Jóhann L. Helgason
Jóhann L. Helgason
Evran er stöðug og sterk og hagvöxtur hefur verið með ágætum þótt heldur hafi dregið úr honum upp á síðkastið.

Jóhann L. Helgason

Þá eru þessar ekki alveg svo óvæntu en snöggsoðnu kosningar til Alþingis Íslendinga afstaðnar. Skytturnar þrjár Kristrún, Þorgerður og Inga eru sigurvegarar kosninganna og það með afgerandi hætti.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, hinir væntanlegu stjórnarandstöðuflokkar, koma laskaðir frá þessum kosningum og þá alveg sérstaklega Framsóknarflokkurinn sem rétt náði inn á þing eftir að hafa verið úti í kuldanum um skeið. Þriðji stjórnarflokkurinn, VG, var í algerum sérflokki í þessum kosningum og alveg einstaklega duglegur og laginn við að koma sjálfum sér fyrir kattarnef, fyrst út úr sjálfri ríkisstjórninni og stuttu síðar út af hinu heilaga Alþingi með aðeins rúmlega 2% fylgi.

Það mun fara í sögubækurnar.

Og núna eru skytturnar þrjár á stífum fundum sem auðvitað tilheyrir myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Það hlýtur að vera alveg heilmikið púl og sviti að koma slíku heim og saman. Ekki spurning.

En eins og tíðkast í slíkum viðræðum við myndun nýs meirihluta og stjórnarsáttmála verður svolítið að velja og hafna og sumt er sett í frystikistuna til síðari tíma afþýðingar, og allt reynt til að ná samkomulagi, sem stundum heppnast, en stundum ekki. Það er hinn eðlilegi gangur.

Í þessum samræðum sem nú standa yfir þar sem tveir flokkanna eru hlynntir ESB held ég
að allur almenningur bíði spenntur eftir þeirri framvindu, því að henni kemur fljótlega, en hvenær nákvæmlega er ekki gott að segja.

Mér persónulega hefur alltaf fundist mjög einkennilega barnalegur þessi áróður ákveðinna afla gegn ESB-aðild hér á landi og óþarflega mikill hræðsluáróður framsettur í því sambandi. Hvað eru menn eiginlega svo hræddir við? Heldur fólk virkilega að ESB muni bara hrifsa til sín auðlindir okkar og setja síðan íslensku þjóðina í hlekki?

Á öllum þessum árum sem Evrópusambandið hefur verið til hefur það ekki ennþá gerst að það hafi hrifsað til sín auðlindir annarra þjóða ófrjálsri hendi.

Við Íslendingar höfum í gegnum tíðina innleitt um 65% af regluverki ESB í okkar stjórnsýslu og því verður ekki mótmælt.

Ég hef heldur ekki komið auga á að það hafi eitthvað meitt okkur Íslendinga í ólgusjó viðskiptanna, heldur þvert á móti hefur það frekar gert okkur gott.

Þeim 27 þjóðum sem eru nú þegar meðlimir í ESB virðist líða alveg ágætlega þar innandyra. Evran er stöðug og sterk og hagvöxtur hefur verið með ágætum þótt heldur hafi dregið úr honum upp á síðkastið. Og er það bara ekki allt í lagi, og eðlilegt, að hagkerfi kæli sig niður af og til?

ESB er með grunnreglur fyrir öll ríki sem ganga þangað inn. Samt er það svo að öll ríkin innan sambandsins eru hvert og eitt með sinn sérstaka samning við ESB sem þau hafa komist að samkomulagi um eftir mislangt samningsferli og síðan undirritað við inngöngu í hið volduga samband.

Þannig myndi það einnig vera hjá okkur Íslendingum. Ná góðum samningum.

Auðvitað er það einnig þannig, séð frá bæjardyrum Evrópusambandsins, að það er ekki heldur ákjósanleg niðurstaða fyrir Evrópusambandið að eitthvert þjóðríki gerist þar meðlimur með slæman samning í höndunum. Það gengur einfaldlega ekki upp, sama í hvaða átt er litið.

Sama hjá þjóðunum 27, hver og ein þeirra hefði aldrei gengið inn í sambandið nema með góðan samning í hliðartöskunni sem síðan er samþykktur á lögþingi þjóðarinnar.

Evrópusambandið var stofnað árið 1957 og hefur eðlilega breyst og stækkað í tímans rás.

Í þessum brjálaða heimi sem við lifum í þessa dagana, þar sem stríð og þjóðarmorð eru má segja daglegt brauð og alls ekki svo langt frá okkur, finnst mér Evrópusambandið standa sterkt og vera akkerið í sameinuðu ríki Evrópusambandsþjóðanna.

Sterkt í friði, sem og í ófriði.

Verðandi forseti USA er andvígur aðild að NATO, hefur tilkynnt að Bandaríki Norður-Ameríku muni yfirgefa varnarsamstarf Atlantshafsbandalagsins.

Svona yfirlýsingar frá væntanlegum forseta Bandaríkjanna verður að taka alvarlega, sama hvort USA framkvæma útgönguna í áföngum eða strax mun þetta hafa töluverðar afleiðingar í för með sér.

Að þessu sögðu myndi ég telja að Evrópusambandið muni gegna ennþá mikilvægara hlutverki sem sameinuð Evrópa mun kalla eftir í framtíðinni.

Varðandi hugsanlegar aðildarviðræður Íslendinga við ESB og það sem hefur verið drepið á hér að framan, er þá ekki alveg ágætt, ef ekki barasta nauðsynlegt, að hefja að nýju aðildarviðræður við ESB, og skoða vel hvað er í pottinum og treysta okkar fólki í þeim viðræðum, sem mun síðan leggja samningsdrögin fyrir íslensku þjóðina?

Svo að jarðarberinu á rjómakökunni, ef menn vilja endilega halda í íslensku krónuna sem aðalgjaldmiðil er það auðvitað ekkert vandamál, gerum bara eins og Danir, festum krónuna við evruna. Þá fáum við stöðugleikann og krónan hættir að hoppa og skoppa í hjólbörum ofurvaxta og verðtryggingar. Íslensku þjóðina vantar sárlega stöðugleikann. Sækjum hann.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Jóhann L. Helgason