Fall Bashars al-Assads, einræðisherra í Sýrlandi, á eftir að hafa víðtækar afleiðingar. Menn eru jafnvel farnir að ganga svo langt að líkja falli hans við fall Berlínarmúrsins árið 1989, svo miklar breytingar muni það hafa í för með sér í Mið-Austurlöndum.
Mest er áfallið fyrir Íran. Íranar hafa í fjörutíu ár ræktað áhrif sín í Sýrlandi. Með ítökum sínum í Sýrlandi hafa Íranar breitt út usla og glundroða í Mið-Austurlöndum. Nægir þar að nefna Hisbollah í Líbanon, Húta í Jemen og Hamas á Gasasvæðinu.
Þeir hafa eytt ómældum upphæðum í að breiða út og tryggja áhrif sín í stað þess að reyna að bætta lífskjör almennings í þeim efnahagsþrengingum sem eru heima fyrir. Milljarðar dollara hafa streymt til Sýrlands frá Íran, að ekki sé talað um greiðslur til hryðjuverkasamtaka.
Íranar reyndu að hjálpa, sendu háttsetta herforingja til Damaskus, þar á meðal leiðtoga írönsku byltingarvarðanna, sem átti þátt í að hjálpa Assad að ná Aleppo á sitt vald á ný 2016. Það var hins vegar ljóst að Íranar fengju engu áorkað að þessu sinni. „Assad var orðinn til trafala,“ sagði íranskur greinandi, sem stendur nærri stjórnvöldum í Teheran.
Nú sé þetta allt fyrir bí.
Í Íran er nú nýr tónn í garð uppreisnarmanna sem steyptu Assad. Í írönskum fjölmiðlum breyttist tónninn á einni nóttu. Sveitir hryðjuverkamanna urðu að andspyrnusveitum. En munu hinir nýju valdhafar verða Írönum auðsveipir? Íranar ásamt Rússum tryggðu að Assad hélt velli í uppreisninni 2011 og sáu til þess að valdaseta hans framlengdist um 13 ár. Íhlutun þeirra hefur kostað yfirgengilegan fjölda mannslífa, orðið til þess að milljónir manna lentu á vergangi og valdið gríðarlegri eyðileggingu.
Þar við bætist að Íranar eru sjítar, en foringjar uppreisnarmanna súnnítar.
Við fall Assads vaxa áhrif og ítök Tyrkja. Þeir hafa stutt uppreisnarmenn og vilja nú hafa áhrif á framhaldið. Þeir styðja þó ekki alla uppreisnarmenn og vilja veg Kúrda sem minnstan í hinu nýja Sýrlandi.
Ísraelar gera sé einnig vonir um að hagur þeirra vænkist með falli Assads og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur eignað sér fall einræðisherrans. Það má til sanns vegar færa, en einnig er hægt að heimfæra það til þeirrar atburðarásar sem hófst með hryðjuverki Hamas 7. október í fyrra.
Ísraelar hafa gert árásir á Sýrland eftir fallið með það að markmiði að draga úr hernaðarmætti þeirra. Þeir hafa eyðilagt loftvarnarkerfi, vopnabúr, dróna, þyrlur, orrustuþotur, skriðdreka, brynbíla og flota sjóhersins. Mun þeim hafa tekist að skerða hernaðargetu þeirra um 80 af hundraði. Ísraelar réttlæta þetta með því að þeir vilji ekki að vopn sýrlenska hersins falli í hendur hryðjuverkamanna í valdatómi líkt og gerðist í Líbíu þegar Moammar Gaddafi féll og Afganistan þegar Joe Biden Bandaríkjaforseti kvaddi bandaríska herinn í burtu.
Ítök Írana í Mið-Austurlöndum eru hrunin og til marks um það er að leiðtogi Hisbollah hefur nú viðurkennt að með falli Assads hafi birgðalínur frá Íran til hryðjuverkasamtakanna lokast. Spurningin er hvaða áhrif þessi veikari staða Írana muni hafa. Þolinmæði almennings er á þrotum, en stjórninni hefur hingað til tekist að kæfa niður andóf og óánægju. Nú er hún hins vegar mjög aðþrengd. Talað hefur verið um að Íranar hafi búið til öxul andspyrnu, sem ætlað var að skáka áhrifum Sádi-Arabíu og berja á Ísrael. Á einni nóttu sé hann að engu orðinn.
Margir óttast að Írönum finnist þeir nú svo aðþrengdir að þeir muni reyna að bæta það upp með því að koma sér upp kjarnavopnum. Það geti þeir gert í einni svipan, jafnvel á einni viku. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin greindi frá því fyrir nokkrum dögum að Íranar hefðu upp á síðkastið bætt verulega í framleiðslu á auðguðu úrani, sem er nauðsynlegt til að búa til kjarnavopn.
En hvernig ætla Vesturlönd að spila úr stöðunni? Hinir nýju valdhafar eru stimplaðir sem hryðjuverkamenn á Vesturlöndum. Bandaríkjamenn höfðu meira að segja sett tíu milljónir dollara til höfuðs einum forustumanni þeirra fyrir hryðjuverk, en um helgina upplýsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna, eftir fund í Jórdaníu með fulltrúum Arabaríkjanna, Evrópusambandsins og Tyrklands, að bein samskipti hefðu átt sér stað við nýju valdhafana.
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hefur sagt að Sýrland sé ekki vandamál Bandaríkjamanna, heldur Sýrlendinga. Í Evrópu standa menn álengdar án ítaka. Sýrlendingar munu þurfa á mikilli hjálp að halda til uppbyggingar og þar geta lönd Evrópu stigið inn.
Ljóst er að gagngerar breytingar munu nú eiga sér stað í Mið-Austurlöndum, en ógerningur er að segja til um þróunina. Til marks um það er að um miðjan nóvember hvarflaði ekki að nokkrum manni að hálfrar aldar einræði Assad-fjölskyldunnar væri brátt á enda.
Hvað nú tekur við í Sýrlandi er óvíst, en um þessar mundir flykkjast menn á götur út í Sýrlandi – ekki í mótmælaskyni heldur til að fagna því að vera lausir við einn hrottafengnasta einræðisherra seinni tíma.