Um miðjan áttunda áratuginn kynnti ungur verkfræðingur, sem þá var starfsmaður myndavélaframleiðandans Kodak, nýja uppfinningu fyrir yfirmönnum sínum. Uppfinningin fólst í myndavél þar sem hægt var að taka myndir sem síðan mátti skoða í tölvu – stafræn myndavél. Stjórnendur Kodak gáfu lítið fyrir þessa uppfinningu og gengu meira að segja svo langt að biðja þróunarteymi sín um að setja allar slíkar hugmyndir ofan í skúffu.
Í dag, tæpum 50 árum síðar, vitum við hvernig saga stafrænu myndavélarinnar hefur þróast og enn er verið að skrifa þá sögu. Kodak varð aldrei þátttakandi í því kapphlaupi og varð gjaldþrota árið 2012 en var endurreist að hluta ári síðar.
Hrun Kodak á sér margar skýringar og enn eru menn að reyna að greina hvernig það kom til. Það er rétt að hafa í huga að Kodak hagnaðist á þessum tíma umtalsvert á sölu á filmum. Svo virðist sem stjórnendur félagsins hafi látið það mikla tekjuflæði villa sér sýn og ekki horft til þess að einhvern daginn myndi þróunin verða með öðrum hætti. Viðskiptin gengu vel og menn sáu ekki ástæðu til að hrófla við því.
Kodak er svo sem ekki eina risafyrirtækið sem hefur fallið. Nokia var eitt sinn stærsti farsímaframleiðandi heims, Blockbuster var langstærsta vídeóleigan og Compaq var einn stærsti tölvuframleiðandinn, svo nokkur séu nefnd. Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa tekið rangar ákvarðanir þegar kom að því að takast á við framtíðina.
Það eru þó ekki bara stórfyrirtæki sem geta fallið á röngum ákvarðanatökum, heldur eru líka til dæmi af ríkjum sem eitt sinn nutu mikillar hagsældar en gera það ekki lengur. Venesúela er mögulega það dæmi sem við horfum helst til, land sem byggði auðæfi sín á nýtingu náttúruauðlinda en varð sósíalismanum að bráð með tilheyrandi ömurlegheitum fyrir íbúa. Það mætti einnig taka dæmi af Íran, hvar íbúar bjuggu áður við frelsi og velmegun en búa nú við kúgun ríkisins.
Hér á Íslandi hefur okkur auðnast að nýta auðlindir okkar og leggja þannig grunninn að einu mesta velmegunarsamfélagi heims. Það sem skiptir þó líka máli er að við höfum varið réttarríkið, virt eignarréttinn, stundað alþjóðaviðskipti og verið óhrædd við að taka djarfar ákvarðanir til að takast á við framtíðina.
Ekkert af þessu er sjálfgefið og velgengnin er ekki sjálfkrafa varanleg, rétt eins og þau fyrirtæki og þau ríki sem hér hafa verið nefnd hafa fengið að kynnast. Það er hægt að glutra þessu niður með röngum ákvörðunum – og þá sérstaklega þegar vel gengur. Þetta þarf næsta ríkisstjórn, hvernig sem hún verður samsett, að hafa í huga.
Það þarf Sjálfstæðisflokkurinn líka að gera. Nýta þessi mögulegu tímamót vandlega og taka réttar ákvarðanir þegar kemur að því að takast á við framtíðina.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins. aslaugs@althingi.is