Anna Björg Agnarsdóttir fæddist í Reykjavík, 8. október 1934 . Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu, Sólteig, 29. nóvember 2024.
Foreldrar Önnu Bjargar voru Lilja Guðmundsdóttir, fædd á Hæli í Flókadal, 10. febrúar 1914, d. 28. janúar 1999, og Agnar Eggert Valdimarsson, fæddur á Efri-Mýrum í Refasveit 17. október 1912, d. 16. maí 1988. Systir Önnu Bjargar, samfeðra, er Hjördís Eggertsdóttir, fædd 11. desember 1960.
Þann 22. nóvember 1958 giftist Anna Björg Hreini Bjarnasyni, f. 5. apríl 1935, d. 1. maí 2019. Foreldrar hans voru Álfdís Helga Jónsdóttir, f. 1. júlí 1894, d. 20. janúar 1947, og Bjarni Jónsson, f. 27. nóvember 1892, d. 16. júlí 1985.
Dætur þeirra eru: 1) Lilja, f. 9. júní 1959, hennar maki er Guðlaugur Þór Þórarinsson, f. 30. desember 1957. Dóttir Lilju er Þóranna Hrönn Þórsdóttir, f. 16. júlí 1985. Hennar maki er Sigurður Eyjólfsson. Sonur Þórönnu er Bjarki Valdimar Sævarðarson, f. 13. maí 2015. 2) Björk, f. 27. febrúar 1965, hennar maki er Björn Guðlaugur Aðalsteinsson, f. 22. júní 1963. Þeirra börn eru: Gunnar Már, f. 7. október 1988, d. 8. september 2021, Elín Margrét, f. 19. ágúst 1993, hennar maki er Kristinn Þór Óskarsson, og Anna María, f. 13. september 1997, hennar maki er Jón Sigurðsson Nordal.
Anna Björg byrjaði ung að vinna fyrir sér en upp úr 1960 hófu þau Hreinn saman verslunarrekstur. Fyrsta matvöruverslun þeirra var á Njálsgötu, næsta á Bræðraborgarstíg og síðan var það Hagabúðin á Hjarðarhaga sem þau ráku frá árinu 1971 til 1999.
Anna og Hreinn hófu búskap í Vesturbænum, réðu sig í ráðsmennsku í eitt ár á Dalsmynni á Kjalarnesi þaðan sem Hreinn var en eignuðust sína fyrstu íbúð í Ljósheimunum. Um 1970 keyptu þau hús í Sæviðarsundi þar sem þau bjuggu til ársins 2007 er þau fluttu á Laugarnesveginn. Eftir andlát Hreins bjó Anna þar áfram í fjögur ár en þá fór heilsu hennar að hraka. Eftir sjúkrahúslegu fluttist hún á Hrafnistu, Laugarási, í febrúar 2024 og síðan á Hrafnistu Brúnavegi, Sólteig í maí 2024 þar sem hún lést.
Útför Önnu Bjargar fór fram í kyrrþey 10. desember 2024.
Elsku mamma hefur kvatt þetta jarðneska líf 90 ára að aldri. Við vitum að hún var hvíldinni fegin og nú hafa ástvinir handan þessa lífs leitt hana inn í ljósið.
Það eru forréttindi að hafa átt hana að í rúm 65 ár og margs er að minnast og margt er að þakka.
Ég ólst upp við öryggi og gott atlæti, samverustundir kjarnafjölskyldunnar, reglur til að fara eftir og dass af dekri. Þau pabbi lögðu áherslur á heiðarleika, áreiðanleika og stundvísi. Ég finn að það eru sömu gildi og eru mér mikilvæg enn í dag.
Mamma hafði sterkan persónuleika að bera, var ötull málsvari þeirra er hallað var á og hún kunni illa við ef einhverju var sópað undir teppi. Helst vildi hún leiðrétta eða laga það sem hún hafði orðið vör við að miður fór. Stundum er það bara ekki hægt og stundum verður að láta kyrrt liggja – það fannst henni erfitt að sætta sig við. Hún hafði áhuga á stjórnmálum og samfélagsmálum almennt og oft voru líflegar umræður við eldhúsborðið. Mikinn áhuga á húsgögnum og fatatísku og hafði gott lag á að raða hlutum og litum saman. Ég var oft kaffærð í rökræðum um hvað færi best og hvað mætti betur fara hér og þar. En þannig var mamma, sagði sína skoðun hreint og beint.
