Formaðurinn Hjörtur setur landsmót hestamanna í Víðidal í Reykjavík árið 2024.
Formaðurinn Hjörtur setur landsmót hestamanna í Víðidal í Reykjavík árið 2024.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjörtur Bergstað er fæddur 15. desember 1964 og átti því sextugsafmæli í gær. Hann fæddist á Landspítalanum í Reykjavík og sleit barnsskónum í Fossvoginum. Hjörtur fór fyrst í sveit aðeins fimm ára gamall

Hjörtur Bergstað er fæddur 15. desember 1964 og átti því sextugsafmæli í gær. Hann fæddist á Landspítalanum í Reykjavík og sleit barnsskónum í Fossvoginum.

Hjörtur fór fyrst í sveit aðeins fimm ára gamall. „Það er sagt að ég hafi verið fyrirferðarmikill í æsku og var sendur í sveit á Sturluhól í Húnavatnssýslu og er í tvö sumur þar og svo á Brekku í Skagafirði, í önnur tvö sumur þar. Ég fer síðan tíu ára gamall í sveit á Vatnsleysu í Biskupstungum og er þar í sex sumur og held þar til enn hjá heiðurshjónunum Sigurði Erlendssyni og Jónu Ólafsdóttur. Það mynduðust órjúfanleg bönd við Sigga og Jónu og börn þeirra.“

Hjörtur fékk ungur áhuga á sveitinni og hestum. „Ég er skráður til heimilis á Krika sem er lítið nýbýli út úr Vatnsleysu. Minn draumur hefur verið alla tíð að gerast bóndi og vera innan um skepnur. Það var svo á Vatnsleysu sem ég smitaðist af hestamennskunni. Siggi og Jóna gefa mér í fermingargjöf minn fyrsta hest, sem var afburðagóður og hægt að nota í keppni. Sá hestur varð örlagavaldur í mínu lífi og einnig fjölskyldu minnar vegna þess að foreldrar mínir fóru þá aftur að stunda hestamennsku, en þau höfðu gert hlé á henni þegar þau byggðu sér hús.“

Stórum hluta ævinnar hefur Hjörtur varið í félagsmál hestamanna og hefur hann verið formaður Fáks frá 2013. Hann hefur verið í stjórn Fáks meira og minna síðan 1991 og hlaut gullmerki Landssambands hestamannafélaga 2022. „Fákur er eitt öflugasta hestamannafélag landsins, sérstaklega keppnislega séð. Við héldum stærsta og fjölmennasta, og að ég tel, eitt best rekna landsmót sem haldið hefur verið, síðasta sumar. Einnig höfum við verið í fararbroddi að veita ungu fólki, sem á ekki aðstandendur sem eru í hestaíþróttum, brautargengi til að geta stundað þetta frábæra sport.“

Valdimar Bergstað, sonur Hjartar, er margfaldur Íslandsmeistari og heimsmeistari í hestaíþróttinni og fór mikill tími í að sinna ferli hans. „Það er líka það sem er svo skemmtilegt við hestaíþróttina, hún er svo fjölskylduvæn. Dóttir mín Bertha Liv er svo að hefja sinn feril og hefur gríðarlegan áhuga á að standa sig vel. Kristján hefur hins vegar aldrei haft áhuga á hestum heldur hefur hann verið í öðrum íþróttum.“

Hjörtur lauk grunnskólaprófi frá Réttarholtsskóla, fór þaðan í Kvennaskólann í Reykjavík og svo í Tækniskólann.

Hann hefur unnið alla tíð hjá fjölskyldufyrirtækinu Málningu, en fyrirtækið var stofnað af langafa Hjartar, Pétri Guðmundssyni, og tengdasyni Péturs og afa Hjartar, Baldvin Einarssyni. „Ég hef bara alla tíð verið þarna og sinnt alls konar störfum innan fyrirtækisins og sit í stjórn Málningar,“ en Hjörtur situr einnig í stjórn fleiri fyrirtækja.

Hjörtur stundaði mikið skíði á unglingsárum og er nú í seinni tíð mikill áhugamaður um golf. „Við Baldvin kepptum mikið á skíðum en þá var ég ekki byrjaður í hestamennskunni. Ég var nú aldrei afreksmaður eins og bróðir minn, en þegar ég er 14 ára slasaðist ég mjög illa á skíðum. Ég gat því ekki stundað skíðin eftir það sem afreksíþrótt en hef farið í skíðaferðir utanlands. Fyrir fimm til sex árum byrjaði ég að stunda golfíþróttina sem er frábært sport. Ég stefni ekki á að vera forgjafarlægsti golfarinn en allavega golfari sem brosir og hefur gaman af því að spila golf.“

Fjölskylda

Eiginkona Hjartar er Sóley Halla Möller, f. 29.3. 1969, flugfreyja og hundasnyrtir. Þau eru búsett á Krika í Biskupstungum. Foreldrar Sóleyjar: Berthram Henry Möller, f. 11.1. 1943, d. 20.1. 2007, söngvari og lögreglumaður í Reykjavík, og Guðríður Erla Halldórsdóttir, f. 16.2. 1945 í Hörgslandi á Síðu, húsmóðir, búsett í Reykjavík.

Sonur Hjartar frá fyrra sambandi er 1) Valdimar Bergstað, f. 19.12. 1989, flugmaður, búsettur í Kópavogi. Maki: Theódóra Róbertsdóttir dýrahjúkrunarfræðingur. Sonur þeirra er Kolbeinn Bergstað, f. 13.8. 2021. Sonur Sóleyjar er 2) Kristján Henry, f. 5.11. 1996, osteópati, búsettur í Hafnarfirði. Maki: Kristín Sólborg Ólafsdóttir hársnyrtir. Sonur þeirra er Örvar Henrý, f. 30.11. 2021; Dóttir Hjartar og Sóleyjar er 3) Bertha Liv Bergstað, f. 9.7. 2009.

Bróðir Hjartar er Baldvin Valdimarsson, f. 3.7. 1966, framkvæmdastjóri Málningar, búsettur í Garðabæ. Maki: Laufey Hauksdóttir.

Foreldrar Hjartar eru hjónin Valdimar Bergstað, f. 16.7. 1944, stjórnarformaður Málningar, og Halldóra Baldvinsdóttir, f. 16.9. 1946, húsmóðir og hrossaræktandi. Þau eru búsett á Vakurstöðum í Holtum, Rangárvallasýslu. Valdimar og Halldóra gengu í hjónaband 17. apríl 1965 en þann sama dag var Hjörtur skírður.