Vinur eða varmenni? Ahmeds al-Sharaa bíður nú það hlutskipti að sanna sig sem frjálsræðishetjan góða. Tekst það?
Vinur eða varmenni? Ahmeds al-Sharaa bíður nú það hlutskipti að sanna sig sem frjálsræðishetjan góða. Tekst það? — AFP/Aref Tammawi
Rúmlega 7.600 sýrlenskir flóttamenn komu til fósturjarðar sinnar á nýjan leik yfir landamæri Tyrklands og Sýrlands fyrstu fimm dægrin eftir að uppreisnarsveitir Hayat Tahrir al-Sham steyptu forsetanum Bashar al-Assad af stóli í leifturárás sinni fyrr í mánuðinum

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Rúmlega 7.600 sýrlenskir flóttamenn komu til fósturjarðar sinnar á nýjan leik yfir landamæri Tyrklands og Sýrlands fyrstu fimm dægrin eftir að uppreisnarsveitir Hayat Tahrir al-Sham steyptu forsetanum Bashar al-Assad af stóli í leifturárás sinni fyrr í mánuðinum. Frá þessu greinir tyrkneski innanríkisráðherrann Ali Yerlikaya auk þess sem fregnir úr vestri herma að Antony Blinken utanríkisráðherra hafi gert það heyrumkunnugt að stjórn Joes Bidens Bandaríkjaforseta hafi „verið í sambandi“ við talsmenn Hayat Tahrir al-Sham.

Stjórnvöld í Washington skilgreina uppreisnarsamtökin þó sem hryðjuverkasamtök á meðan breski utanríkisráðherrann David Lammy kveður þarlend stjórnvöld hafa stofnað til formlegra erindrekatengsla við nýju valdhafana í Sýrlandi sem lúta stjórn Ahmeds al-Sharaa, þess manns sem nú hefur töglin og hagldirnar þarlendis í framkvæmd, eða de facto, sem táknar raunverulegan stjórnanda, til aðgreiningar frá stjórnanda de jure sem þegið hefur völd sín fyrir atbeina formlegra kosninga eða sambærilegs fyrirkomulags sem bundið er lögum þess ríkis.

Nýi leiðtoginn, eftir aldarfjórðungsvaldatíma al-Assads og rúmlega hálfrar aldar harðstjórn þeirra feðga, Bashars og Hafez al-Assads, hefur lofað Sýrlendingum réttlæti, stöðugleika og einingu og lýst því yfir að hann muni koma Sýrlandi á vegferð þróunar.

Það er hægar sagt en gert

Nánast hálf sýrlenska þjóðin er á vergangi eftir átakanlega og langdregna borgarastyrjöld sem á 14 árum er talið að hafi kostað 620.000 mannslíf – drjúgan toll af þjóð sem fyrir átökin taldist 22 milljónir, en Alþjóðabankinn hefur metið tjón á innviðum Sýrlands til 11 milljarða bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 1.525 milljarða íslenskra króna.

Fræ efans hafa því skiljanlega átt rótum sínum frjóan jarðveg ótta og nagandi óvissu. Minnihlutahópar, hvort sem litið er til kynþáttar eða trúar, vita ekki hvað framtíð Sýrlands ber í skauti sér. Munu þeir vera inn undir hjá nýju stjórnarherrunum? Búa uppreisnarsveitir yfir þeirri glöggskyggni og sérfræðiþekkingu sem þörf er þeim er hyggjast leiða pólitísk hamskipti stríðshrjáðrar milljónaþjóðar? Hvernig ætla nýju stjórnendurnir að öðlast traust og stuðning alþjóðasamfélagsins?

Hayat Tahrir al-Sham eru enn „forboðin hryðjuverkasamtök, en við getum átt í erindrekatengslum og við höfum komið slíkum tengslum á svo sem við var að búast“, segir Lammy innanríkisráðherra sem segja má að riðið hafi á vaðið fyrir hönd Vesturlanda. „Við viljum sjá ríkisstjórn sem er fulltrúi, ríkisstjórn sem er sameinandi [e. inclusive]. Við viljum sjá ógrynni efnavopna gerð skaðlaus og tekin úr notkun og við viljum ganga úr skugga um að ofbeldið haldi ekki áfram,“ segir ráðherra.

Innan um alla þessa skálmöld, svimandi dánartölur og land í rúst, þar sem oddur og egg hafa skipt arfi um árabil, má þó geta þess að sýrlenskir grunnskólar opna nú dyr sínar á ný að fyrirmælum stjórnenda hryðjuverkasamtakanna Hayat Tahrir al-Sham.