Bashar að nálgast rétta hillu. Við skulum sjá

Suður-Kórea og Sýrland eru fjarlæg ríki hvort öðru og um fátt lík. En í byrjun jólamánaðarins hafa þessi ríki „náð athyglinni“ hér svo að ekki verði dregið í efa. Suður-Kórea er almennt talin vera og er lýðræðisríki, og þess vegna kom það umheiminum töluvert á óvart þegar forseti þess sigaði her landsins á löggjafarsamkomuna, af næsta litlu tilefni. Þetta umrót kom öllum á óvart, nær og fjær, og úrslit þessara mála urðu um flest ólík.

Löggjafarþinginu og almenningi í Kóreu var bæði brugðið og misboðið. Þetta andóf dugði til þess að forseti Kóreu lagði niður skottið, baðst afsökunar á frumhlaupi sínu og fyrirgefningar á sínum skrítnu gerningum. Síðast þegar Kóreu-málið var skoðað taldi forsetinn, Yoom Suk Yeol, eða sagði það a.m.k., að bregðast þyrfti við aðgerðum áhangenda og undirróðursmanna Kim Jong-un, sem er alvaldurinn í Norður-Kóreu og eins konar staðgengill guðlegs almættis norðan megin línunnar sem skiptir landinu í tvær ólíkar tilverur.

Þingið í Suður-Kóreu mannaði sig upp í að blása til afsagnar forsetans vegna frumhlaupsins, en til þess fékkst ekki nægur meirihluti. Síðast þegar fréttist gekk forsetinn fljótfæri enn laus og má gleðjast yfir því hversu létt hann slapp eftir frumhlaup sitt. Því að það eru allmörg dæmi frá Suður-Kóreu þar sem forsetar eða valdsmenn sem nálgast þá í tign og völdum hafa farið verulega fram úr sjálfum sér og hafa verið dregnir fyrir dómstóla og fengið þunga dóma um langa tíð á bak við lás og slá. En eftirmenn þeirra hafa haft vit á að laga tilvonandi fordæmi til og hafa gefið þeim frelsi á ný eftir mjög skamma hríð. En þetta mál, eins og hin fyrri, hefur ekki endilega gert þessu ágæta ríki gott, nema síður sé.

En þá er það öllu meira mál, sem kom þó nánast öllum heiminum á óvart, rétt eins og Kóreu-málið, en er mun líklegra til eftirmála í sínum heimshluta, og eru þó þar mikil mál í gangi og hafa gengið þar um hríð með margvíslegum hörmungum. Þetta mál er þó til þess fallið að sýna að valdamynstrin eru að breytast og áhrif þess eru líkleg til að skapa nýja stöðu langt yfir núverandi átakasvæði.

Hér í blaðinu og ekki síst á þessum vettvangi hefur margt og mikið verið skráð, og verið þess virði, enda saga Assad-fjölskyldunnar bæði löng og ljót, ef svo má segja. En eitt og annað hefur þó verið gert til að hreinsa Sýrland af þeim ósóma, en hvorki gengið eða rekið. Í raun er fjölskyldugreinin sem haldið hefur um valdataumana í Sýrlandi ekki löng, þótt valdaskeiðið sé glettilega langt.

Assad fyrsti, ef svo má nefna hann, var talinn harðsnúinn og grimmur og sonur hans, sem karl hafði valið sem eftirmann, varð ekki langlífur, en umræðan var sú, að sá væri harðsnúinn og grimmur og líkur pabba, eins og þykir svo gott í ýmsum fjölskyldum. En þriðji sonurinn var talinn fremur mjúkur og fjarri því að vera harður í horn að taka. Hann lærði læknisfræði og hans sérgrein var augnlækningar og lærði hann þau fræði meðal annars í Bretlandi. En þar sem stóri bróðir varð ekki langlífur þá ákvað gamli Assad, að hvað sem þessu augnlæknagutli liði, yrði sá Assad, sem eftir var, að koma heim og læra þar hjá pabba það sem væri hið raunverulega háskólanám.

Bashar al-Assad hlýddi kallinu, en lengi var fjallað um hin illu örlög hins efnilega augnlæknis. Hann var þó tiltölulega fljótur að læra fjölskyldufræðin og einkum þó það, að það væru ekki margir kostir í boði ætluðu menn að halda lífi og limum fyrir sig og fjölskylduna. En það er þó engin ástæða til að gráta framangreind örlög Bashars al-Assads, því að honum virtist létt að fara þá örlagabraut sem Hafez al-Assad hafði markað honum.

En fall augnlæknisins, og þar með vonandi arfur pabba gamla, kom sannarlega ekki of fljótt. Hans öryggi var í hendi Pútíns forseta Rússlands og æðstaprestsins í Teheran. Fall Assads er af mörgum talið marka það, að Rússland hafi ætlað sér um of í Úkraínu og þoli ekki önnur stríð á meðan og að magnaðar hefndarárásir Ísraels á Íran vegna eldflaugaárása þeirra hafi veikt það land mjög og nú væri Trump væntanlegur eftir svo sem sjö vikur og Íran megi ekki við meiru.