Steinunn Jóna Geirsdóttir fæddist 29. október 1952 í Reykjavík. Hún lést á Borgarspítalanum þann 1. desember 2024.
Foreldrar hennar voru Geir Austmann Björnsson, rafvirkjameistari og kaupmaður í Reykjavík, f. 20. febrúar 1920, d. 1. október 2010, og Arnheiður Lilja Guðmundsdóttir, f. 1. júlí 1920, d. 17. júlí 2013. Foreldrar Geirs voru þau Björn Eiríkur Geirmundsson, bóndi á Hnjúkum við Blönduós, og Guðrún Jónína Þorfinnsdóttir. Foreldrar Arnheiðar voru þau Guðmundur Ásmundsson, bóndi og orgelleikari á Efra-Apavatni, og Jónína Kristín Þorsteinsdóttir húsfreyja.
Systkini Steinunnar eru Guðrún Erla, f. 16. desember 1951, Geir Arnar, f. 8 nóvember 1961, og Sigurjón Guðbjörn, f. 16 júní 1964.
Steinunn eignaðist dótturina Arnheiði Rós, f. 21. september 1977, með fyrrverandi manni sínum Ásgeiri Heiðar. Maður Arnheiðar er Þórir Baldursson og börn þeirra eru Vera Ísafold, f. 18. janúar 2011, og Flóki, f. 13. apríl 2015.
Eftirlifandi eiginmaður Steinunnar er Ómar Össurarson húsasmiður, f. 12. maí 1962, þau kynntust 1992 og giftust árið 2002.
Steinunn fæddist og ólst upp í Reykjavík. Hún bjó fyrstu æviárin með fjölskyldunni í Vonarstræti 8 í Reykjavík og síðar á Flókagötu. Hún hóf skólagöngu sína í Ísaksskóla, en síðar lá leiðin í Hlíðaskóla og gagnfræðaskólann við Lindargötu.
Steinunn vann um árabil við verslunarstörf í Raftækjastöðinni á Laugaveginum sem var fjölskyldufyrirtæki sem faðir hennar rak með bróður sínum. Hún vann aðallega við skrifstofustörf, m.a. á Fæðingarheimilinu í Reykjavík og yfir 20 ár hjá Sjóvá. Steinunn bjó lengi í miðbæ Reykjavíkur en einnig i Garðabæ, Hafnarfirði og síðustu árin í Kópavogi.
Þau Ómar áttu í mörg ár sumarbústað og nutu þess að vera með hestana sína þar á sumrin og voru um tíma í hestamannafélögunum Gusti og Spretti. Steinunn var mikill dýravinur og fyrir utan hestana átti hún hunda og ketti sem voru henni gífurlega kær. Hún elskaði að vera með fjölskyldunni og þá sérstaklega barnabörnunum, þeim Veru og Flóka.
Steinunn greindist með parkinsonssjúkdóm árið 2016 og lagði mikla vinnu í að takast á við sjúkdóminn með hjálp MS Setursins, Parkinsonsamtakanna og Takts.
Steinunn var vinmörg, glaðlynd, umhyggjusöm og trygglynd.
Útför Steinunnar fer fram frá Digraneskirkju í dag, 16. desember 2024, kl. 15.
Steina, mín ástkæra systir, hefur kvatt. Hugurinn fyllist af minningum og þá sérstaklega frá bernsku- og unglingsárunum.
Tæpt ár var á milli okkar og kraftaverk að hún lifði, því hún fæddist löngu fyrir tímann. Hamingjan var mikil er hún kom til okkar í Vonarstræti 8, þar sem foreldrar okkar bjuggu í húsi Önnu og Helgu, sem voru okkur sem amma og stóra systir. Þaðan áttum við mjög góðar minningar sem við rifjuðum oft upp, t.d. er við fórum með mæðgunum í sumarbústað þeirra við Elliðavatn og er við systurnar veiddum síli í og skautuðum á Tjörninni, lékum okkur í bakgarði þeirra og leiddumst í bakaríið á horni Tjarnargötu að fá sætabrauð sem við kölluðum Matthíasarkökur. Fyrir fáum árum urðum við hissa er við komumst að því að það var sitthvor kökugerðin því Matthías (Þórðarson þjóðminjavörður) á efri hæðinni hafði leyft hvorri okkar að velja það sem henni fannst best. Upp úr stóðu minningar frá einstaklega ánægjulegum aðfanga- og gamlárskvöldum sem fjölskyldan átti með Önnu og Helgu allt fram yfir unglingsár okkar.
