Stefán Benjamín Ólafsson fæddist í Reykjavík 11. júní 1965. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 28. nóvember 2024.
Foreldrar hans eru Guðbjörg Benjamínsdóttir, f. 22.4. 1948, og Ólafur Ágústsson, f. 10.9. 1938.
Systur Stefáns eru Matthildur Ósk, f. 20.4. 1967, og Jakobína Ólöf, f. 30.10. 1971. Hálfbróðir Stefáns er Vilhjálmur Arnar Ólafsson, f. 3.8. 1958.
Hinn 20. júlí 1991 gekk Stefán í hjónaband með Ragnheiði Garðarsdóttur, f. 22.7. 1965. Foreldrar hennar voru Kolbrún Erla Einarsdóttir, f. 22.9. 1944, d. 4.1. 2001, og Garðar Kjartansson, f. 4.8. 1941, d. 30.7. 2024.
Synir Stefáns og Ragnheiðar eru: 1) Davíð, f. 25.10. 1989, giftur Birnu Ásgeirsdóttur. Þau eiga tvær dætur, Ástrós Emmu og Rebekku Lillý. 2) Elvar, f. 11.11. 1994, í sambúð með Elísabetu Önnu Rúnarsdóttur.
Stefán bjó fyrstu árin í Kópavogi þangað til fjölskyldan flutti til Keflavíkur árið 1969, þar sem hann bjó til æviloka. Hann lauk grunnskólaprófi frá Gagnfræðaskóla Keflavíkur.
Stefán hóf ungur að vinna og vann hin ýmsu störf, meðal annars hjá Skipaafgreiðslu Suðurnesja og Íslenskum aðalverktökum en lengst af vann hann hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja. Þá var hann einnig formaður Starfsmannafélags Suðurnesja í mörg ár.
Útför Stefáns Benjamíns fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 10. desember 2024, klukkan 13.
Sofðu unga ástin mín,
– úti regnið grætur.
Mamma geymir gullin þín,
gamla leggi og völuskrín.
Við skulum ekki vaka um dimmar nætur.
Það er margt, sem myrkrið veit,
– minn er hugur þungur.
Oft ég svarta sandinn leit
svíða grænan engireit.
Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur.
Sofðu lengi, sofðu rótt,
seint mun best að vakna.
Mæðan kenna mun þér fljótt,
neðan hallar degi skjótt,
að mennirnir elska, missa, gráta og sakna.
(Jóhann Sigurjónsson)
Elsku hjartans sonur minn er fallinn frá langt fyrir aldur fram. Það er erfitt að finna réttu orðin til að lýsa tilfinningunni sem ég hef fundið fyrir síðan þú féllst frá en þú verður alltaf Stebbi minn í mínu hjarta.
Ég gleymi ekki þeim degi sem ég fékk þig í fangið einungis 17 ára gömul og þeirri ást sem kviknaði sem er ógleymanleg. Þú varst alltaf svo góður við alla og máttir aldrei neitt aumt sjá. Þú varst vinamargur og sá maður það í þínum veikindum hversu heppinn þú varst með vini því þeir voru endalaust að koma og kíkja á þig, bæði heima og á sjúkrahúsinu. Þú hugsaðir alla tíð vel um okkur foreldrana og varst alltaf boðinn og búinn til að hjálpa ef eitthvað var að.
Orð geta ekki lýst því hversu sárt ég sakna hans en við fjölskyldan erum þakklát fyrir samferð okkar í þessu lífi, þótt hún hafi verið alltof stutt.
Þegar raunir þjaka mig
þróttur andans dvínar
þegar ég á aðeins þig
einn með sorgir mínar.
Gef mér kærleik, gef mér trú,
gef mér skilning hér og nú.
Ljúfi drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni
láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.
(Ómar Ragnarsson/
Gísli á Uppsölum)
Ástarkveðja þangað til við hittumst næst.
Þín
mamma.
Það er gríðarlega erfitt að setjast niður og skrifa minningarorð um þig, elsku bróðir, sem tekinn varst frá okkur alltof ungur. Ég gleymi ekki símtalinu sem ég fékk frá þér þegar ég kom heim úr skíðaferð í janúar 2023 en þá sagðir þú mér að þú hefðir greinst með krabbamein. Við grétum saman og hughreystum hvort annað. Þú tókst þessum tíðindum með æðruleysi og ætlaðir ekki að gefast upp, enda gefumst við ekki upp í okkar fjölskyldu þó eitthvað bjáti á. Þú varst mér alltaf mikil fyrirmynd og það var alltaf hægt að leita til þín með alla hluti. Sorgin er svo mikill að þegar ég rifja upp gamlar minningar um okkar æsku að þá streyma tárin jafnóðum niður kinnarnar.
