Stálorka flutti fyrir nokkrum árum í 2.000 fermetra húsnæði að Óseyrarbraut 29a í Hafnarfirði. Gunnar segir góða lofthæð í húsinu, stórar dyr og góða vinnuaðstöðu.
Stálorka flutti fyrir nokkrum árum í 2.000 fermetra húsnæði að Óseyrarbraut 29a í Hafnarfirði. Gunnar segir góða lofthæð í húsinu, stórar dyr og góða vinnuaðstöðu. — Aðsend/Stálorka
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stálorka í Hafnarfirði hefur í tæp 40 ár sinnt smíðavinnu og viðgerðum á bátum fyrir sjávarútvegsfyrirtæki og Gunnar Óli Sigurðsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda, segir starfsemi fyrirtækisins hafa breyst mikið frá stofnun, það sinni nú mun fjölbreyttari verkefnum

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is

Stálorka í Hafnarfirði hefur í tæp 40 ár sinnt smíðavinnu og viðgerðum á bátum fyrir sjávarútvegsfyrirtæki og Gunnar Óli Sigurðsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda, segir starfsemi fyrirtækisins hafa breyst mikið frá stofnun, það sinni nú mun fjölbreyttari verkefnum.

„Stálorka er fjölbreytt smiðja og tækniþjónusta og við smíðum úr stáli, ryðfríu, plasti og áli. Við erum með bátalyftur hérna í 2.000 fermetra húsnæðinu okkar í Hafnarfirði. Við getum því tekið báta að 25 metrum í slipp. Það er góð aðstaða hér til að taka stóra báta til okkar í viðhald,“ segir Gunnar.

Lengi vel var Stálorka mestmegnis í togaravinnu ýmiss konar, til dæmis að skipta um lunningar og byrðinga í skipum og bátum. Fyrirtækið var svo selt árið 2017 til Trefja ehf., og þremur árum síðar keypti Gunnar hlut í Stálorku. Hann er menntaður bæði sem tæknifræðingur og vélstjóri og hafði stundað sjóinn eftir nám.

„Trefjar höfðu áður verið að sinna bátum í slipp í gegnum tíðina. Sá hluti var færður yfir til Stálorku 2020, við það efldist fyrirtækið í viðhaldi báta í slipptöku. Það gerðist á sama tíma og Stálorka flutti í húsið sem við erum í núna á Óseyrarbrautinni í Hafnarfirði. Þar er hátt til lofts og stórar dyr og húsnæðið er sniðið að því að taka inn stóra báta. Síðan þá er starfsemin búin að eflast með hverju árinu,“ segir Gunnar.

Fyrirtækið vel tækjum búið

Hann segir að þegar Stálorka keypti Stýrivélaþjónustuna ehf. fyrir þremur árum hafi það gert fyrirtækinu kleift að þjónusta stýrivélar og glussakerfi í sjávarútvegi og ýmsum iðnaði.

„Við erum núna komnir með vélvirkjadeild sem sinnir þjónustu á stýrivélum og glussakerfum meðal annars hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi sem og þau sem starfa í ýmsum öðrum iðnaði. Einnig höfum við fræsi- og renniverkstæði og það má segja að við séum vel tækjum búnir fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Gunnar.

Það er ekki ofsögum sagt að Stálorka sé vel tækjum búið, þar sem fyrirtækið notar leiserskurðtæki sem sker bæði plötur og prófíla og vatnsskurðarvél sem sker í vatni, ásamt því að vera að byggja upp vélaverkfræðistofu.

„Undanfarin ár höfum við verið að byggja upp innan fyrirtækisins litla vélaverkfræðistofu, þar sem tæknideildin var orðin það stór hjá okkur. Það má segja að deildin sé eiginlega lítil verkfræðistofa,“ segir Gunnar.

Með öfluga tæknideild

Aðspurður segir hann að starfsmannafjöldinn sveiflist orðið á milli 30 og 40 og að þau fjölbreyttu verkefni sem fyrirtækið sinnir kalli á breiðan þverskurð starfsmanna sem búi yfir iðn- og tæknimenntun.

„Hjá okkar starfa renni-, skipa- og stálsmiðir, vélvirkjar og verkfræðingar. Við höfum einnig stafsmenn sem eru iðnmenntaðir í plastsmíði og viðgerðum. Það er að segja starfsmenn sem gera við trefjaplast í bátum og mála. Raunar allt sem viðkemur viðhaldi skipa og báta,“ útskýrir Gunnar.

Hann segir aðspurður að sérstaða fyrirtækisins liggi í slipptöku skipa og báta sem séu upp að 20 til 25 metrum. Hins vegar veitir Stálorka fyrirtækjum í sjávarútvegi og öðrum iðnaði fjölbreytta þjónustu og lausnir, enda hafi það innan sinna vébanda tækni- og verkfræðideild sem styður við alla vinnu í framleiðslu, hönnun, tilboðsgerð og heldur utan um verkefni.

„Þetta er má segja öll flóran hjá okkur, bátaviðgerðir og stálsmíði og plastviðgerðir hvers konar. Við tökum einnig að okkur alls konar lagnavinnu fyrir til að mynda laxeldisfyrirtæki. Það mætti segja að fyrirtækið sé stálsmiðja sem hefur öfluga tæknideild innan sinna raða. Við veitum sértækar lausnir sem eru sérsniðnar fyrir hvern og einn viðskiptavin,“ segir Gunnar.

Aukin verkefni í laxeldi

Spurður hver hafi verið helstu verkefni Stálorku á árinu segir hann að verkefnastaðan hafi verið mjög góð og fyrirtækið tekið fullt af bátum í slipp og reglubundið viðhald. En í desember sé iðulega frekar rólegt að gera.

„Nánast alla daga er bátur í slipp hjá okkur en þegar líða fer að jólum hægist á traffík báta til okkar. Vor, sumar og haustið er sá tími þegar bátar venja komur sínar til okkar til að fara í slipp eða hvers konar viðhald,“ segir Gunnar.

Aðspurður segir hann að verkefnastaðan hafi aldrei verið betri og það sé ekki síst að þakka vaxandi eldisiðnaði hér á landi.

„Verkefnin hafa aldrei verið meiri en núna og það hefur töluvert meiri aukning orðið á verkefnum í kringum fiskeldi. Til að mynda erum við byrjaðir að setja saman (sjóða) hitaveitulagnir úr plasti fyrir eldisiðnaðinn vestur á fjörðum. Erum með stórt verkefni á þessu ári fyrir landeldisfyrirtækið First Water í Þorlákshöfn, þar sem við smíðum ryðfría palla hjá þeim,“ segir Gunnar.

Aðspurður segist hann sjá mikil tækifæri í laxeldisiðnaðinum á hér landi.

„Þessi iðnaður hefur verið í miklum vexti á Íslandi undanfarin ár og við bindum miklar vonir við að laxeldið muni vinda upp á sig,“ segir Gunnar.

Höf.: Arinbjörn Rögnvaldsson