Hafsteinn Sigurðsson fæddist í Hafnarfirði 15. júní 1938. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 5. desember 2024.
Foreldrar hans voru Sigurður Eiríksson, f. 1903, d. 1977 og Jenný Ágústsdóttir, f. 1908, d. 1995. Hafsteinn var einn af 11 systkina hópi og var hann í miðjunni í aldursröðinni.
Þann 9. september 1960 kvæntist Hafsteinn Ágústu Hjálmtýsdóttur, f. 6. mars 1937, d. 12. desember 2023. Foreldrar hennar voru Theódóra Magnea Stella Grímsdóttir, f. 1918, d. 2000 og maður hennar Hjálmtýr Guðvarðsson, f. 1912, d. 1974. Börn Hafsteins og Ágústu eru fjögur:
1) Hjálmtýr, f. 13. september 1959, giftur Stephanie Smith, f. 1969. Börn þeirra eru Davíð, f. 2006 og Jenný, f. 2010.
2) Ágúst, f. 22. mars 1961, giftur Önnu Jóhannesdóttur, f. 1959. Börn þeirra eru Steinunn Guðný, f. 1988, Jóhanna Hildur, f. 1991 og Hafsteinn Gauti, f. 1995. Ágúst og Anna eiga fimm barnabörn.
3) Theodóra Stella, f. 7. september 1962, gift Bergi Sandholt, f. 1959. Börn þeirra eru Ágústa Ósk, f. 1982, Hafdís, f. 1992, Bergur Garðar og Hjálmtýr, f. 1996. Fyrir átti Bergur tvær dætur, þær Ásu, f. 1978 og Sigrúnu, f. 1982. Theodóra Stella og Bergur eiga samtals 12 barnabörn.
4) Hafsteinn Sveinbjörn, f. 6. febrúar 1970, giftur Sigurlaugu Kristínu Jóhannsdóttur, f. 1970. Börn þeirra eru Sigríður Ósk, f. 1998, Jóhann Ágúst, f. 2002 og Helga Stella, f. 2008.
Hafsteinn var húsasmíða- og húsgagnasmíðameistari og starfaði við sitt fag allan sinn starfsferil. Lengst af starfaði hann sjálfstætt en síðustu árin hjá Prentsmiðjunni Odda við ýmis smíðastörf og umsjón verklegra framkvæmda.
Hafsteinn og Ágústa lærðu samkvæmisdans og stunduðu dans með þátttöku í danskeppnum og danshjónaklúbbunum Laufinu og Kátu fólki. Hafsteinn var formaður Káts fólks til fjölda ára og sinnti þeim félagsstörfum af alúð.
Útför Hafsteins fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 16. desember 2024, klukkan 15.
Elsku pabbi er nú farinn til mömmu eftir tæplega árs aðskilnað, þau gátu ekki verið lengur hvort án annars.
Pabbi var besta fyrirmynd sem hægt er að hugsa sér, alltaf jákvæður alveg sama hvað gekk á. Það lék allt í höndunum á honum, hvort sem það var að skrifa, teikna, smíða hús og húsgögn eða tálga fugla sem hann gerði af þvílíkri list, hann vildi að öll afa- og langafabörnin sín fengju fugl frá honum. Þegar ég var lítil stelpa fannst mér pabbi geta og kunna allt og enn þann dag í dag finnst mér það.
Pabbi hafði mikla þörf fyrir að hreyfa sig og stundaði hinar ýmsu íþróttir í gegnum árin svo sem dans, sund, göngur, jóga og chi-gong.
Það er varla hægt að tala um pabba nema nefna mömmu með, þau voru búin að vera saman frá 15 og 16 ára aldri og áttu svo fallegt samband. Þau elskuðu að dansa saman, tala saman, fara í leikhús, í veislur og hitta fjölskylduna. Mamma lagði mikla áherslu á að við systkinin héldum góðu sambandi og það ætlum við að gera.
Síðasta ár var ekki auðvelt fyrir pabba, hann saknaði mömmu svo mikið en núna eru þau sameinuð á ný.
Takk fyrir allt elsku besti pabbi í heimi, knúsaðu elsku mömmu frá mér.
Þín
Stella Dóra.
Við pabbi höfum alla tíð náð vel saman, við höfðum báðir mikinn áhuga á smíðum og ég vann í nokkur ár og ófá sumur sem smiður með pabba áður en ég fór út til náms í arkitektúr. Ávallt var hægt að leita ráða hjá pabba á nýjum vettvangi mínum og oft áttum við langar og gagnlegar samræður um hin ýmsu úrlausnarefni.
Pabbi var mikill og góður verkmaður, nákvæmur og sérlega útsjónarsamur við að finna einföldustu lausnina á hlutunum. Pappa leiddust allar vífilengjur og droll. Hann sá hlutina ávallt í lausnum og gekk í öll verk af sinni einstöku útsjónarsemi og nákvæmni.