Við fjölskyldan höfum ýmislegt brallað saman í gegnum tíðina og erum mjög samrýnd. Við höfum farið saman í margar utanlandsferðir og hafa þá vinir fengið að fylgja með, enda alltaf líf og fjör í kringum okkur. Þegar einhver úr fjölskyldunni var að skipta um húsnæði eða bíl þá þurftum við öll að fara saman að skoða og gefa okkar álit.
Ég var ekki mikil áhugamanneskja um fótbolta en þið pabbi horfðuð alltaf saman á fótboltann á laugardögum hér áður fyrr. Þá var oft fjör í kringum ykkur því þið lifðuð ykkur svo inn í leikina og leikmennirnir ekki alltaf að fara að ykkar óskum. Á eldri árum hefur fótboltaáhugi minn aukist og eitt sinn var ég spurð um með hvaða liði ég héldi í ensku deildinni og þá svaraði ég því að ég héldi með Tottenham eins og Stebbi bróðir. Ég fór með pabba á minn fyrsta Tottenham-leik í september sl. sem var ógleymanlegt og hringdi ég í myndsímtali til þín til að upplifa þetta með þér.
Þú varst góður pabbi og vildir allt fyrir drengina þína gera. Þú varst einstakur afi og sást ekki sólina fyrir afastelpunum þínum. Þær gátu alltaf beðið þig um eitthvað og alltaf sagði afi já. Þegar ég eignaðist Guðbjörgu Líf að þá gekkstu henni í föðurstað og áttuð þið einstakt samband saman.
Félagsvera varstu mikil og ekki nóg að vera í einum félagsskap heldur mörgum, t.d. bæði í Lions og Frímúrurum.
Elsku bróðir, takk fyrir að leiða mig inn kirkjugólfið núna í nóvember þegar við Bjöggi létum loksins pússa okkur saman. Við fjölskyldan áttum yndislegan dag saman með nánustu ættingjum og vinum sem við gleymum seint. Þú stóðst þig svo vel þó þú væri orðinn mjög veikur, en þetta var verkefni sem þú vildir taka að þér og leystir það vel eins og önnur verkefni. Þessi dagur er minning sem maður yljar sér nú við þegar maður hugsar til þín, elsku bróðir.
Þín er sárt saknað elsku bróðir. Það eru skrítnir tímar fram undan þar sem þú verður ekki í eldhúsinu á Þorláksmessu að elda skötu og saltfisk eða græja ananasfrómas fyrir aðfangadag, en þú gerðir besta ananasfrómas sem hægt er að fá. Jafnframt verður það skrítið að fá ekki knúsið frá þér á gamlárskvöld þegar við fögnum nýju ári en við fjölskyldan höfum alltaf verið saman á þeim degi.
Elsku bróðir, takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína. Þín verður alltaf sárt saknað en þú verður alltaf hjá okkur.
Þín systir
Jakobína.
Elsku Stebbi frændi.
Ég sakna þín svo innilega mikið enda varst þú svo mikilvægur partur í fjölskyldunni okkar. Ég get ekki ímyndað mér hversu erfið jólin og áramótin verða án þín. Ég vildi óska að þú gætir eytt jólunum og áramótunum með okkur eins og alltaf hefur verið. Ég man eftir öllu góðu stundunum sem við áttum heima hjá þér. Þá eldaðir þú alltaf svo góðan mat og passaðir að allir færu saddir heim. Ég hef eytt hverjum einustu áramótum heima hjá þér. Þá borðuðum við góðan mat og horfðum á áramótaskaupið á meðan við borðuðum eftirrétt, áður en við fórum út að sprengja flugelda. Þessi tími verður rosalega erfiður fyrir okkur og þín verður sárt saknað.
Þú hefur aldrei verið bara frændi minn fyrir mér enda fyrstu fimm árin mín tókuð þið afi að ykkur feðrahlutverkið. Ég man eftir að fara og heimsækja þig þegar ég var yngri og þú gafst mér oft smá pening svo ég gæti keypt mér nammi. Þú varst alltaf svo kátur og glaður og með hlátur sem ég vonast til að gleyma aldrei.
Takk fyrir allt elsku frændi, ég elska þig upp í geim og til baka endalaust.
Ástarkveðja.
Þín frænka,
Guðbjörg Líf.