Sigurður Hlíðar Brynjólfsson fæddist 1. maí 1936. Hann lést 4. desember 2024.

Útför Sigurðar fór fram 12. desember 2024.

Elsku afa Siggi, komið er kveðjustund og þú farinn í sumarlandið til Sigga míns sem lést í síðasta mánuði, en þó allra mest ertu loks sameinaður pabba, Nonna syni þínum, sem kvaddi okkur fyrir níu árum síðan.

Á kveðjustund með þessari stendur eftir þakklæti að hafa fengið þann heiður að vera barnabarn þitt og fá að eiga þig að sem afa. Þú varst ávallt til staðar fyrir börnin þín og síðar meira barnabörn, langafabörn. Þú varst alltaf boðinn og búinn að spjalla, hlusta og gefa manni góð ráð. Þú hvattir okkur áfram og gafst okkur öll þau lífsins verkfæri til þess að verða framúrskarandi einstaklingar og er það ómetanlegur arfur.

Þegar maður grúskar í minningum þá stendur upp úr fjöldinn allur af stundum sem hægt er að segja frá og verða þær sagðar um ókomna tíð. Hjá mér standa þó hæst allar stundirnar úr Sælundi á Bíldudal. Það að fá að alast upp við að Sælundur væri heimili okkar allra, þar var alltaf svo mikil hlýja og kærleikur. Þegar þú fórst á sjó, í hversu miklu uppáhaldi voru löndunarmorgnar? Þá fékk maður afa sinn heim og fékk ávallt ferskasta fiskinn á landinu í hádegismat hjá ykkur ömmu Dídí. Soðinn fiskur með kartöflum og smjöri, seinna meir með hamsatólg þegar maður lærði loks að meta hana. Mjólkin í Sælundi var líka besta mjólkin á landinu, hún var jú sú sama á öllum öðrum heimilum en hjá ykkur var hún fullkomlega köld og alltaf fersk. Að lokum má að sjálfsögðu ekki gleyma hádegisfréttunum á Rás 1 sem hljómuðu á hverjum degi á slaginu 12.20.

Oft á tíð vorum við flest ef ekki öll barnabörnin í hádegismat hjá ykkur og munaði ykkur ekki um það.

Þessar fjölskyldustundir eru dýrmætar og þykir mér afar vænt um þær.

Takk afi Siggi fyrir allt, allar stundirnar, öll ráðin, öll knúsin. Takk fyrir að hafa verið fyrirmynd okkar allra. Fyrirmynd ekki aðeins sem afi heldur sem réttlætismaður, leiðbeinandi, leiðtogi, sjómaður, vinur allra, faðir barna þinna og eiginmaður ömmu Dídíar.

Hrefna Ingibjörg
Jónsdóttir, barnabarn.

Afi Siggi kvaddi þennan heim 4. desember 2024.

Ég vissi að einn daginn myndir þú sigla inn í draumalandið en það er svo óraunverulegt. Söknuðurinn og missirinn er svo mikill enda varst þú allra besti afi í öllum heiminum. Þú tókst alltaf á móti mér með bros á vör. Viska þín, dugnaður, húmor og samkennd einkenndi þig. Þú varst stoð og stytta fjölskyldunnar.

Minningarnar eru margar frá Sælundi á Bíldudal. Þegar við systur vorum litlar vorum við mikið hjá ykkur ömmu. Við löbbuðum „leyni“leiðina á milli húsa frá Arnarbakkanum. Aðalsportið var að hoppa yfir lækinn en þegar það var mikið vatn í læknum og við gátum ekki hoppað yfir þá óðst þú bara út í eins og ekkert væri og tókst brosandi á móti okkur. Við vorum svo heppnar að fá alltaf fisk í hádegismatinn í Sælundi og graut í eftirmat. Síðan var tekinn lúr í hornsófanum og hlustað á Rás 1.

