Álfabakki 2 Nýbyggingin byrgir fyrir allt útsýni nágrannanna.
Álfabakki 2 Nýbyggingin byrgir fyrir allt útsýni nágrannanna. — Morgunblaðið/
Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Það er búið að vera að einfalda byggingarreglugerð og draga úr ýmsum kröfum er varða t.d. innri og ytri umgjörð bygginga síðastliðin ár,“ segir Björn Axelsson, skipulagsfulltrúi hjá Reykjavíkurborg, spurður um vöruhúsið sem reist var við Álfabakka 2 í Breiðholti við hlið fjölbýlishúss.

„Hins vegar eru oft settir skilmálar í deiliskipulag sem geta verið nokkuð ítarlegir þar sem það á við. Slíkir skilmálar geta verið opnari annars staðar, það átti m.a. við Álfabakkalóðina en þeir hefðu getað verið ítarlegri en raunin er. Þar var gamalt deiliskipulag í gildi frá árinu 2009 þar sem gert var ráð fyrir mjög stórri byggingu, 1-5 hæða, með möguleikum á fjölbreyttri atvinnustarfsemi en lóðin er á svokölluðu miðsvæði samkvæmt aðalskipulagi þar sem heimildir til notkunar eru talsvert rúmar.“

Ábyrgðin er hjá borgarstjórn

„Það er alveg rétt að skipulagsskilmálar voru rúmir en byggingaraðilar byggja samkvæmt þeim ramma sem þeim er veittur,“ segir Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. Hún segir það alveg ljóst að ábyrgðin á þessu skipulagsklúðri við Álfabakka 2 sé alfarið hjá meirihluta borgarstjórnar. „Borgin þarf að setja skipulagsskilmála sem vernda ákveðna heildarhagsmuni og það var ekki gert þrátt fyrir ábendingar íbúa í hverfinu.“

Á fundi borgarráðs 15. júní 2023 var samþykkt úthlutun á lóðinni og sala byggingarréttar vegna þjónustu- og verslunarhúsnæðis við Álfabakka 2. Sjálfstæðismenn og Sósíalistar sátu hjá. „Við höfum ekki á neinu stigi fengið til kynningar eða samþykktar þrívíðar teikningar af byggingunni sem sýna afstöðuna til íbúðabyggðarinnar. Það er nokkuð óvenjulegt,“ segir Hildur.

Hagur almennings lykilatriði

Hún segir það tvennt ólíkt að tala um einföldun á regluverki þegar kemur að íþyngjandi kröfum á fólk og fyrirtæki, eða þegar um er að ræða reglur sem hafa bein áhrif á lífsgæði fólks innan hverfa, eins og sé tilfellið á Álfabakkalóðinni.

„Við þurfum að létta á því íþyngjandi regluverki sem setur til dæmis þá kröfu á veitingamann að hafa 14 handlaugar og þrjár ræstikompur á einum veitingastað. Kröfurnar hafa jafnframt verið alltof miklar þegar kemur að húsnæðisuppbyggingu en þekktasta dæmið um afskipti borgarinnar er auðvitað margumtöluðu berjarunnarnir í Vogabyggð sem íbúum var gert að hafa í görðum sínum. Í þessum tilfellum þarf að draga úr afskiptum borgarinnar, en ekki þegar kemur að því að skipuleggja hverfi og samfélög og heilbrigt samspil atvinnustarfsemi við íbúðabyggð, en þar skiptir máli að huga að lífsgæðum íbúa í hverfunum. Þar verður borgin að bera hag almennings fyrir brjósti.“

„Svo virðist eina lausn Einars Þorsteinssonar borgarstjóra vera sú að sneiða ofan af húsinu, eins og um sé að ræða oststykki. Hver sem lausn þessa máls verður er ljóst að hún mun hafa verulegan kostnað í för með sér fyrir borgarsjóð,“ segir Hildur og er ekki sátt við framgöngu meirihlutans í málinu.