Agnar Már Másson
agnarmar@mbl.is
„Það sem veldur mér mestum áhyggjum er að þetta spjallmenni er ekki á því stigi að það sé hægt að nota það sem hjálpargagn, til dæmis við kennslu í skólum,“ segir Jón G. Friðjónsson, prófessor emeritus í íslensku við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið.
Jón skrifar aðsenda grein í blaðið í dag, með framhaldsgrein sem verður birt á morgun, þar sem hann fjallar um málbeitingu spjallmennisins ChatGPT, bendir á það sem vel gengur og það sem bæta þarf. Niðurstaða prófessorsins er að enn sé eitthvað í það að spjallmennið geti talað „því sem næst lýtalausa íslensku“.
Þótt spjallmennið sýni góða hæfni á einhverjum sviðum, beiti t.d. viðtengingarhætti nokkuð vel, gerir það oft villur. Sumar misfellurnar kveðst Jón aldrei hafa séð á sinni tæplega 60 ára löngu kennaratíð.
„Mállíkanið er um margt afar áhugavert, en á því stigi sem það er núna virðist það ekki rísa undir þeim væntingum sem er eðlilegt að gera til þess,“ segir Jón enn fremur.
Tungumál hafa sérkenni
Hann segist gera sér grein fyrir því að tæknin muni þróast, en segir þó ljóst að mállíkanið muni aldrei búa yfir sömu málþekkingu og mannkynið enda skilji það ekki tungumál með sama hætti og mannshugurinn. „Þessi skapandi kraftur sem er einkenni tungumálsins er ekki til staðar í gervigreindinni,“ segir Jón. „Hafa ber í huga að hvert tungumál hefur sín sérkenni. Íslensk tunga er samofin íslenskum bókmenntum, menningu, sögu og biblíumáli. Mállíkanið þarf að taka tillit til þessa eins og kostur er.“