En fyrir mér var mamma fyrst og fremst stoð mín og stytta í lífs míns ólgusjó. Hún hagræddi sínum tíma til að vera með Þórönnu mína svo hún þyrfti ekki að vera allan daginn alla daga á leikskóla. Hún stappaði í mig stálinu þegar heimurinn hrundi þegar ég varð ekkja. Þau pabbi voru vakin og sofin yfir okkur mæðgum uns þau voru orðin viss um að við stæðum áfallið af okkur. Ég þakka það bakland af heilum hug. Það er ómetanlegt að eiga þá samhentu fjölskyldu sem ég á.
Mamma bar sig ávallt vel, bein í baki og hafði fágað göngulag. Líka eftir að önnur jafnvægistaugin var tekin úr sambandi í aðgerð fyrir um 35 árum síðan, hún einfaldlega beitti sig hörku til að gang beint. Það kom því ekki til greina, þegar hún fyrir fáeinum árum fékk uppáskrift á göngugrind, að hún myndi nota hana. Svo fór að göngugrindin varð mömmu nauðsynleg og þótti henni það verulega bagalegt.
Nú líður hún um með sitt fágaða göngulag, laus úr viðjum ellinnar.
Takk fyrir allt elsku mamma.
Þín
Lilja.
Elsku besta amma mín. Þá er komið að kveðjustund. Þakklæti er mér efst í huga þegar ég lít yfir farinn veg og hugsa um allt sem þú hefur kennt mér. Það rifjuðust upp fyrir mér margar yndislegar minningar þegar ég settist niður til að skrifa þessi orð, eins og t.d. jólin þegar ég fékk fallegu dúkkuna frá ykkur afa. Dúkkuna höfðuð þið keypt í Hamleys-dótabúðinni í London og henni fylgdu einhverjir óútskýranlegir töfrar og gera enn. Það var reyndar eins og töfrar fylgdu öllu sem þið komuð með frá London, fötunum og leikföngunum. Enda var það ekkert að ástæðulausu sem ég flutti til London þegar ég hafði aldur til, en það var aðallega vegna þess að þú hafðir sagt mér svo margt um borgina, alla fallegu staðina þar og að sjálfsögðu aðalgöturnar; Oxford Street, Bond Street og Regent Street, en þar mátti finna allar þær búðir sem nauðsynlegt var að skoða.
Í Hagabúðinni varst það þú sem settir tóninn og kenndir mér vinnusemi og skipulagningu. Það þýddi ekkert að rjúka niður á lager og sækja hitt og þetta, þú kenndir mér að skrifa niður hvað vantaði marga kaffipoka af hverri tegund í hillurnar og sækja akkúrat það magn svo ekki þyrfti að fara aftur niður með neitt. Hver einasta vara snéri fram í hillunum og enn þann dag í dag sný ég öllu sem ég raða í ísskápinn heima hjá mér fram – og það nýjasta fer að sjálfsögðu aftast. Þú kynntir mér líka ýmiskonar tónlist, kenndir mér að meðhöndla plötur í Sæviðarsundinu og við vorum líkar að því leyti að vilja báðar helst alltaf hafa tónlist í bakgrunninum. Þegar heyrninni á góða eyranu þínu fór svo að hraka fundum við það öll hvað þér þótti sárt að geta ekki fylgst með öllu sem sagt var, en ég fann svo sterkt hvað það var þér erfitt að missa tónlistina. Mér þótti því alltaf svo vænt um þegar þú óskaðir eftir því að ég væri með „demantinn“ um hálsinn, tækið sem var beintengt í heyrnartækið þitt, því ég segði svo skemmtilegar sögur að þú vildir heyra mest í mér. Hvort það var nú aðalástæðan eða bara það að ég talaði hæst og mest látum við bara liggja milli hluta.
Þrautseigja, ósérhlífni og nægjusemi eru orð sem mér hefur alltaf þótt lýsa þér vel, en ekki má gleyma að það varst þú sem kenndir mér að það væri líka alveg í lagi að gera vel við sig – þegar það væri innistæða fyrir því. Mikið er ég þakklát fyrir allan tímann sem við fengum saman. Þú kenndir mér svo óskaplega margt og ég mun vera dugleg að segja börnunum mínum sögur um þig og ég mun líka sjá til þess að þau sjái Lundúnaborg eins og þú sýndir mér borgina.
Elsku amma, minningarnar mínar um þig eru svo ótal margar og þær ylja mér svo sannarlega á þessum köldu vetrarkvöldum. Eitt af því síðasta sem við gátum rætt um var að Bjarki yrði brátt stóri bróðir og að þú hlakkaðir svo mikið til að fylgjast með honum og lillunni vaxa og dafna. Ég veit að þú munt svo sannarlega gera það, þaðan sem þú ert núna, með afa og aðra ástvini hjá þér, með kaffibolla og Anton Berg-konfekt að spila bridge.
Ég kveð þig, elsku amma mín, með söknuði og trega.
Þín
Þóranna Hrönn.