Enska knattspyrnufélagið Stockport County hefur komist að samkomulagi við KR um kaup á framherjanum efnilega Benoný Breka Andréssyni. Benoný, sem er 19 ára gamall og varð markakóngur Bestu deildar karla 2024 þegar hann sló markamet deildarinnar með…

Enska knattspyrnufélagið Stockport County hefur komist að samkomulagi við KR um kaup á framherjanum efnilega Benoný Breka Andréssyni. Benoný, sem er 19 ára gamall og varð markakóngur Bestu deildar karla 2024 þegar hann sló markamet deildarinnar með því að skora 21 mark fyrir KR, gengur formlega til liðs við félagið um áramótin þegar félagaskiptaglugginn á Englandi verður opnaður. Hann þarf auk þess að fá alþjóðleg félagaskipti og atvinnuleyfi á Bretlandseyjum. Stockport er nýliði í ensku C-deildinni en er þar í fimmta sæti og hefur sett stefnuna á að vinna sér sæti í B-deildinni.

Amalía Ósk Sigurðardóttir keppti á heimsmeistaramótinu í ólympískum lyftingum í Barein í gær. Hún hafnaði í 37. sæti af 44 keppendum í -64 kg flokki kvenna, snaraði 80 kílóum og jafnhenti 100 kíló og var því samtals með 180 kíló.

Færeyski landsliðsmaðurinn Gunnar Vatnhamar missir af öðrum leik Víkings í röð í Sambandsdeildinni í fótbolta þegar liðið mætir Djurgården á Kópavogsvellinum í dag. Gunnar er frá vegna meiðsla og lék heldur ekki gegn Noah í Armeníu fyrir tveimur vikum. Pablo Punyed er frá keppni eins og áður en að öðru leyti eru allir í leikmannahópi Víkings klárir í slaginn í dag.

Haraldur Björn Hjörleifsson leikur ekki meira með Fjölni í úrvalsdeild karla í handbolta á þessu tímabili. Hann staðfesti í gær við handbolti.is að krossband í hné hefði slitnað í leik gegn KA fyrir skömmu. Haraldur hefur verið í stóru hlutverki hjá nýliðum Fjölnis og skorað 42 mörk í 11 leikjum með liðinu í deildinni.

Þýskaland tryggði sér sjöunda sætið á Evrópumóti kvenna í handbolta í gær með því að gjörsigra Slóveníu, 35:16, í lokaumferð milliriðlakeppninnar í Vínarborg í gær. Annika Lott var markahæst í þýska liðinu með sex mörk og Nina Engel skoraði fimm.

Danmörk lagði Holland, 30:26, í hreinum úrslitaleik um annað sætið í milliriðli 2 á Evrópumóti kvenna í Vínarborg í gærkvöldi og tryggði sér þannig sæti í undanúrslitum. Þar mætir Danmörk liði Frakklands á föstudag. Dione Housheer var markahæst í leiknum með tíu mörk úr jafnmörgum skotum fyrir Holland. Anne Mette Hansen var markahæst hjá Danmörku með sjö mörk. Noregur, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, mætir Ungverjalandi í hinum undanúrslitaleiknum, einnig á föstudag.