Hvassviðri Fólk þurfti sannarlega að passa upp á regnhlífar sínar.
Hvassviðri Fólk þurfti sannarlega að passa upp á regnhlífar sínar. — Morgunblaðið/Eggert
Hitamet desembermánaðar var ekki í hættu í hitabylgjunni sem gekk yfir landið um helgina. Svona hlýtt loft heimsækir okkur endrum og sinnum í desember. Skyndifletting stingur upp á að það gerist á 7-8 ára fresti að jafnaði, segir Trausti Jónsson veðurfræðingur í pistli á Moggablogginu

Hitamet desembermánaðar var ekki í hættu í hitabylgjunni sem gekk yfir landið um helgina.

Svona hlýtt loft heimsækir okkur endrum og sinnum í desember. Skyndifletting stingur upp á að það gerist á 7-8 ára fresti að jafnaði, segir Trausti Jónsson veðurfræðingur í pistli á Moggablogginu.

Á sunnudagskvöldið fór hitinn í 17,6 gráður á tveimur veðurstöðvum þ.e. í Siglufirði og á Sauðanesvita við Siglufjörð. Í Héðinsfirði mældist hitinn 17,2 stig. Í gær fór hitinn hæst á Sauðanesvita, í 17 gráður, 16,2 gráður á Seyðisfirði og 16,1 gráðu á Akureyri.

Trausti rifjar upp að fyrir fimm árum, í desemberbyrjun 2019, kom lítið eitt hlýrra loft yfir landið. Þá urðu þau tíðindi að landsmánaðarhitamet var sett í Kvískerjum í Öræfum og hiti á fleiri stöðvum varð hærri heldur en áður hafði mælst í mánuðinum.

Hitinn á Kvískerjum mældist 19,7 stig og 19,0 stig í Bakkagerði á Borgarfirði eystra og 18,7 stig í Vestdal við Seyðisfjörð. Gamla metið var 18,4 stig á Sauðanesvita 14. desember 2001.

Dægurmet féllu á meira en 200 stöðvum í hitabylgjunni 2019, samkvæmt samantekt Trausta. Sumar stöðvanna höfðu að vísu athugað aðeins í örfá ár.

Um hitabylgjuna um helgina bloggar Trausti: „Þótt skyndihlýindi á þessum tíma árs séu raunar sjaldnast mikið fagnaðarefni hagar þó þannig til nú víða um sunnan- og vestanvert landið að illur en þunnur klaki liggur á gangstéttum og plönum, gott væri að losna við hann. Hvað þessum skammvinnu hlýindum verður ágengt í því verður bara að koma í ljós.“ sisi@mbl.is