Ég var svo lánsöm að fá að fara á strandveiðar með þér nokkur sumur. Þeim stundum sem við áttum saman á sjónum mun ég aldrei gleyma. Fyrstu tvö skiptin var það mikil bræla að það datt engum öðrum en þér að róa af stað í þessu veðri. Þú hafðir áhyggjur um að ég yrði sjóveik, en þannig varst þú, þú settir alltaf aðra í fyrsta sæti. Ég fann ekki fyrir því enda var ég um borð með Sigga skipstjóra. Svo gerðir þú svo mikið grín að mér í seinasta túrnum okkar. Það var blankalogn og sólin glitraði svo fallega á hafið og ég sagði „afi, hvað er í gangi, báturinn hreyfist ekki?“. Þú hlóst svo innilega. Í þessum sjóferðum kom alltaf steypireyður að kíkja á okkur og í eitt skiptið leist mér nú alls ekki á blikuna og stökk inn í stýrishúsið, það sem þessi félagsskapur gladdi þig.

Gangan upp Fagradalsfjall er okkur ógleymanleg. Þú varst að verða 85 ára og gafst okkur Viddu ekkert eftir. Það var reyndar smáfall í byrjun ferðar þegar þú dast á bílastæðinu og varðst alblóðugur í framan en þú kallaðir það bara skrámu og hélst áfram veginn eins og þér einum var lagið, á þrjósku, jákvæðni, húmor og með áttavita um hálsinn.

Afi, þú kenndir mér svo margt og þakklætið í hjarta mínu er mikið. Þú varst svo stoltur af fólkinu þínu og þá sérstaklega barnabarnabörnunum þínum. Afi, takk fyrir allt, þú munt ávallt vera fyrirmynd mín.

Herdís Ýr Hreinsdóttir.

Elsku besti afi Siggi er búinn að kveðja okkur.

Ég er svo þakklát fyrir góðu minningarnar sem við áttum saman og samverustundirnar voru margar dásamlegar. Afi var einfaldlega langbestur. Hann var mér mikil fyrirmynd. Gleði, dugnaður og kraftur einkenndu hann og að láta verkin tala, ekkert var honum ofviða, hann gekk í verkin. Hann var fjörugur og fróður.

Hann var svo stoltur af okkur öllum og það sem hann dáði barnabarnabörnin öll. Hann var alltaf svo áhugasamur um allt sem við vorum að gera og var mikill stuðningsmaður. Hann var hjálpsamur og umhyggjusamur, hann vildi að öllum liði vel og var alltaf að spyrja okkur hvernig við hefðum það.

Mína bestu minningar með afa eru margar. Þegar ég var með lausa tönn þá dró afi tönnina úr með hinum með ýmsum aðferðum. Fiskurinn í hádeginu í Sælundi sem afi veiddi er enn sá allra besti sem amma eldaði og grautur á eftir. Amma var besti kokkurinn en afi byrjaði að elda meira í Hveragerði og hann sagði mér oft fá hinum ýmsu tilraunum úr eldhúsinu og honum fannst gaman að prófa sig áfram. Eitt sinn í Sælundi prófaði afi að baka pítsu fyrir okkur barnabörnin, hann gleymdi að setja pítsusósu á pítsuna en setti alls konar álegg á sem vanalega er ekki á pítsu, okkur fannst þetta mjög skrýtin pítsa en hann reddaði þessu með að setja nóg af tómatsósu yfir allt saman, hann var með lausnir á öllu.

Þegar ég var að keppa á frjálsíþróttamótum þá kom hann og hljóp meðfram hliðarlínunni og hvatti mig áfram. Þegar ég fór með honum á strandveiðar og allar bátsferðirnar með krökkunum. Þegar ég var í fæðingarorlofi með krakkana kom afi margoft í heimsókn að kíkja á þau og að leika með þeim, hann var fljótur að leggjast í gólfið og leyfa krökkunum að hnoðast í sér. Hann elskaði að vera með okkur. Þegar við löbbuðum að eldgosinu við Fagradalsfjall með Heddu. Yndislegur tíminn okkar í Hveragerði þegar við vorum með hjólhýsið þar, afi var alltaf að athuga með það þegar hann var í göngu og láta Hákon vita að allt væri í lagi. Það var svo gott fá afa í morgunkaffi í hjólhýsið.

