Úthald Taylor Swift á sviðinu á tónleikum í Miami Gardens á Flórída í október. Alls kom hún fram á 149 tónleikum á tónleikaferðinni Eras.
Úthald Taylor Swift á sviðinu á tónleikum í Miami Gardens á Flórída í október. Alls kom hún fram á 149 tónleikum á tónleikaferðinni Eras. — AFP/Chandan Khanna
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðm. Sv. Hermannsson gummi@mbl.is

Sviðsljós

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Bandaríska poppsöngkonan og lagahöfundurinn Taylor Swift hefur í tæp tvö ár ferðast um heiminn og haldið samtals 149 tónleika undir yfirskriftinni Eras.

Fyrstu tónleikarnir voru haldnir í Arizona í Bandaríkjunum 17. mars 2023 og þeir síðustu í Vancouver í Kanada á sunnudag. Í kjölfarið staðfesti framleiðslufyrirtæki söngkonunnar við dagblaðið New York Times að samtals hefðu selst miðar fyrir rúma 2 milljarða dala eða nákvæmlega 2.077.618.725 dali. Það jafngildir um 280 milljörðum króna.

Þetta er tvöfalt hærri tala en nokkur annar listamaður getur státað af. Sá sem hefur komist næst henni er breski tónlistarmaðurinn Elton John sem seldi miða fyrir 939 milljónir dala á kveðjutónleikaferð sinni sem stóð yfir í fimm ár.

Tíu milljónir tónleikagesta

Gríðarleg eftirspurn var eftir miðum á tónleika Swift. Þegar fyrirtækið Ticketmaster hóf forsölu á aðgöngumiðum í nóvember 2022 var eftirspurnin svo mikil að stöðva varð söluna. Í kjölfarið hefur Ticketmaster lent í vandræðum, bandarískir þingmenn lýstu því yfir að móðurfélagið Live Nation væri í einokunarstöðu og bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur höfðað mál gegn félaginu og krafist þess að því verði skipt upp.

Hvert sæti var skipað á öllum tónleikunum. Samkvæmt tölum frá fyrirtækinu sem skipulagði tónleikaferðina sóttu samtals 10.168.008 gestir tónleikana, sem svarar til þess að hver aðgöngumiði hafi að jafnaði kostað 204 dali, jafnvirði 38 þúsund króna.

Fjölmennustu tónleikarnir voru í Melbourne í Ástralíu í febrúar á þessu ári sem 96 þúsund manns sóttu. Þá hélt Swift átta tónleika á Wembley-leikvanginum í Lundúnum fyrir framan samtals 753.112 gesti.

En miðasalan er aðeins hluti af heildartekjunum sem tónleikaferðin hefur skapað. Þannig hefur ýmiskonar varningur tengdur söngkonunni og tónleikaferðinni selst eins og heitar lummur. Eftirspurnin var svo mikil, að víða voru settir upp sölubásar degi fyrir tónleika þar sem hægt var að kaupa boli, hettupeysur, jólaskraut og aðra muni merkta Swift.

Þá hafa tónleikar Swift haft afar jákvæð áhrif á efnahag þeirra borga þar sem þeir hafa verið haldnir. Hún hélt m.a. sex tónleika í Toronto í Kanada áður en hún fór til Vancouver og AFP-fréttaveitan hefur eftir ferðamálayfirvöldum að tekjur borgarinnar, sem rekja megi til tónleikanna, hafi numið 282 milljónum kanadadala, jafnvirði um 27 milljarða króna.

Söng öll lögin á hlaupum

Eras-tónleikaferðin vakti gríðarlega athygli um allan heim og áhrifum Swift hefur verið líkt við bresku Bítlana á sínum tíma. Í október á síðasta ári sendi Swift frá sér nærri þriggja klukkutíma langa kvikmynd um tónleikana og bók um tónleikaferðina, sem kom út í nóvember, seldist í 814 þúsund eintökum á tveimur dögum.

Tónleikaferðin hefur einnig fengið afar góða dóma gagnrýnenda og Swift hefur hlotið lof fyrir þá orku og úthald sem hún hefur sýnt á tónleikunum en þeir hafa flestir verið nærri fjögurra klukkustunda langir.

Hún upplýsti í viðtali við tímaritið Time, að hún hefði stundað líkamsþjálfun í hálft ár fyrir tónleikaferðina og á þeim æfingum meðal annars sungið öll lögin, sem hún síðar flutti á tónleikunum, á meðan hún hljóp á hlaupabretti.

Taylor Swift

Árifamikill listamaður

Taylor Alison Swift fæddist 13. desember árið 1989 í West Reading í Pennsylvaníu og verður því 35 ára gömul á fimmtudaginn. Fyrsta plata hennar, Taylor Swift, kom út árið 2006 en alls hefur hún sent frá sér ellefu plötur og fjórar plötur að auki þar sem hún endurgerði fyrri plötur. Sjö af plötunum seldust í yfir milljón eintökum innan viku frá því að þær komu út.

Swift er áhrifamesti listamaður heims um þessar mundir. Hún hefur hlotið 14 Grammy-verðlaun og tugi annarra tónlistarverðlauna. Hún er tilnefnd til sex Grammy-verðlauna fyrir plötuna The Tortured Poets Department, sem kom út í vor og fór raunar á ný í efsta sæti Billboard-listans í vikunni.