HM25 Guðmundur Leo Rafnsson átti eftirminnilegt fyrsta stórmót.
HM25 Guðmundur Leo Rafnsson átti eftirminnilegt fyrsta stórmót. — Ljósmynd/Aleksandar Djorovic
Sveit Íslands synti gríðarlega vel á lokadegi HM í 25 metra laug í gær þegar hún setti nýtt Íslandsmet í 4x100 metra fjórsundi. Sveitin bætti Íslandsmetið í greininni um rúmar fimm sekúndur þegar hún synti á 3:33,68

Sveit Íslands synti gríðarlega vel á lokadegi HM í 25 metra laug í gær þegar hún setti nýtt Íslandsmet í 4x100 metra fjórsundi. Sveitin bætti Íslandsmetið í greininni um rúmar fimm sekúndur þegar hún synti á 3:33,68. Gamla metið var frá árinu 2016, 3:39,48. Sveitina skipuðu þeir Guðmundur Leo Rafnsson, Snorri Dagur Einarsson, Birnir Freyr Hálfdánarson og Símon Elías Statkevicius. Höfnuðu þeir í 23. sæti.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir synti í gær í sinni aðalgrein, 200 metra skriðsundi, á tímanum 1:55,48. Snæfríður komst ekki áfram í átta manna úrslit og hafnaði í 14. sæti.

Guðmundur Leo synti mjög vel í 200 metra baksundi og bætti tíma sinn í greininni þegar hann synti á 1:55,27 í gær. Guðmundur varð í 25. sæti á sínu fyrsta stórmóti.

Á laugardag hafnaði Jóhanna Elín Guðmundsdóttir í 44. sæti í 50 metra skriðsundi en hún synti á 25,28 sekúndum. Besti tími Jóhönnu Elínar er 25,08.

Símon Elías var í 39. sæti 50 metra skriðsundi á tímanum 21,98 sekúndum á laugardag. Er það hársbreidd frá hans besta tíma sem er 21,93.

Snorri Dagur hafnaði þá í 39. sæti í 50 metra bringusundi á laugardag er hann synti á tímanum 27,07 sekúndum.

Laugardeginum lauk á því að blönduð sveit í 4x100 metra fjórsundi setti nýtt Íslandsmet þegar sveitin synti á tímanum á 3:45,01. Sveitina skipuðu þau Guðmundur Leo, Einar Margeir Ágústsson, Jóhanna Elín og Snæfríður Sól. Sveitin varð í 19. sæti af 35 sveitum.