Við vorum samrýndar enda byrjuðum við í skóla saman, fermdust saman og fórum saman í sumarbúðir, dans og píanótíma. Áttum sömu góðu vinkonurnar og vinina sem við brölluðum ýmislegt með. Við undum okkur vel saman í sumarbústað pabba og mömmu við Rauðavatn og vorum samhentar í fjölskyldufyrirtækinu. Sumarlangt unnum við á hóteli í nágrenni Portsmouth og fórum að sjá helsta hljómlistafólk heimsins á stórkostlegri hátíð á Isle of Wight, þar sem okkur tókst að komast í stúku blaðafólks upp við sviðið til að njóta átrúnaðargoðanna. Við ferðuðumst á puttanum um England og í ævintýraferð til Niðurlanda, Þýskalands, Lúxemborgar og Frakklands. Er við fluttum að heiman og keyptum við íbúðir í sömu húsalengju. Við bjuggum síðar báðar í Þingholtunum og þá var mikill samgangur á milli okkar. Fyrir nokkru hafði Steina orð á að ég skipti mér stundum af hennar málum. Skýring mín var að mér þætti óskaplega vænt um hana og í bernsku verið uppálagt að gæta hennar.
Þó fullorðnar værum við ekki jafn samrýndar þá leið ekki vika án þess við spjölluðum, enda áttum við trúnað hvor annarrar. Það var yndislegt að fylgjast með er Heiða Rós kom í heiminn hve ástrík og frábær móðir Steina var og ekki var umhyggjan minni fyrir barnabörnum, tengdasyni og eiginmanni.
Fyrir nær áratug er fór að bera á veikindum var hún staðráðin í að gera allt til að þau hefðu sem minnst áhrif á líf hennar, t.d. hafði hún unun af hestamennsku og lagði hana ekki á hilluna fyrr en í fulla hnefana. Af gífurlegri elju sótti hún allt sem í boði var til að auka líkur á að halda styrk og tókst nánast að lifa á sama hátt og áður, svo sem að fara í ferðalög og sækja tónleika og önnur mannamót. Hún var mjög dugleg að sinna sínum fjölmörgu vinum og með umhyggju og léttu geði gerði hún líf margra ánægjulegra og innihaldsríkara. Söknuðurinn er sár, en sárastur hjá Heiðu og fjölskyldu og eftirlifandi eiginmanni.
Megi góðar minningar um einstaka hjartahlýju hennar veita þeim styrk.
Guðrún Erla.
Elsku yndislega Steina frænka mín hefur kvatt allt of snemma. Hún var í senn vinkona og eins konar stóra systir, en mömmu var hún eins og litla systir. Mamma var bara 16 ára þegar hún flutti til Reykjavíkur, en hún var fædd og uppalin á Hnjúkum við Blönduós. Tveir elstu bræður hennar, Jón og Geir pabbi Steinu, voru sestir að í Reykjavík og búnir að stofna fjölskyldur. Þeir voru duglegir að skiptast á að bjóða litlu systur í mat á sunnudögum og voru henni góðir. Henni fannst Geir og Arnheiður eins og sínir aðrir foreldrar og Guðrún Erla og Steina eins og litlu systur sínar. Það var ætíð sterkur strengur á milli fjölskyldnanna.
Við Steina áttum margar skemmtilegar samverustundirnar í gegnum áratugina, sérstaklega þegar við bjuggum báðar í Þingholtunum og Heiða Rós, dóttir Steinu, og Íris eldri dóttir mín voru mikið saman. Við Steina eignuðumst mikið af sameiginlegum vinkonum og alltaf var hlegið dátt. Við áttum líka sérlega skemmtilega daga, þegar hún heimsótti okkur hjónin til Spánar 2007 og síðan til Óslóar 2009 þegar við bjuggum þar.
Við Steina vorum svo lánsamar báðar að kynnast lífsförunautum okkar sama árið, þ.e. 1992. Það var mikil gæfa okkar beggja.
Elsku Ómar, Heiða Rós, Vera, Flóki og aðrir ástvinir, guð gefi ykkur styrk á þessum erfiða tíma.
Minning góðrar frænku og vinkonu mun aldrei gleymast. Ég kveð þig elsku Steina mín, með þessu kvæði eftir Guðrúnu V. Gísladóttur:
Ég vil gjarnan lítið ljóð
láta af hendi rakna.
