Gústafi Lilliendahl fæddist í Reykjavík 10. júlí 1936. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 3. desember 2024.

Foreldrar hans voru Carl Jónas Lilliendahl, fæddur á Vopnafirði 30. nóvember 1905, d. 1975 og Margrét Jónsdóttir, fædd á Hólum í Öxnadal 1908, d. 1994. Var hann eina barn foreldra sinna. Gústaf ólst upp í Reykjavík en dvaldi mörg sumur í Hlíð í Gnúpverjahreppi og hafði alla tíð sterkar taugar þangað og heillaðist af sveitabúskap og íslenskri náttúru.

Gústaf kvæntist Önnu Maríu Tómasdóttur 25.12. 1957. Anna María var fædd í Skálmholti í Villingaholtshreppi 4.10. 1939. Hún lést 12.12. 2018. Foreldrar hennar voru Bergþóra Björnsdóttir, f. á Björnólfsstöðum í A-Hún., f. 1910, d. 1946, og Tómas Guðbrandsson, f. á Bolafæti í Hrunamannahreppi, f. 1897, d. 1984.

Börn Gústafs og Önnu Maríu eru:

1. Jónas Rafn, f. 1957, kvæntur Margréti Katrínu Erlingsdóttur, börn a) Gústaf, f. 1987, kvæntur Unni Ósk Lilliendahl, dætur þeirra eru Dísella María, Jóhanna Vinsý og Irma Katrín. b) Marinó Geir, f. 1990, sambýliskona Soffía Margrét Sölvadóttir, þau eiga eina dóttur. Sonur Margrétar Katrínar er Erlingur Örn Hafsteinsson, f. 1982, sambýliskona Steinunn Camilla Sigurðardóttir, börn þeirra eru Alexandra Elly og Marteinn Leó. 2. Atli, f. 1961, kvæntur Öldu Björk Lilliendahl Ólafsdóttur. Börn Atla eru: a) Hulda Dröfn, f. 1982, sambýlismaður Benedikt Guðmundsson. Dætur Huldu eru Eva Sigríður, Pia Rún og Lóa Mæja. b) Ívar, f. 1984. Börn hans eru Andrea Rán, Emma Dröfn og Elías Freyr. c) Ittu Julius, f. 1990, sambýliskona Najaaraq Lennert Olsen, barn þeirra er Malik Marley. d) Frosti Freyr, f. 1991, dóttir hans er Bibi. 3. Margrét, f. 1963, gift Jóni Bjarnasyni. Börn Margrétar eru: a) Katrín Guðjónsdóttir, f. 1980, maki Egidijus Jankauskas, þeirra börn eru Kristey, Tómas, Aron og Orri. b) Stefán Ármann Þórðarson, f. 1987, sambýliskona Berglind Jónsdóttir, þeirra börn eru Saga, Erna Margrét og Jón Atli.

Gústaf sinnti ýmsum störfum um ævina. Hann starfaði hjá Landsbankanum um árabil og var m.a. fyrsti forstöðumaður útbús bankans á Hvolsvelli er það var opnað 1964 en þá hafði hann starfað í Landsbankanum á Selfossi í tíu ár. Hugurinn leitaði þó ætíð til sveitarinnar og árið 1967 hóf hann búskap á æskuslóðum Önnu Maríu í Skálmholti og þar bjó fjölskyldan um nokkurra ára skeið. Þá starfaði hann hjá Eimskipaféagi Íslands og var forstöðumaður fangelsins á Litla-Hrauni í rúm 20 ár.

Gústaf var einn af stofnendum Lionsklúbbs Selfoss og starfaði þar um áratugaskeið.

Útförin fer fram frá Selfosskirkju í dag, 16. desember 2024, klukkan 14.

Það er notaleg tilfinning að vera „hafður í hávegum“. Í þeirri stöðu fannst mér ég alltaf vera hjá tengdaföður mínum Gústafi Lilliendahl og það var sannarlega gagnkvæmt. Djúp og mikil vinátta og gagnkvæm virðing. Alltaf heilsuðumst við og kvöddumst með handabandi og fátt var betra en ræða um byggingaframkvæmdir og alls konar verklega þætti. Það var dásamlegt umræðuefni fannst honum.

Veikburða skrokkur aftraði honum að taka verklega
þátt svo nokkru næmi en hugurinn sívakandi og áhugasamur. Hin síðari ár fóru einn til tveir tímar í byrjun hvers dags í að lesa fasteignaauglýsingar og sjá hvað var að seljast, á hvaða verði og mat lagt á hversu gáfuleg salan var og hvor hefði farið betur út úr kaupunum, kaupandi eða seljandi.

Við fórum oft í bíltúra, því af því hafði hann sérstaklega gaman og leið vel í bíl, var mikill bíladellukarl alla tíð. Í þeim bíltúrum tók hann eftir öllum smæstu atriðum sem höfðu breyst jafnvel þó oft væri sami hringurinn tekinn. Það þurfti ekkert endilega að fara á nýjar slóðir alltaf því nærumhverfið nærði áhugann. Búið að byggja kofa þarna, setja nýtt járn á þak, komið folald hér, nýr bíll í hlaði og svona mætti endalaust telja.

Þó hann teldi sig eflaust vera að leggja rökrétt og kalt mat á hlutina má gera ráð fyrir að tilfinningalegir þættir hafi eitthvað spilað inn í það mat. Það er til dæmis ekki hafið yfir allan vafa að ég væri besti tengdasonur sem til væri og húsið sem ég var að byggja greinilega það reisulegasta og samsvaraði sér best í umhverfinu og tæknileg þekking mín sprengdi alla skala, en hverju skiptir það? Svona krydduðu tilfinningarnar rökhyggjuna og hver var ég að leiðrétta þá skoðun.

Við áttum fullkomið samband tengdafeðga þessi ár okkar saman og ég er hreint ekki frá að hann hafi verið besti tengdafaðir, sem nokkur tengdasonur getur fengið, það er mitt kalda og rökrétta mat.

Saddur lífdaga hefur hann nú kvatt jarðvistina. Við vorum ekki alltaf sammála, m.a um það hvað við tæki að henni lokinni. Ef til vill er hann nú búinn að komast að því að hann hafi haft rétt fyrir sér í því efni.

Það er mikill söknuður að jafn ágætum tengdaföður en líklega verður að viðurkennast að þetta var tímabær punktur við endann á góðu og innihaldsríku æviskeiði.

Ég þakka alla vega fyrir mína þátttöku í því.

Jón Bjarnason.