Fjölskylduferðin til Kanarí var alveg frábær, við afi skelltum okkur í svifvængjaflug en honum fannst það nú lítið mál, 88 ára gömlum, að stökkva í sjóinn og synda með krökkunum.

Takk fyrir að vera svona hress og langbesti afi í öllum heimi. Ég mun sakna þín elsku afi minn, minning þín lifir með okkur.

Vigdís Ylfa.

Sigurður Hlíðar móðurbróðir minn var mér ákaflega kær og nú kveður hann síðastur systkinanna úr Messíönnuhúsi við Sundstræti á Bökkunum á Ísafirði. Siggi Binn, eins og hann var oftast kallaður, fæddist í Hörgshlíð í Mjóafirði við Djúp. Foreldrar hans voru Guðný Kristín Halldórsdóttir og Brynjólfur Ágúst Albertsson. Fæðingu hans bar upp á 1. maí svo að systur hans hentu gaman að því að alltaf væri flaggað, sem honum líkaði vel og taldi það rétt í barnæsku sinni, enda ávallt kappsamur og fylginn sér.

Lífið á Bökkunum færði ungum dreng ævintýri og uppörvun, leiksvæðið skannaði alla sjávarsíðuna við sundið frá Norðurtangabryggju inn að Dokkubryggju, fjaran, fuglinn, fiskurinn við fjörukambinn og jafnvel kötturinn þá á stundum á pollanum. Þá tóku við aukin ævintýri við Pollinn; Bæjarbryggjan, Edinborgarbryggjan og Kompaníið, þar sem bátar, trillur, skektur, prammar og stærri skip voru tíðum og heill heimur út af fyrir sig. Drengurinn Siggi Binn var duglegur að sendast fyrir mömmu sína og upplifa lífsins tengingu við hvert fótmál og ekki að tala um þegar tækifærin buðust til skoðunar, leiks við sjóinn og um borð í fleyi. Siggi Binn var snemma liðtækur til verka og þrátt fyrir að vera barnungur tók hann til hendinni á trillunni með sér eldri.

Barnæskan lagði grunninn að lífsins stefnu. Hann elskaði sjóinn, sjávarilminn, frelsið þar sem náttúran gaf. Honum var svo eðlislægt að lesa náttúruna, lífið til sjós og lands. Bera virðingu fyrir því og vita að afkoman leynist í dugnaði og þolgæði, og að manninum er ekkert óviðkomandi, en um leið að sýna því auðmýkt sem hann ekki ræður. Siggi Binn var farsæll sjómaður, vakinn og sofinn yfir velferð þeirra sem með honum voru og um leið fór hann fyrir í dugnaði, frumkvæði og verkkunnáttu, var hamhleypa til allrar vinnu. Óhræddur að stíga ný spor, auðveld sem erfið, ef það lagði grunn að velferð og öryggi annarra.

Ég kynntist elskulegum frænda mínum barn að aldri og tókust kærleikar með okkur, með virðingu hvor fyrir öðrum, spjalli um nútína, þátíðina og framtíðina. Áttum við góða samleið í áhugamálum okkar um veðurfar, veiðar, skip og veiðafæri. Spurningin um framtíðina var aldrei langt undan. Hann átti auðvelt með að tjá sig og leggja fram hugmyndir og um leið rekja raunveruleika þess sem talað var um. Skemmtilegur, vænn og hlýr.

Siggi Binn hafði stundað nám í Reykjarnesi við Djúp og síðar við Stýrimannaskólann í Reykjavík, hann flutti til Keflavíkur og síðar til Bíldudals 1980, ásamt konu sinni Herdísi Jónsdóttur. Hann stundaði sjómennsku á vélbátum og togurum og var skipstjóri á Sölva Bjarnasyni í fjölda ára. Siggi og Herdís eignuðust þrjú börn. Síðustu árin bjuggu þau í Hveragerði. Skert heilsa sótti að. Nú á haustdögum átti ég þess kost að hitta þau og eiga hlýja stund, sem ég geymi í brjósti mér.

