María Theódóra Jónsdóttir fæddist í Hvallátrum á Breiðafirði 28. apríl 1938. Hún lést á Hrafnistu, Hafnarfirði, 6. desember 2024.
Foreldrar hennar voru Jón Daníelsson og Jóhanna Sesselja Friðriksdóttir og voru þau bændur í Hvallátrum á Breiðafirði. María átti sex systkini sem eru öll fallin frá. Þau eru Björg, f. 1922, Aðalsteinn, f. 1923, Ólína, f. 1933, Daníel, f. 1935, Elín, f. 1941, og Valdimar, f. 1943. Einnig átti hún uppeldisbróður, Aðalstein Valdimarsson, f. 1938.
María giftist Einari Siggeirssyni járnsmiði, f. 17.9. 1921, d. 10.3. 2010. Synir þeirra eru Jón Dan, f. 1965, d. 2020, Einar, f. 1967, og Friðrik, f. 1971. Barnabörnin eru níu talsins og langömmubörnin eru orðin átta.
María fæddist í Hvallátrum og bjó þar öll sín uppvaxtarár. Farskóli var í eyjunum og einnig gekk hún í barnaskóla í Flatey. Uppvaxtarárin einkenndust af vinnu við heimilisstörf, búskap og veiðar og verkun á afla og dún. Mannmargt var í eyjunum á þessum tíma og mikil samvinna og samskipti á milli eyjanna. Minntist María þessa tíma alltaf með hlýhug og gleði. Hún var einn vetur á Húsmæðraskólanum á Varmalandi. Hún var ráðskona í Barnaskólanum á Reykhólum einn vetur og fluttist upp frá því til Reykjavíkur en allt til ársins 1975 var hún á sumrin í Hvallátrum að aðstoða foreldra sína við bústörfin. Í höfuðborginni sinnti hún alla tíð ýmsum störfum sem heimavinnandi húsmóðir, dagmóðir, við heimilishjálp og ýmsum umönnunarstörfum. Handavinna af öllu tagi átti hug Maríu ásamt samveru með barnabörnunum svo og félagsstörfin. Hún starfaði með Barðstrendingafélaginu í mörg ár sem félagsmaður og formaður og svo með FAAS frá stofnun þess sem félagsmaður, í stjórn og sem formaður í mörg ár til ársins 2011. Fyrir störf sín í þágu velferðar og málefna minnissjúkra var hún sæmd Riddarakrossi 2005.
Hún kynntist Einari Siggeirssyni 1963 og þau giftu sig 1964. Þau síðan byggðu sér hús í Garðabæ 1973-74 og fluttust þangað með syni sína og þangað fluttu foreldrar hennar þegar þau létu af búskap. Húsið var rúmgott eins og hjarta Maríu og þar var nóg pláss fyrir stjúpbörnin fimm, Birgi, Elínborgu, Matthías, Guðmund og Hrefnu og allan afkomendahópinn. Þar bjuggu þau til 2009 er þau fluttu í Boðahlein og var Einar þá kominn á Hrafnistu í Hafnarfirði. Þar bjó María þar til hún sjálf fór á Hrafnistu 2017 þar sem hún varði síðustu æviárunum.
Útförin fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 16. desember 2024, klukkan 13.
María var mjög sterk kona með aðdáunarverðan baráttuvilja og baráttuþrek. Hún var bráðgreind og vel að máli farin og tókst á við hvaða áskorun sem bar að höndum. Hún var ekki skaplaus og gat gert fólki ljóst hvernig henni leið þegar henni misbauð. Ekkert málefni var of stórt eða of lítið til að hún tækist á við það ef réttlætiskennd hennar bauð henni það. Og það munaði um hana þegar hún tók verkið að sér. Margir hafa notið góðs af starfi hennar og því sem hún barðist fyrir, fjölskyldan og vinir og fólk sem hún þekkti ekki neitt. Og fólk mun njóta góðs af því áfram.
Hún hafði endalaust hjartapláss og tók utan um alla fjölskylduna sem var engin smásmíði, átta börn og allur afkomendaskarinn sem fjölgaði í á hverju ári. Fimm elstu börnin fékk hún í einu lagi með eiginmanninum, sum voru nú orðin uppkomin, og eignaðist svo þrjá stráka til viðbótar. Aldrei fann ég mun á framkomu hennar eða væntumþykju í garð stjúpbarnanna eða eigin barna og þau Einar lögðu mikla rækt við alla stórfjölskylduna. Ég held að hún hafi litið á þau öll sem sín eigin.
Alúð var lögð við að útvega jólagjafir sem hentuðu hverjum og einum og framleiðsla á peysum og prjónlesi var alveg endalaus. Árlegt jólaboð á jóladag þar sem stundum komu yfir 50 manns var verið að undirbúa með skipulagi og útsjónarsemi frá haustdögum. Unnið var í haginn þannig að sem flest væri tilbúið tímanlega og gert þannig úr garði að allt gengi upp á jóladaginn. Útvegað, fundið til, matbúið og fryst. Verkskipulagið og hagsýnin myndi sóma sér sem kennsluefni á háskólastigi í nútímanum. Enda kom ekkert á óvart og ekkert gleymdist þegar jólin gengu í garð. Þau voru mjög samtaka hjónin og unnu saman eins og einn maður.
Heimilið stóð alltaf opið fyrir ættingjunum og það voru ótal erindin sem fólkið átti til Mæju og Einars. Samvinna og greiðasemi einkenndi þau samskipti öll. Og væntumþykja.
Hún var mikil fyrirmynd mín og ég vona að ég hafi náð að sýna börnum mínum fram á hversu sterk amma þeirra var, heilsteypt og góð manneskja.
Ég mun minnast tengdamóður minnar með miklum hlýhug alla ævi. Það var gæfa að fá að kynnast henni.
Kristín S. Ingimarsdóttir