Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Þetta er ofboðslega skemmtilegt tækifæri og ég er fullur þakklætis,“ segir Einar Lövdahl rithöfundur, en nýlega keyptu tvö forlög, Cser Kiadó í Ungverjalandi og Kein & Aber í Sviss, útgáfuréttinn að fyrstu skáldsögu hans, Gegnumtrekk.
„Það er réttindastofa Forlagsins, Reykjavík Literary Agency, sem hefur milligöngu um þennan samning, en þar starfa mjög reyndar konur við að koma íslenskum höfundum á framfæri erlendis. Ungverska útgáfan hefur áður gefið út bækur eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur og þar virðist vera talsverður áhugi á íslenskum bókmenntum. Í framhaldi af því keypti svissneska útgáfan líka útgáfuréttinn.“
100 milljóna manna málsvæði
Þýska þýðingin á Gegnumtrekk verður gefin út á öllu þýska málsvæðinu í Evrópu, þ.e. í Sviss, Þýskalandi og Austurríki, svo að bókin er þar að komast á gríðarlega stórt málsvæði milljóna manna. „Íslenskan er mér mjög kær, en á sama tíma er hún örtunga. Það er mjög spennandi að það hafi opnast hér gluggi til að gefa bókina út á málsvæði þar sem meira en hundrað milljónir manna tala, ekki síst í ljósi þess að þetta er fyrsta skáldsagan mín,“ segir Einar.
Mikil hvatning
„Þetta er líka mikil hvatning fyrir mig til að halda áfram á sömu braut,“ segir hann og jánkar því að hugsanlega hafi aðalsögupersónan Askur snert einhvern sammannlegan hljóm úti í Evrópu. „Það gæti vel verið að ungir menn í þessum löndum eigi það til að vera jafn áttavilltir og við á Íslandi.“