Kæra fjölskylda, hugheilar samúðarkveðjur færi ég ykkur öllum og megi minningin lifa um góðan mann.

Guðbjartur Ásgeirsson.

Birtan þverr og myrkrið bankar upp á nú þegar skammdegið nálgast hér á norðurslóð. Við andlátsfregn þína leitar hugurinn óneitanlega vestur og ekki síður til syrgjenda góðs manns. Til huggunar þá eru jólin á næsta leiti og daginn fer senn aftur að lengja. Ég ylja mér gjarnan við upprifjun góðra minninga um gengna félaga, því einhvern veginn er það þannig að þó fólk kveðji þetta jarðlíf þá getur það lifað áfram meðal okkar, ef við viljum. Siggi skipstjóri er sannarlega meðal þeirra sem munu lifa áfram.

Ég kynntist Sigurði Brynjólfssyni eða Sigga skipstjóra eins og fólk kallaði hann þá ég var barn. Siggi skipstjóri var hluti af samfélaginu sem ég ólst upp í og sleit barnsskóm æsku minnar í á Bíldudal. Orðið sem kemur upp í huga mér þegar ég hugsa til baka er þakklæti og hlýja. Hluti af því að alast upp í litlu samfélagi úti á landi er að allir þekkja alla og þorpið og fjörðurinn fóstrar syni sína og dætur vel.

Það voru mikil forréttindi að vaxa úr grasi undir verndarvæng heiðurs fólks eins og Sigga skipstjóra og Herdísar konu hans. Ég kynntist Sigga þegar ég var smápjakkur en faðir minn var stýrimaður hjá honum. Oft leyfðu Siggi og Herdís okkur strákunum að spila billjard á rishæð hússins og oftar en ekki var djús og einhver kökubiti eða kex í boði. Mér þótti Siggi alltaf skemmtileg týpa í minningunni og á síðari árum kynntist ég hvers konar öðlingur maðurinn var í raun og veru.

Siggi var aflaskipstjóri á togaranum Sölva Bjarnasyni sem gerður var út frá Bíldudal, ásamt fleiri bátum. Faðir minn var stýrimaður og kynntist Sigga vel á Sölva Bjarnasyni. Ég fékk að fara nokkra túra með Sölvanum, þann fyrsta þegar ég hef verið um 12 ára gamall. Siggi var mér mjög góður og reyndist vel. Ekki skemmdi fyrir að hann átti alltaf kassa af Coca-Cola eða öðru gosi í káetu kafteinsins. Það var virkilega gaman að koma í brúna á Sölvanum þegar Siggi var á vakt. Þar var allt útskýrt í þaula fyrir nýgræðingnum mér. Mér er sérstaklega minnisstæð Apple-siglingatölvan sem var ný í brúnni á Sölvanum. Með einum músarsmelli var hægt að kalla fram í svart/hvítu, léttklædda yngismey sem dansaði í horninu á skjánum í nokkrar sekúndur. Siggi sagði mér að faðir minn fengi að sjá stelpuna dansa, en þó aðeins til spari á sunnudögum.

Minningarnar sem ég geymi úr æsku minni og seinni tíð um þig, Siggi, eru ógleymanlegar. Sá nagli sem þú varst, ósérhlífinn og veðurbarinn sjómaður, en alltaf góður og hress.

Nú hefur þú lagt úr höfn í síðustu og lengstu sjóferðina sem við förum öll í. Þegar ég fer í mína sömu ferð, hvenær sem það nú verður, legg ég hér með inn umsókn um pláss á því skipi sem þú stýrir á rennisléttum sjó í Sumarlandinu!

Ég sendi Herdísi, Guðnýju, Láru og öðrum aðstandendum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Ég kveð þig með þakklæti í hjarta og sannri sjómannakveðju. Hvíldu í friði, kæri vinur.

Ljúft í hjarta logar mér,

ljósið bjart í sinni.

Ljósið fagra færi þér,

frið í eilífðinni.

(ÍÖH)

Ívar Örn Hauksson.

