Óvenjuleg „Týndur er óvenjuleg glæpasaga,“ segir um bók Ragnheiðar.
Óvenjuleg „Týndur er óvenjuleg glæpasaga,“ segir um bók Ragnheiðar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Glæpasaga Týndur ★★★★· Eftir Ragnheiði Gestsdóttur. Björt, 2024. Kilja, 322 bls.

Bækur

Steinþór

Guðbjartsson

Margt er mannanna bölið en víðast leynist ljós í myrkrinu og það á við um þessa nýjustu glæpasögu Ragnheiðar Gestsdóttur. Týndur lýsir leit að sjö ára dreng en um leið er sérstaklega vakin athygli á heimilisofbeldi og ekki síst misjöfnum viðbrögðum við því. „Það sem gerist annars staðar getur líka gerst hér“ (45) eru orð að sönnu.

Heimilisofbeldi á sér engin takmörk og strax á fyrstu síðu er ljóst að mæðgin, Þórunn og Einar Starri, sæta miklu harðræði og kúgun frá Sigmundi, sambýlismanni hennar, og engin undankomuleið er í augsýn. Sigmundur er ofbeldisseggur, drulludeli og skíthæll, svo notuð séu orð um hann í sögunni, og Þórunn gerir það sem hann segir henni að gera, þótt það bitni illa á Einari Starra. Líf unga drengsins er því langt í frá að vera eðlilegt og ekki bætir úr skák að Sigmundur hindrar samband við móðurömmu drengsins og Ólaf föður hans. Forræðisdeilan er sem olía á eld.

Sagan hverfist um heimilisofbeldi og út frá því hryggjarstykki vinnur Hanna María lögreglukona. Hún er í aðalhlutverkinu og leysir það vel af hendi, er glögg, les fólk vel og er fljót að átta sig á aðstæðum. Sjálf á hún slæmar minningar frá hjónabandi sínu á Ísafirði og á því auðvelt með að setja sig í spor annarra í svipuðum aðstæðum.

Týndur er óvenjuleg glæpasaga. Málið snýst fyrst og fremst um að vekja athygli á óviðunandi ástandi og uppræta það með góðu eða illu. Meira er lagt upp úr því að leita lausna, jafnvel með fyrirgefninguna að vopni, heldur en að refsa sakamönnum, en sumum er ekki viðbjargandi. Afbrotum fylgir ekki endilega einbeittur brotavilji heldur getur þurft að bregðast skyndilega við órétti með því að brjóta lög, viljandi eða óviljandi. Lífið er ekki svart og hvítt og ljóst er að rauði kjóllinn fer Hönnu Maríu betur en sá svarti og hefur jákvæðari áhrif. Tröll eru víða en sama má segja um griðastaði. Týndur skilur eftir sig spor.