Ásgeir G. Daníelsson
Ásgeir G. Daníelsson
Baudenbacher misskilur greiningu Stiglitz. Hagkvæmni tryggingar ræðst ekki bara af freistnivanda heldur líka af áhættu og áhættufælni.

Ásgeir G. Daníelsson

Morgunblaðið birti 1. nóv. sl. ritdóm Björns Bjarnasonar um bók Svavars Gestssonar, Það sem sannara reynist. Í ritdóminum gagnrýnir Björn að Svavar „nefnir ekki hlut Carls Baudenbachers dómsforseta í frásögn af niðurstöðum EFTA-dómstólsins“ í Icesave-málinu árið 2013. Því miður nefnir Björn ekki af hverju hann telur það gagnrýnivert að nefna ekki „hlut“ dómsforsetans. Hér á eftir verður fjallað um skilning Baudenbachers á sambandi freistnivanda (e. moral hazard) og trygginga og möguleg áhrif hans á niðurstöðu dómsins.

Baudenbacher og hagfræði trygginga

Í dómi EFTA-dómstólsins er eftirfarandi tilvitnun í grein eftir bandarískan nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, Joseph E. Stiglitz: „(Þ)eim mun betur sem fólk er tryggt fyrir tiltekinni tegund óhappa þeim mun minni hvati er fyrir það að fyrirbyggja slíkt óhapp, enda ber það þeim mun minni hluta kostnaðar vegna óhappsins.“[1] Í dómnum er ekki sagt hvaða ályktun eigi að draga af þessum orðum en það er gert í bók Baudenbachers, Judicial Independence Memoirs of a European Judge, sem út kom árið 2019 og í viðtali við Baudenbacher sem birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 2019. Þar kemur fram að Baudenbacher er stoltur af því að vera brautryðjandi í því að vitna í hagfræðinga í dómi. Í viðtalinu segir Baudenbacher í beinu framhaldi af tilvitnuninni í Stiglitz: „Hugmyndin um að forðast freistnivanda er að ekki ætti að skapa aðstæður þar sem einhver getur tekið áhættu vitandi að aðrir muni borga … Slíkt ber að forðast. Því ef einhver borgar að lokum, skattgreiðandinn, munu bankarnir taka of mikla áhættu. Það er það sem við segjum í þessum dómi.“

Í greininni fjallar Stiglitz almennt um freistnivanda og tryggingar en ekkert um innstæðutryggingar. Það sem Stiglitz segir í tilvitnuninni á við um flestar tryggingar, t.d. bílatryggingar og brunatryggingar. Tryggingar skapa hvata fyrir þann tryggða að taka áhættu (t.d. aka gáleysislega, eða vanrækja brunavarnir) vegna þess að þær bæta tjón. Í því felst freistnivandi. En á sama tíma bjóða tryggingar mikinn ábata með því að vernda fólk gegn áhættu. Í greininni segir Stiglitz: „Þegar tryggingarskilmálar eru útbúnir þarf að vega áhrif af áhættu á móti áhrifum af hvötum (þ.e. freistnivanda – ÁD): þeim mun meiri áhættufælni og þeim mun meiri áhætta, þeim mun mikilvægara er fyrir einstakling að dregið sé úr þeim hluta áhættunnar sem hann þarf að bera.“ (bls. 8) Þessi niðurstaða er nokkuð á skjön við niðurstöðu Baudenbachers sem nefnir ekki áhrif af áhættu.

Stiglitz og innstæðutryggingar

Stiglitz hefur oft fjallað um innstæðutryggingar en aldrei fengið sömu útkomu og Baudenbacher. Fyrir tæpum tveimur árum þegar nokkrir bankar í Bandaríkjunum urðu gjaldþrota og ákveðið var að greiða eigendum innstæðna í þeim bætur umfram 250.000 dollara hámarkið sem reglugerðir kváðu á um skrifaði Stiglitz: „Hluthafar og eigendur skuldabréfa sem högnuðust á áhættutöku fyrirtækisins eiga að taka afleiðingunum. En þeir sem eiga innstæður í SVB (Silicon Valley Bank – ÁD) – fyrirtæki og heimili sem treystu eftirlitsaðilum til að gera það sem þeir eiga að gera, eins og þeir hafa ítrekað fullvissað almenning um að þeir séu að gera – fái fullar bætur, hvort heldur sem um er að ræða innstæður yfir eða undir 250.000 dollara „tryggðu“ fjárhæðinni.“[2] Í þessari grein bendir Stiglitz á léleg vinnubrögð eftirlitsaðila og slakt regluverk sem sökudólga en ekki innstæðutryggingar.

Lokaorð

Niðurstaðan í Icesave-málinu var hagfelld fyrir íslenska ríkið, m.a. vegna niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Þessi niðurstaða er eitt dæmi af mörgum þar sem þróun mála eftir gjaldþrot bankanna árið 2008 reyndist mun hagstæðari en á horfðist í byrjun. Icesave-málið og umræðan um það hafði hins vegar margvísleg neikvæð áhrif. Hamlandi áhrif þess á umræður um mikilvæg atriði í fjármálakerfinu eins og innstæðutryggingar sjást t.d. vel í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kom út árið 2018.

Baudenbacher misskilur greiningu Stiglitz. Hagkvæmni tryggingar ræðst ekki bara af freistnivanda heldur líka af áhættu og áhættufælni. Mér finnst líka eitthvað bogið við það þegar Baudenbacher segir um niðurstöðu EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu árið 2013 „að ekki ætti að skapa aðstæður þar sem einhver getur tekið áhættu vitandi að aðrir muni borga … Það er það sem við segjum í þessum dómi.“ (leturbr. ÁD) Á dómari að dæma út frá því sem hann telur vera heppilegt fyrirkomulag mála eftir lestur á grein eftir virtan hagfræðing?

[1] Stiglitz, Risk, Incentives and Insurance: The Pure Theory of Moral Hazard, The Geneva Papers on Risk and Insurance, janúar 1983, bls 6.

[2] J.E. Stiglitz, Another predictable bank failure, sem birtist m.a. í Irish Examiner 14. mars 2023.

Höfundur er fv. forstöðumaður rannsóknar- og spádeildar Seðlabanka Íslands.

Höf.: Ásgeir G. Daníelsson