Stjórnarmyndun Til stóð að funda um ágreiningsmál yfir helgina.
Stjórnarmyndun Til stóð að funda um ágreiningsmál yfir helgina. — Morgunblaðið/Eyþór
Formenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins funduðu ekki saman um helgina eins og stóð til að gera. Þess í stað fóru þeir yfir þá vinnu sem vinnuhópar flokkanna höfðu skilað af sér, hver í sínu lagi

Birta Hannesdóttir

birta@mbl.is

Formenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins funduðu ekki saman um helgina eins og stóð til að gera. Þess í stað fóru þeir yfir þá vinnu sem vinnuhópar flokkanna höfðu skilað af sér, hver í sínu lagi. Formennirnir þrír koma saman til fundar fyrir hádegi í dag, fara yfir vinnu helgarinnar og halda viðræðunum áfram.

Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar í samtali við Morgunblaðið.

Ekki samhljómur um allt

Greint var frá því fyrir helgi að formenn flokkanna þriggja ætluðu að funda um ágreiningsmál yfir helgina. Vinnuhópar flokkanna skiluðu af sér tillögum til formannanna fyrir helgi og sagði Þorgerður á blaðamannafundi á föstudag að tillögurnar bæru þess merki að ekki væri samhljómur um allt á milli þeirra.

Þorgerður segir að ekki séu mörg ágreiningsmál sem eigi eftir að ræða, en þó einhver. Kveðst hún vongóð um að það takist að leysa úr þeim eins og hafi tekist til þessa.

Hún vildi ekkert gefa upp um hvaða mál það væru sem flokkana greinir enn á um.

„Miðað við hvernig þetta hefur gengið fram til þessa þá mun leysast úr mörgu á næstu dögum,“ segir Þorgerður.

Hún segir að enn sé stefnt að því að hefja ritun á nýjum stjórnarsáttmála í vikunni. Aðspurð segir hún að ekki sé farið að ræða skiptingu ráðuneyta heldur séu það málefnin sem hafi verið í fyrirrúmi.

Höf.: Birta Hannesdóttir