Það sama má segja um afstöðu hans til veikinda sinna. Þegar pabbi þurfti að fara í nýrnaskilunina þrisvar í viku og taka kynstrin öll af lyfjum, tók pabbi þessu sem hverju öðru verkefni sem þyrfti að leysa og fylgdi leiðbeiningum starfsfólks deildarinnar í einu og öllu. Hann var oftar en ekki beðinn um að leiðbeina nýjum notendum nýrnaskilunarvélanna. Ég vil í þessu samhengi færa starfsfólki nýrnaskilunardeildarinnar mínar og okkar allra í fjölskyldunni bestu þakkir fyrir frábæra þjónustu við pabba.
Við pabbi vorum í raun mjög ólíkir, ég oft margorður og gat látið hugann reika til þess að sjá fleiri fleti á hlutunum, en það sama var ekki hægt að segja um pabba, hann koma auga á lausnina og vann samkvæmt því. Útsjónarsemi og dugnaður pabba hefur verið og mun ávallt vera mitt leiðarljós.
Nú þegar komið er að leiðarlokum er þakklæti og virðing efst í huga mínum. Við Anna, börn og barnabörn þökkum fyrir allar ánægjustundirnar í gegnum árin. Nú getið þið mamma loksins tekið upp þráðinn að nýju eftir árs aðskilnað.
Þinn sonur,
Ágúst.
Elsku pabbi, nú ertu farinn í faðm mömmu aftur eftir ykkar lengsta aðskilnað frá því þið voruð táningar.
Frá því ég man eftir mér varst þú að smíða og dytta að hlutum. Ég man að mér fannst stundum skrítið þegar vinir mínir fengu húsgögn úr búð, af hverju var það ekki bara smíðað? Þú byggðir hús fyrir fjölskylduna og þar var svo sannarlega vandað til verka. Þegar þú hófst handa við nýja smíði lá fyrir listileg teikning, því ekkert varð til bara óvart. Allt handverk var upp á tíu og ef þú varst ekki sáttur var byrjað upp á nýtt eða lagað. Fallegu fuglarnir sem þú tálgaðir ylja fjölmörgum hjörtum.
Þú varst mikill náttúruunnandi og þekktir landið þitt mjög vel. Minnisstæðir eru flugtúrarnir okkar saman og þá var lítil hætta á að villast í yfirlandsfluginu því þú þekktir þig alls staðar. Þú hreyfðir þig mikið og það var umtalað á spítalanum þar sem þú varst tíður gestur í blóðskilun þegar við fórum saman á Úlfarsfell stuttu eftir opna hjartaaðgerð. Þá dugði ekki að fara einföldu leiðina heldur þurfti að skoða aðeins meira og fara á hinn tindinn líka.
Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur fjölskylduna alla tíð. Þú varst alltaf boðinn og búinn til aðstoðar hvenær sem eitthvað þurfti að lagfæra, smíða eða föndra.
Þú varst hrókur alls fagnaðar og skemmtir þér einstaklega vel í faðmi fjölskyldunnar, hvort sem það var að taka dansspor eða segja skrítlur. Hlýr og góður persónuleiki þinn snerti alla sem þig þekktu.
Hvíl í friði elsku pabbi, ég mun sakna þín.
Þinn sonur,
Hafsteinn.
Elsku afi.
Nú ertu loksins kominn til ömmu eins og þú þráðir svo heitt. Það var ekki langt á milli ykkar, aðeins tæpt ár, og það reyndist þér afskaplega erfitt ár. Þið voruð eins og eitt, svo samtaka í öllu og mínar allra bestu fyrirmyndir.
Ekki átti ég von á því að símtalið okkar, hinn örlagaríka dag, yrði okkar síðasta en er endalaust þakklát fyrir það að hafa hringt í þig. Þarna var amma pottþétt að toga í einhverja spotta því planið var að kíkja til þín eftir kvöldmatinn.
Þú varst allra besti afi og langafi sem hægt er að hugsa sér. Alltaf tilbúinn að aðstoða þitt fólk og ef maður vildi láta gera hlutina 100% þá hringdi maður í þig. Listamaður fram í fingurgóma eins og sést á fuglunum þínum. Þú vildir líka alltaf að hafa nóg fyrir stafni. Að sitja og gera ekki neitt var ekki til í þínum bókum.
Vesturbergið, þar sem ég vildi helst eiga heima, dansinn, ferðalögin, Hákot, spilin og hláturinn. Minningarnar eru svo ótal margar með ykkur ömmu. Ég mun halda fast í þær og varðveita alla ævi.
Ég er líka þakklát fyrir það hvað krakkarnir fengu mikinn tíma með þér. Þau elskuðu þig svo mikið og þú þau. Þið áttuð svo fallegt samband.
Takk fyrir allt elsku besti afi minn. Ég er viss um að þið amma séuð farin að dansa um allt í Sumarlandinu og þú farinn huga að næsta fugli sem þú ætlar að skera út.
Elska þig.
Þín,
Ágústa.