Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Þorgrímur Sigmundsson á Húsavík, sem á dögunum var kjörinn þingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi, kemur inn á svið stjórnmálanna sem kröftugur talsmaður hinna dreifðu byggða. Þótt vöxtur og viðgangur sé víða úti á landi í dag, svo sem í iðnaði og ferðaþjónustu, þarf meira til, að mati þingmannsins. „Að um 80% 400.000 landsmanna búi á horninu milli Hvítánna tveggja er nokkuð sem mér líst ekki á. Hér er þörf á róttækum aðgerðum, bútasaumur og krúttleg átaksverkefni duga ekki,“ segir Þorgrímur og heldur áfram:
„Landsbyggðin nær ekki styrk nema á Íslandi verði rekin byggðastefna með efnahagslegum hvötum. Besta leiðin þar væri í gegnum skattakerfið; að álögur á fólk og fyrirtæki úti á landi verði lægri en gerist á höfuðborgarsvæðinu þar sem borgarríki er að myndast. Breytingar í þessu skyni þurfa að vera tölur sem einhverju máli skipta. Í þessari stefnu felst engin mismunun enda er markmið skýrt; það er að efla byggð um land allt eins og flestir eru sammála um að gera skuli. En svo að slíkt nái fram að ganga þarf kjark, styrk og útsjónarsemi.“
Sjálfsagt að fylgja Sigmundi
Þorgrímur Sigmundsson hefur lengi verið viðloðandi stjórnmálastarf í heimabyggð. Hann var á sínum tíma virkur í starfi Framsóknarflokks, en tók svo þátt í stofnun Miðflokksins árið 2017. Sú vegferð hafi í hans huga verið sjálfsögð; það er að fylgja þeirri stefnu og hugmyndum sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson boðar og berst fyrir.
„Sigmundur er óhræddur við að fylgja sannfæringu sinni; að leggja í stóra slagi og verða umdeildur fyrir vikið. Þetta gildir líka um starf Miðflokksins, stefnan sveiflast ekki með tíðarandanum. Mörg af þeim málum sem flokkurinn hefur talað fyrir eru að koma sterk inn í dag, þótt þau hafi ekki haft hljómgrunn fyrst. Þar get ég nefnt sterkt aðhald í útlendingamálum og ríkisbúskapnum. Einnig efling landbúnaðar og sú almenna stefna að trúa á Ísland; gögn þess og gæði,“ segir Þorgrímur og heldur áfram:
„Fólk sem starfar til dæmis í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði er meðal þeirra sem gjarnan fylgja okkur og auðvitað margir fleiri. Rætur flokksins eru á miðjunni og því skoðum við, og ef til þess kemur framkvæmum, góðar hugmyndir hvaðan sem þær koma. Mikilvægt er að skapa fyrirtækjunum svigrúm til að skapa verðmæti og störf. Ef slíkt tekst kemur svo margt annað af sjálfu sér.“
Víða má skera fitu
Afkoman í grunnrekstri ríkissjóðs á næsta ári er nú áætluð neikvæð um 1,2% af vergri landsframleiðslu. Þetta er mun lakara en áætlað var þegar frumvarp til fjárlaga næsta árs og fleiri plögg voru lögð fram fyrr á þessu ári. Um þetta segir Þorgrímur að ríkisfjármálin náist ekki á rétt ról nema farið verði í niðurskurð. Víða megi skera fitu og minnka báknið.
„Sigmundur Davíð talaði á dögunum um nokkuð sem hann kallaði vandamálabransa. Átti þar við að stundum væru kynnt hin og þessi málefni og verkefni sem þyrftu opinber fjárframlög og þau sífellt meiri. Með þessu stækkaði kerfið nánast sjálfkrafa. Í þessari lýsingu tel ég að formaðurinn hafi hitt naglann á höfuðið; að minnsta kosti er allur niðurskurður mjög sársaukafullur og eðlilega vill fólk verja sín störf sem það telur mikilvæg,“ segir Þorgrímur.
„En þetta snýst hins vegar ekki um tiltekin störf eða persónur heldur hugmyndafræði; hvernig má gera hlutina betur og ódýrar. Rekstur þarf alltaf að bera sig; tekjurnar örlítið meiri en útgjöldin. Þetta er ekki flókið. Ég sé fyrir mér að í starfi til dæmis Matvælastofnunar og Samgöngustofu mætti mörgu breyta og ná fram hagræðingu. Í heilbrigðiskerfinu væri aukinn einkarekstur með samningum við ríkið góður kostur og við blasir að gera þarf breytingar á rekstri Ríkisútvarpsins. Hugsa þarf málin upp á nýtt á svo mörgum sviðum; nú þegar ríkissjóður er rekinn með tugmilljarða króna halla og vaxtaberandi skuldir eru 1.500 milljarðar króna.“
Rýna í sortann og spyrja til vegar
Á sínum tíma starfaði Þorgrímur
fyrir Íslandspóst og sá þá um dreifingu bréfa, böggla og annars í Þingeyjarsýslum. Því fylgdu daglegar ferðir frá Húsavík í Mývatnssveit og svo áfram austur á bóginn; til Vopnafjarðar, Bakkafjarðar, á Þórshöfn, Kópasker og þaðan svo aftur til Húsavíkur. „Þetta er 400 km hringur og í daglegum ferðum gerðist eðillega margt,“ segir Þorgrímur og að síðustu:
„Einu sinni var ég í vitlausu veðri og blindbyl og á einhverjum tímapunkti á Möðrudalsöræfunum sótti að mér sú tilfinning að ég væri kominn fram hjá afleggjaranum niður á Vopnafjörð þangað sem ég ætlaði. Ég hringdi í stjórnstöð Póstsins sem vaktar bílana og þar sást á stafrænu korti að ég hafði á réttu að standa. Því sneri ég við, fann afleggjarann og komst á rétta leið. Og einmitt í þessari litlu sögu eru auðvitað heilmikil pólitísk skilaboð. Þau eru að stundum í okkar daglega lífi – stjórnmálunum þar með talið – er skyggni takmarkað og hætta á að illa fari. Og þegar svo gerist er ekki annað að gera en að rýna betur út í sortann, spyrja til vegar og snúa við ef í ófærð eða blindgötu er komið. Finna réttu leiðina og þá er greiðfært til Vopnafjarðar eða þangað sem leiðin liggur. Ef stefnan er skýr, sannfæring örugg og skynsemin ráðandi eru allir vegir færir.“
Hver er hann?
Þorgrímur Sigmundsson er fæddur 1976; Húsvíkingur í húð og hár. Hann starfaði fyrr á árum meðal annars sem félagsliði og aflaði sér menntunar á því sviði. Hefur síðustu ár starfað á vélum og vörubílum og er með meirapróf. Eiginkona Þorgríms er Anna Dóra Gestsdóttir og þau eiga þrjú börn.