Sigurbjörg Valmundsdóttir fæddist 28. október 1930 í Vík í Mýrdal. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu, Skógarbæ, 5. desember 2024.

Foreldrar Sigurbjargar: Valmundur Björnsson, f. 4. desember 1898, d. 17. júlí 1973, og Steinunn Jónsdóttir, f. 1. nóvember 1905, d. 13. maí 1945. Faðir Sigurbjargar giftist seina Guðnýju Ólafsdóttur sem gekk Sigurbjörgu í móðurstað.

Bróðir Sigurbjargar var Jón Valmundsson, f. 9. júní 1929, d. 16. janúar 2020.

Sigurbjörg giftist Gísla Þorbergssyni, f. 15. nóvember 1929, d. 26. júní 2010. Sonur Sigurbjargar og Gísla heitir Valmundur Steinar Gíslason, f. 7. febrúar 1964. Barnabörn: Íris Ósk Valmundsdóttir, f. 23. október 1991, og Gísli Steinar Valmundsson, f. 9. júní 1995.

Sigurbjörg var textílkennari að mennt og kenndi við Hússtjórnaskólann á Laugarvatni og lengst af við Hagaskóla í Reykjavík.

Útför fer fram frá Neskirkju í dag, 16. desember 2024, kl. 10.

Kær vinkona er látin rétt orðin 94 ára, en það er hún Sigurbjörg Valmundsdóttir frá Vík í Mýrdal, sem alltaf var kölluð Sibba og hún verður kölluð það í þessari minningargrein. Valmundur faðir Sibbu var brúarsmiður og hann fór víða vegna vinnunnar. Sibba var ung þegar hún fór að hjálpa til við eldamennsku fyrir brúarvinnuflokk föður síns. Eitt sinn var vinnuflokkurinn á leið til vinnu undir Austur-Eyjafjöllum en þá vantaði matráðskonu en Sibba gerði sér lítið fyrir og réð mig þá 14-15 ára í þetta hlutverk. Valmundur var yndislegur við þessa ungu stelpu sem dóttir hans réði sem matráðskonu. Eldað var, borðað og sofið í Skarðshlíðarhúsinu þar sem dansleikirnir voru haldnir og mjólkin var sótt á næsta sveitabæ. Steinunn, móðir Sibbu, spáði í bolla og gerði ýmislegt á stóru heimili. En hún lést þegar Sibba var unglingur. Seinni kona Valmundar var Guðný Ólafsdóttir, ættuð undan Eyjafjöllum. Stórfjölskyldan bjó saman. Afinn, amman, pabbinn, mamman, og börnin tvö, Sibba og Jón bróðir hennar. Þetta yndislega fólk hennar Sibbu átti heima í næsta húsi við mína fjölskyldu í Vík. Einnig bjuggu í Vík á þessum árum nánir ættingjar Sibbu. Föðurbræður hennar frá Svínadal í Skaftártungu komu að virkjun Víkurárinnar inni í gili. Þá fengu Víkurbúar rafmagn. Hjónin Guðni Bjarnason og Þorbjörg sáu síðan um virkjunina.

Magnús móðurbróðir Sibbu, Dóra kona hans og sonur þeirra Reynir, bjuggu í Reykjavík. Sibba fór oft í heimsókn til þessa frændfólks síns. Í einni heimsókninni hafði Sibba farið í sund og var mikið niðri fyrir þegar hún sagði mér að konurnar væru allsberar í sundlauginni. Ég varð steinhissa og sagðist aldrei ætla í sund. Þarna vorum við 10-12 ára.

Sibba fór ung að árum til Danmerkur að læra dönsku. En það var ekki algengt á þeim árum. Hún fór einnig í Húsmæðraskólinn á Laugarvatni og þar sennilega lagður grunnur að starfsævi hennar sem handavinnukennara. Sibbu þótti vænt um fólkið sitt og tókum við eftir hversu glöð hún var þegar við minntumst á Valmund son hennar og fjölskyldu hans. Helgi Dagbjartsson, Ágústa kona hans og börn þeirra bjuggu á Bökkunum í Vík. Helgi orti þessa afmælisvísu til Sibbu: „28. október / ávallt til gæfu sé hann þér / af honum sæmd og heiður hljóttu / og hamingju í lífinu njóttu.“ Takk fyrir samverustundirnar í Árskógum 2. Fjölskyldu Sibbu sendum við samúð og einnig öðrum ættingjum og vinum hennar. Hvíl í friði, elsku Sibba mín.

Oddný Jóna Bárðardóttir og fjölskylda.

Sigurbjörg var æskuvinkona mömmu Sigrúnar. Þær ólust upp á Víkurbrautinni í Vík í Mýrdal.

Húsin voru hlið við hlið og varði vinátta þeirra ævilangt.

Sibba og Gísli urðu síðan vinahjón foreldra minna, Sigrúnar og Einars. Heimboð á báða bóga og eftirminninlegt er hvað mömmu þótti flott að fá kaffi og sérrí fyrir matinn hjá þeim hjónum.

Ég og foreldar mínir gistum hjá þeim austur í Vík þar sem þau höfðu innréttað bílskúr við æskuheimili Sibbu og að loknum starfsferli nutu þau hjónin þess að dvelja þar. Ég og mamma urðum síðar oft aðnjótandi gestrisni Sibbu fyrir austan.

Eftir að makar vinkvennanna féllu frá þá stóðu þær saman vinkonurnar, Sigurbjörg, Sigrún, Jóna Björns, Hrefna og Sigurbjörg systir Jónu.

Oftast voru heimboðin hjá Sibbu og Jónu og þá kom það í minn hlut að vera bílstjóri. Fýlaveislurnar voru ófáar hjá Sibbu og eftirminnilegt er hversu fallega var lagt á borð. Fýllinn mátulega soðinn með öllu tilheyrandi meðlæti og síðan kaffi úr postulínsbollum og sætindi með. Þvílík forréttindi að fá að vera þátttakandi á þessum samverustundum þeirra vinkvennanna sem áttu það sameiginlegt að vera úr Víkinni.

Sibba þáði að koma og gista austur í Laugardal þar sem mamma átti sinn sælureit og nutu vinkonurnar samverunnar.

Sigurbjörg lét sig varða málefni þeirra sem höllum fæti standa í lífinu. Hún sýndi starfi mínu með konum sem eiga við heimilisleysi að stríða ásamt því að vera með flóknar þjónustuþarfir fölskvalausan áhuga.

Minning um sjálfstæða, réttsýna konu með ríka samkennd lifir og votta ég aðstandendum innilega samúð.

Þórey Einarsdóttir.