Hrafnhildur Kristinsdóttir fæddist í Hjarðarholti í Vestmannaeyjum 22. mars 1935. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 1. desember 2024.
Hrafnhildur var dóttir Kristins Bjarnasonar, f. 1892, d. 1968, skálds frá Ási í Vatnsdal, og seinni konu hans, Guðfinnu Ástdísar Árnadóttur, f. 1903, d. 1990, frá Grund í Eyjum. Kristinn var sonur Bjarna Jónssonar, oddvita á Sýruparti við Akranes, og konu hans Sigríðar Hjálmarsdóttur, dóttur Hjálmars Jónssonar (Bólu-Hjálmars). Guðfinna var dóttir Árna Árnasonar frá Vilborgarstöðum og konu hans Jóhönnu Lárusdóttur frá Búastöðum. Systur Hrafnhildar voru: Jóhanna Árveig, f. 1929, d. 2002, Bergþóra Gunnbjört, f. 1933, d. 2012, Guðlaug Ásrún, f. 1936, d. 1998. Systkini samfeðra voru: Ásgrímur, f. 1911, d. 1988, Ásdís, f. 1912, d. 1991, Gunnar, f. 1913, d. 1982, Bjarni, f. 1915, d. 1982, Aðalheiður, f. 1916, d. 2014, Benedikt Ragnar, f. 1921, d. 2000, og Sigríður, f. 1925, d. 2008.
Hrafnhildur giftist 31.12. 1955 Sigurði Axelssyni, f. 29.7. 1932, d. 29.10. 2019, sem starfaði sem forstöðumaður Löggildingarstofu ríkisins. Foreldrar hans voru Axel V. Sigurðsson, f. 1897, d. 1970, iðnverkamaður í Reykjavík, og kona hans Kristín Ketilsdóttir, f. 1895, d. 1955, húsmóðir frá Minni-Ólafsvöllum á Skeiðum.
Dóttir þeirra er Stefanía Kristín, f. 11.2. 1957, gift Reyni Þórðarsyni, f. 26.5. 1954. Synir þeirra eru: a) Þórður, f. 1980, maki Helga Huld Halldórsdóttir Pedersen, þau eiga tvö börn en fyrir á Þórður dóttur. b) Hlynur, f. 1983, maki Astrid Fehling. Fyrir átti Sigurður soninn Axel, f. 23.10. 1952, d. 18.8. 2016, sem ólst upp hjá þeim hjónum. Axel eignaðist þrjú börn með fyrri eiginkonu sinni, Katrínu R. Björnsdóttur, þau eru: a) Hrafnhildur María, f. 1973, maki Vincent Ladger og eiga þau þrjú börn. b) Sigurður Axel, f. 1980, maki Bryndís Gylfadóttir, eiga þau fjögur börn en fyrir á Sigurður son. c) Björn Torfi, f. 1983, maki Hafdís Lárusdóttir, eiga þau þrjú börn. Með eftirlifandi eiginkonu sinni, Laufeyju M. Jóhannesdóttur á hann dótturina d) Lindu Rún, f. 2000.
Hrafnhildur flutti fimm ára gömul frá Vestmannaeyjum að Borgarholti í Biskupstungum. Þar ólst hún upp þar til hún flutti til Reykjavíkur og vann hún þar ýmis störf þar til hún kynntist eiginmanni sínum og hófu þau búskap í Lönguhlíð 21. Hrafnhildur starfaði lengst af við almenn skrifstofustörf. Hrafnhildur var góður hagyrðingur og gekk ung í kvöldvökufélagið Ljóð og sögu en þar gegndi hún flestum stjórnarstörfum og var formaður félagsins í nokkur ár. Hún var einnig stofnandi Kvöldvökukórsins sem og stofnandi Sinawik-klúbbs Garðabæjar 1983 og var formaður 1984-85. Eftir Hrafnhildi hafa birst víða ljóð, lausavísur, gamanvísur og söngtextar.
Þau hjónin bjuggu sér hlýlegt og fallegt heimili í Garðabæ 1978 þar sem þau bjuggu þangað til heilsu þeirra fór að hraka. Þau dvöldu á Hrafnistu í Hafnarfirði síðustu ár ævinnar.
Útför Hrafnhildar fer fram frá Garðakirkju í dag, 16. desember 2024, kl. 13
Elsku mamma.
Þú skildir eftir stórt skarð sem verður aldrei hægt að fylla.
Þú kenndir mér svo margt og gafst mér svo mikið, þú varst ekki bara móðir mín, heldur vinkona og fyrirmynd.
Ég kveð þig í dag með söknuði en minning þín mun lifa með okkur um ókomin ár.
Umhyggju og ástúð þína
okkur veittir hverja stund.
Ætíð gastu öðrum gefið
yl frá þinni hlýju lund.
Gáfur prýddu fagurt hjarta,
gleðin bjó í hreinni sál.
Í orði og verki að vera sannur
var þitt dýpsta hjartans mál.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Þín dóttir,
Stefanía Kristín.
Við kveðjum í dag góða konu, hana Hrafnhildi Kristinsdóttur. Hún var félagi okkar í starfi Kiwanis á Íslandi.
Eiginmaður hennar, Sigurður Axelsson, lést 2019. Hann starfaði og var mjög virkur í Kiwanisklúbbnum Setbergi í Garðabæ og hún í klúbbi eiginkvenna Setbergsfélaga, Sinawik í Garðabæ. Þau voru samhent í starfinu og erfitt að tala um annað þeirra án þess að nefna hitt. Alltaf var talað um Sigga og Hrafnhildi í einu orði.
Þau voru mikið kiwanisfólk, tóku þátt í öllum verkefnum og samverustundum. Oftar en ekki sá Hrafnhildur um skemmtanir klúbbanna, skipulagði og mætti með skemmtiefni, oft frumsamið. Hrafnhildur samdi söng Setbergsfélaga sem sunginn er í lok hvers kiwanisfundar.
Þau voru traustir félagar sem unnu samfélagi sínu og vildu gera gagn. Tóku þau virkan
þátt í starfi bæði innan og utanlands.
Um leið og við minnumst með þakklæti góðs félaga, sendum við fjölskyldu Hrafnhildar okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Hvíl í friði.
Margrét og Matthías.