Stjarna Sandra Barilli er nýtt nafn á skjánum.
Stjarna Sandra Barilli er nýtt nafn á skjánum. — Skjáskot/RÚV
Sjónvarpsstöðvarnar fengu undanþágu frá Páli Gunnari í Samkeppniseftirlitinu sl. föstudagskvöld og efndu til sameigin­legs söfnunar- og skemmtiþáttar fyrir Unicef, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Sannarlega þarft verk og málstaðurinn góður

Björn Jóhann Björnsson

Sjónvarpsstöðvarnar fengu undanþágu frá Páli Gunnari í Samkeppniseftirlitinu sl. föstudagskvöld og efndu til sameigin­legs söfnunar- og skemmtiþáttar fyrir Unicef, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Sannarlega þarft verk og málstaðurinn góður.

„Hver er þessi ­Sandra Barilli?“ spurði vinur Ljósvaka, sem horfði á þáttinn og kannaðist við alla aðra umsjónarmenn en Söndru. Stöðvarnar tjölduðu sínum skærustu stjörnum með þau Ragnhildi Steinunni, Sigrúnu Ósk Kristjánsdóttur og Fannar Sveinsson, sem eru orðin þekkt andlit. Gísli Marteinn hvergi sjáanlegur og hefur sennilega brugðið sér í julefrokost á Strikinu.

Sandra er ný stjarna á hinum íslenska himni afþreyingar. Hún hefur meðfædda hæfileika til orðs og æðis í fyndni. Mætti jafna henni t.d. við Pétur Jóhann og Sveppa, sem eru fyndnir hvort sem þeir mæla af munni fram eða ekki. Sandra skaust á stjörnuhimininn sem Mollý í IceGuys en hefur brallað margt, bæði fyrir framan og aftan tökuvélarnar. Og hún er ekki af Barilli-ætt á Ítalíu. Er Gísladóttir en var skiptinemi hjá Barilli-fjölskyldu á Ítalíu sem umvafði hana.

Ljósvaki spáir því að hún verði í Skaupinu, ef ekki nú þá næst. Og stjarnan mun skína víðar.

Höf.: Björn Jóhann Björnsson