reykjavík. Foreldrar Karitasar eru Sveinn Val Sigvaldason, f. 7.9. 1953, kerfisfræðingur, og Úlfhildur Guðmundsdóttir, f. 24.6. 1955. ljósmóðir. Þau eru búsett í Kringluhverfinu í Reykjavík.
Dætur Hafsteins og Karitasar eru Úlfhildur, f. 4.4. 2013, og Margrét, f. 8.7. 2021, og svo eiga þau Siberian Husky-hundinn Úlf, f. 27.10. 2020.
Bræður Hafsteins eru Eysteinn Freyr Júlíusson, f. 12.7. 1989, vinnur hjá Hertz og býr í Kópavogi; Guðmundur Þór Júlíusson, f. 29.12. 1993, fasteignasali hjá REMAX og býr í Hlíðunum, spilaði fótbotla með HK og Fjölni, og Júlíus Mar Júlíusson, f. 7.6. 2004, háskólanemi, býr í foreldrahúsum og spilar með KR.
Foreldrar Hafsteins eru hjónin Júlíus Geir Hafsteinsson, f. 1.1. 1963, framkvæmdastjóri Parka, og Margrét Herdís Guðmundsdóttir, f. 30.4. 1962, sjúkraliði og heilsunuddari. Þau eru búsett í Mosarima, en þau fluttu þangað þegar Hafsteinn var á unglingsaldri.