Kvikmynd leikstjórans Jacques Audiard, Emilia Pérez, kom, sá og sigraði á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum, EFA, um nýliðna helgi. Markaði hún auk þess tímamót með því að vera fyrsta kvikmyndin með trans konu í aðalhlutverki sem hlýtur verðlaun fyrir bestu aðalleikkonu, þ.e. Körlu Sofíu Gascón. Hlaut kvikmyndin verðlaun fyrir bestu leikstjórn, besta handrit og verðlaun sem besta kvikmyndin. Verðlaunin voru afhent á laugardagskvöld í Lucerne í Sviss og var þetta í 37. sinn sem þau eru veitt.
Á þremur tungumálum
Jacques Audiard er franskur leikstjóri en kvikmyndin fjölþjóðlegt verkefni og í henni töluð þrjú tungumál, þ.e. spænska, enska og franska. Er myndin sett í flokk glæpa-, gaman-, söngva- og dramamynda á vefnum IMDb, Internet Movie Database. Handritið er byggt á líbrettói samnefndrar óperu eftir leikstjórann sem var lauslega byggð á skáldsögu Boris nokkurs Razon frá árinu 2018, Écoute. Segir í myndinni af foringja eiturlyfjahrings sem dreymir um að verða kona. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes 18. maí og hlaut á henni dómnefndarverðlaun og verðlaun fyrir besta hóp leikkvenna.
Óvænt
Gascón sagði verðlaunin hafa komið sér í opna skjöldu þegar hún tók við þeim um helgina. Hún hefði því ekki verið með þakkarræðu tilbúna. Þetta kemur fram hjá The Hollywood Reporter og fleiri erlendum miðlum. Tileinkaði hún verðlaunin móður sinni sem og öllum heimsins mæðrum, sagði framlag þeirra oft á tíðum vanmetið. Um leið helgaði hún verðlaunin öllum heimsins fjölskyldum og bað þess að foreldrar sýndu börnum sínum ást og umhyggju.
Emilia Pérez er framlag Frakklands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári og tilnefnd í flokki bestu alþjóðlegu kvikmyndar, eins og það heitir.
Heildarlista og frekari upplýsingar um verðlaunin má finna á vef þeirra, europeanfilmawards.eu.
helgisnaer@mbl.is