Það var snemma morguns hinn 4. desember sem ég fékk fréttir af því að Sigurður Brynjólfsson, eða Siggi eins og ég kallaði hann ávallt, hefði kvatt þessa jarðvist. Ótal minningar koma upp í hugann við svona fréttir, enda búin að þekkja Sigga og fjölskyldu í um 55 ár. Við Guðný, yngsta dóttir Sigga og Dídíar, eiginkonu hans, erum æskuvinkonur og var ég alltaf eins og heimalningur á þeirra heimili á Hólabrautinni í Keflavík. Alltaf opið hús og pláss fyrir alla.

Þar fengum við vinkonurnar svo sannarlega að njóta okkar við hin ýmsu verkefni, og fannst þeim hjónum gaman að fylgjast með okkur og hlógu stundum innilega að okkur.

Þeir voru nokkrir rúntarnir sem Siggi bauð okkur vinkonum upp á, helst í ófærð og með Roger Whittaker í spilaranum, stórar spólur, ég söng með, kunni ekkert í ensku en bullaði bara, hélt að ég væri alveg með textann á hreinu og Siggi alveg í hláturskasti yfir þessum söng mínum, en gerði aldrei grín að mér, sagði bara að ég væri yndisleg, ómetanlegt fyrir mig.

Það var oft tekið í spil þegar Siggi var heima, og kenndu þau hjónin mér að spila t.d. vist, með mikilli þolinmæði, og er ég í dag algjör spilafíkill, vil helst spila vist á hverjum degi og hugsa þá hlýtt til þeirra sem kenndu mér, sérstaklega þegar ég vinn stóra sigra.

Þær voru nokkrar ferðirnar sem þau hjónin buðu mér með í Þjórsárdalinn, þar áttu þau hjólhýsi og nutu þess að vera þar, fara í sund og kenndi Siggi mér að fljóta. Ég naut þess innilega að fara með þeim í ferðalög, alltaf stuð og stemning og svo mikil væntumþykja.

Þegar ég fermdist, árið 1976, fékk ég gullskrautritað skeyti frá Sigga og Dídí með umslagi sem í voru 5.000 krónur, Siggi sagði að aurinn væri frá honum og að ég ætti að kaupa mér eitthvað fallegt … þetta skeyti á ég enn.

Núna síðustu árin hafa þau hjónin búið í Hveragerði, hann arkandi marga kílómetra á hverjum degi og Dídí í leikfimi í nýja garðskálanum sem þau létu byggja við húsið. Þau hjónin voru alltaf svo hamingjusöm og það var svo yndislegt að sjá hvernig þau horfðu hvort á annað, ást og virðing.

Við hjónin höfum heimsótt þau í Hveragerði einstaka sinnum og þá með pönnukökur, sem Sigga þótti svo góðar, helst þunnar … sagði mér að mínar væru jafnvel betri en Guðnýjar … en það ætti bara að vera okkar á milli. En Guðný, mín kæra vinkona, veit betur.

Siggi var einstakur og á pláss í mínu hjarta. Það er ómetanlegt að hafa kynnst svona öðlingi sem hafði svo gaman af lífinu og hló svo innilega að það var ekki hægt annað en taka undir með honum. Ari eiginmaður minn naut þess að spjalla við þau hjónin og biður fyrir kæra kveðju með þakklæti fyrir góð kynni.

Hafið þökk fyrir allt sem þið gerðuð fyrir mig kæra fjölskylda, þið hafið gengið í gegnum eitt og annað, bognað en ekki bugast. Guð blessi minningu elsku Sigga og passi upp á fólkið hans sem sér á eftir miklum öðlingi. Guð gefi ykkur styrk, kæra Dídí mín, og fjölskyldunni allri.

Bestu þakkir fyrir allt.

Anna María Kristjánsdóttir.

hinsta kveðja

Kveðja

Dýrmæt er lífsins gjöf

er leiðir hal

um heimsins höf

Sólskin og seglsins tröf

stýra fleyi

í kærleiks för

Þakka allt frá mínu hjarta

samleið, ást og hlýju

Mót þér tekur ljósið bjarta

kveðja, heilsumst brátt að nýju

(rh)

Ragnheiður
Hákonardóttir.