Sóley Margrét Jónsdóttir og Alexander Örn Kárason eru kraftlyftingafólk ársins 2024 að mati Kraftlyftingasambands Íslands. Sóley, sem er 23 ára og keppir í kraftlyftingum með búnaði í +84kg flokki, náði þeim frábæra árangri að verða bæði Evrópumeistari og heimsmeistari á árinu í fullorðinsflokki og bæta heimsmetið í samanlögðum árangri í unglingaflokki. Alexander er 26 ára og keppir í klassískum kraftlyftingum í -93 kg flokki. Alexander náði mjög góðum árangri á EM þar sem hann hafnaði í 5. sæti.
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, landsliðskona á skíðum, gerði sér lítið fyrir og skoraði sín fyrstu Evrópubikarstig á föstudag. Þetta eru fyrstu Evrópubikarstig Íslands í 15 ár en það var Björgvin Björgvinsson sem skoraði þau í svigi í Crans Montana í Sviss árið 2009. Hólmfríður tók þátt í tveimur brunmótum í Evrópubikarnum í St. Moritz í Sviss. Hún hafnaði í 29. sæti í fyrra mótinu og í 28. sæti í því seinna sem veitti henni fimm stig í stigakeppninni og skilaði henni í 69. sæti í heildarstigabikarnum.
Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfuknattleik, átti góðan leik fyrir Maroussi þegar liðið tapaði naumlega fyrir AEK Aþenu, 81:83, í grísku úrvalsdeildinni á laugardag. Elvar Már skoraði 16 stig og gaf sex stoðsendingar á 24 mínútum hjá Maroussi.
Mikael Egill Ellertsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, var á skotskónum hjá Venezia þegar liðið gerði jafntefli við stórlið Juventus, 2:2, í Tórínó í ítölsku A-deildinni á laugardag. Mikael lék í 81 mínútu fyrir Venezia og jafnaði metin í 1:1 á 61. mínútu.
Íslenskir leikmenn Leipzig létu mikið að sér kveða þegar liðið mátti þola tap fyrir stórliði Kiel, 28:32, á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik á laugardag. Viggó Kristjánsson skoraði fjögur mörk og gaf þrjár stoðsendingar og
Andri Már Rúnarsson skoraði einnig fjögur mörk og gaf tvær stoðsendingar. Rúnar Sigtryggsson þjálfar liðið. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark og gaf þrjár stoðsendingar í 36:25-sigri Magdeburg á Rhein-Neckar Löwen á útivelli í gær. Ómar Ingi Magnússon lék ekki með Magdeburg vegna meiðsla.
Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí mátti þola tap, 2:0, fyrir Kasakstan í gær í lokaumferð D-riðils í undankeppni fyrir Vetrarólympíuleikana 2026. Leikið var í Piestany í Slóvakíu og hafnaði Ísland í neðsta sæti eftir að hafa tapað öllum þremur leikjum sínum. Þar með er ljóst að íslenska liðið fer ekki á Vetrarólympíuleikana.
Danielle Rodriguez, landsliðskona í körfuknattleik, átti stórleik fyrir Fribourg í 95:37-sigri á Aarau í úrvalsdeildinni í Sviss í gær. Danielle var stigahæst í leiknum en hún skoraði 18 stig, tók fimm fráköst og gaf sex stoðsendingar á 23 mínútum hjá Fribourg, sem hefur unnið alla tíu leiki sína í deildinni til þessa. Var Danielle með 100 prósenta skotnýtingu; skoraði úr öllum átta skotum sínum.
Knattspyrnudeild Vestra hefur samið við Svíann Diego Montiel um að leika með liðinu á næsta tímabili. Montiel er 29 ára gamall miðjumaður. Vestri býr sig nú undir áframhaldandi átök í Bestu deildinni og framlengdi samninga tveggja leikmanna, Silas Songani og Benjamin Schubert, um eitt ár í gær. Songani er 35 ára kantmaður sem á 11 A-landsleiki fyrir Simbabve. Schubert er 28 ára danskur markvörður.
Óðinn Þór Ríkharðsson, landsliðsmaður í handknattleik, var markahæstur allra með níu mörk í 31:29-sigri Kadetten Schaffhausen á Suhr Aarau í svissnesku efstu deildinni í gær. Kadetten er á toppi deildarinnar, sjö stigum fyrir ofan næsta lið.
Elías Már Ómarsson skoraði mark NAC Breda í 1:2-tapi fyrir AZ Alkmaar í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöldi. Elías lék fyrstu 83 mínúturnar fyrir Breda, sem er í níunda sæti deildarinnar.