Eftir kynni afargóð
ég alltaf mun þín sakna.
Þín
Sigrún Jóna.
Í dag kveðjum við með söknuði elsku Steinu móðursystur okkar sem var fjölskyldunni svo kær. Eftir sitja góðar minningar af ótal skemmtilegum stundum og skrýtið er að hugsa til þess að þær verði ekki fleiri. Alltaf fundum við fyrir mikilli gleði og hlýju frá Steinu frænku, sem annt var um allt í kringum sig, bæði menn og dýr.
Hún átti einstaklega falleg tengsl við gæludýrin sín, svo sem hundana Lubba og Gretti og köttinn Púka. Hún var hluti af lífi okkar frá því við vorum smábörn til fullorðinsára og okkur er í fersku minni hversu mikill Rolling Stones-aðdáandi hún var. Steina hafði reglulega samband til að heyra í okkur og frétta af hversdagslífinu og skipti þá ekki máli hvort við vorum á landinu eða erlendis. Alltaf voru síðan fagnaðarfundir þegar við hittumst.
Söknuðurinn er mikill að yndislegri frænku og við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til elsku Ómars, Heiðu Rósar, Þóris, Veru og Flóka.
Ástarkveðjur,
Urður Anna,
Björn Loki og Ýmir.
Minningarnar hellast yfir og þó það sé óendanlega sárt að eiga ekki lengur von á símhringingu eða innliti frá Steinu þá er hvorki erfitt né leiðinlegt að rifja upp allt það sem við brölluðum saman á yfir 40 ára vinskapatíð okkar.
Steina var ein mín tryggasta vinkona og fljótlega komu í ljós dýrmætir eiginleikar hennar, trygglyndi og hjálpsemi, sem ég naut í ríkum mæli þegar á reyndi. Við vorum nágrannar í Þingholtsstrætinu og á sumrin dvöldum við í sumarbústöðum hvor sínum megin við Laugarvatn, hún Apavatnsmegin, svo það var mikill samgangur og þegar flutningar lengdu bilið milli okkar skipti það engu máli því þá var orðinn þessi órjúfanlegi strengur sem við töluðum oft um að tengdi okkur.
Nokkurra ára aldursmunur getur verið áberandi þegar fólk er ungt en hjá okkur skipti hann engu máli því Steina var alltaf svo ungleg og hress svo það var ekki nema þegar við töluðum um hljómsveitir og tónlist unglingsáranna að við vorum ekki á jafningjagrundvelli. Sem dæmi átti Steina sögu um að hafa hitt hljómsveitina Kinks þegar hún kom til landsins en þá var ég enn að leika með dúkkulísur sem er auðvitað glatað fyrir mig því uppáhaldslagið mitt er með Kinks. Hún náði líka hátindi hippatímabilsins og tísku þess tíma sem mér fannst örla á alla tíð síðan þegar kom að fatavali og hún oft skemmtilega klædd. Steina átti til að vera fljótfær og það gat endað með ósköpum og ég er enginn eftirbátur þegar kemur að hrakförum en oft bjargaði húmorinn svo eftir á gátum við skemmt okkur með því að sjá það skondna í stöðunni. Eins og þegar ég færði henni prjónaða fingurdúkku sem leit út eins og hestshaus sem ég keypti erlendis, allsendis óafvitandi um að hún var þá fingurbrotin eftir eina hestaferðina.
Áhugamál Steinu sem ég botnaði ekkert í var bíladellan, hún var frábær ökumaður og þekkti bílnúmer allra, óskiljanlegt fyrir þann sem man ekki einu sinni bílnúmerið sitt. En aðallega var hún hestakona og mikill dýravinur, átti hesta, hunda og ketti sem henni þótti afskaplega mikið vænt um.
Steina var vinamörg og ræktaði vinskapinn öðrum fremur. Hún bar umhyggju fyrir foreldrum sínum og var í miklum samskiptum við þau meðan þau lifðu en mikilvægust í lífi hennar voru auðvitað Heiða Rós og Ómar. Öfugt við marga átti Steina auðvelt með að sýna væntumþykju og það duldist engum hvað henni þótti mikið vænt um fólkið sitt, þær mæðgur voru svo óaðskiljanlegar að það hvarflaði að manni að það yrði kannski erfitt fyrir Steinu þegar dóttirin flytti að heiman. En svo gekk þetta allt eins og í sögu, gæfa mæðgnanna, og auðvitað Ómars, var þegar hann kom inn í líf þeirra. Fjölskyldan stækkaði þegar tengdasonurinn bættist við og síðar tvö myndarleg barnabörn.
Nú eru kaflaskipti og ekkert okkar tilbúið fyrir svo snögga brottför, elsku Steinu. Það er leitt að vita að skemmtilegu samverustundirnar okkar verði ekki fleiri en mikið þakka ég vinskap okkar öll þessi ár. Innileg samúð elsku Ómar, Heiða Rós og fjölskylda.
Hólmfríður Ben
Benediktsdóttir.
Það er svo óraunverulegt að vera að skrifa minningarorð um yndislegu æskuvinkonu mína, hana Steinu. Andlátið kom svo óvænt og ég er varla búin að átta mig á að þetta sé raunveruleikinn. Við urðum vinkonur þegar við vorum bekkjarsystur í Hlíðaskóla. Svo margar og dásamlegar minningar í 60 ár.
Steina var afar kvikk, hröð, lifandi og skemmtileg. Hún gekk svo hratt að mér fannst ég alltaf þurfa að hálfhlaupa til að halda í við hana. Alltaf flott klædd og mikill töffari en hún var líka einstaklega einlæg, trygg, óeigingjörn og falleg vinkona og ég var svo rík að eiga hana fyrir vinkonu. Enda varð ég smá afbrýðisöm þegar hún byrjaði með honum Heiðari. Þau voru saman í fjöldamörg ár en hún hafði samt alltaf tíma fyrir mig og aðrar vinkonur sínar því Steina var alltaf gríðarlega vinmörg og gleymdi svo sannarlega ekki vinum sínum þótt hún ætti kærasta.
Heiðar og Steina eignuðust saman yndislega dóttur, Heiðu Rós sem er einkabarn þeirra beggja. Heiða Rós hefur gefið mömmu sinni mikla hamingju og gleði og ekki minnst þegar tvö yndisleg barnabörn bættust í hópinn.
Seinna hitti Steina hann Ómar sinn sem hefur verið lífsförunautur hennar og eiginmaður í tugi ára og Heiða Rós og barnabörnin urðu hans fjölskylda. Hjónaband þeirra hefur verið fallegt og traust enda Ómar dásamleg mannvera. Eftir að Steina greindist með parkinsons stóð hann sem klettur við hlið hennar eins og öll árin áður. Svo samtaka og falleg saman.
En Steina var ekki kona sem leyfði þessum sjúkdómi að hindra sig í því sem hún ætlaði að taka sér fyrir hendur. Hún reið út í mörg ár eftir að hún greindist. Kæmist hún í hnakkinn, þá var allt í lagi. Hún ferðaðist innan lands og utan með Ómari og fjölskyldunni, fór í sólarlandaferðir, tónleikaferðir og heimsóknir til vina og ættingja sem bjuggu erlendis og fékk ég líka að njóta þess að fá hana í heimsókn. Fyrir fáeinum árum kom hún í heimsókn til mín til Stokkhólms, á öðrum degi datt hún hrikalega illa heima hjá mér og viðbeinsbrotnaði og mölbraut aðra stórutána. Hún ætlaði ekki að láta þetta stoppa sig í því að njóta daganna hjá mér. Bað mig að kaupa sandala fyrir sig (október) því ekki komst hún í neina skó með brotna stórutá. Síðan var farið í lestina og Stokkhólmur þræddur fram og til baka alla dagana. Þetta var hún Steina vinkona mín í hnotskurn!
Mér þykir svo vænt um símtal sem við áttum um miðjan nóvember. Þá voru hún og Ómar stödd í sumarbústað hjá Heiðu vinkonu þeirra og hafði komið til tals kvöldið áður að það gæti verið gaman að hún og Heiða myndu skreppa til mín í nokkra daga. Ég sagði þær innilega velkomnar. Ekkert varð úr heimsókninni en samtalið okkar Steinu varði í klukkustund og það er svo dýrmætt núna fyrir mig. Stefnan var sett á hitting í desember á Íslandi.
Ég stikla á stóru því þetta yrði þykk bók ef ég myndi skrifa um allt sem kemur upp í hugann. Ég er þakklát og auðmjúk fyrir að hafa átt vináttu Steinu í 60 ár. Hugur minn er hjá elsku Ómari, Heiðu Rós og fjölskyldu og systkinum Steinu í þeirra djúpu sorg.
Ágústa.