Þorbjörg Bjarnar Friðriksdóttir (Bebba) fæddist í Vigur 5. nóvember 1929. Hún lést 1. desember 2024.
Foreldrar hennar voru Sigurlaug Björnsdóttir, f. 1896, d. 1989, og Friðrik Hansen, f. 1891, d. 1952.
Systkini Þorbjargar samfeðra eru: Emma, f. 1918, d. 2010; Ástríður Björg, f. 1920, d. 1993; Kristján, f. 1921, d. 2009; Ragnar, f. 1923, d. 2011; Erlendur, f. 1924, d. 2012; Jóhannes, f. 1925, d. 2023; Björg, f. 1928, d. 2017; Guðmundur, f. 1930, d. 2012; Sigurður, f. 1939; Jósefína, f. 1942, d. 2024; Eiríkur, f. 1945; Friðrik, f. 1947, d. 2004.
Sigurlaug bjó með systur sinni Björgu í Vigur um tíma þar til hún flutti með dóttur sína til systur sinnar Guðrúnar að Knarrarbergi í Eyjafirði. Sigurlaug rak í nokkur ár heimavist á Akureyri. Þær mæðgur fluttu síðan suður að Laugarvatni um 1936 þar sem Sigurlaug vann sem matráðskona og húsmæðrakennari við Héraðsskólann á Laugarvatni. Þær flytja síðar til Reykjavíkur þar sem Þorbjörg bjó flest sín æviár. Hún lauk stúdentsprófi 1949 frá Menntaskólanum í Reykjavík af máladeild.
Árið 1951 giftist Þorbjörg Bárði Daníelssyni, verkfræðingi og arkitekt, en þau skildu árið 1963. Þorbjörg lauk BA-námi í uppeldisfræði frá Háskóla Íslands 1967 og MA-námi í ensku við Háskólann í Toronto 1970. Þar að auki lagði hún stund á enskunám og þýskunám í Englandi og Þýskalandi.
Mesta sína starfsævi kenndi Þorbjörg við Verslunarskóla Íslands ensku og þýsku. Hún kenndi einnig við Kennaraháskóla Íslands, Framhaldsskólann á Húsavík og Bifröst. Þorbjörg var ötull þýðandi heimsbókmennta eftir að hún hætti kennslu og þýddi höfunda á borð við Thomas Mann, Heinrich Böll og Edgar Allan Poe.
Þorbjörg átti stóran frændgarð, hún átti góð samskipti við fjölskyldu móður sinnar frá Veðramóti. Sigurlaug móðir hennar var mjög náin systur sinni Guðrúnu, og dvöldu þær mæðgur mikið með fjölskyldunni á Háteigsvegi 14. Þorbjörg og Björn Sveinbjörnsson, sonur Guðrúnar, voru mjög samrýnd og miklir vinir.
Tungumál, kennsla og þýðingar heimsbókmennta voru hennar líf og sál en hún var einnig víðförul, jafnvel áður en ferðalög voru algeng hér á landi. Hún las mikið og hafði yndi af bókum og heimsmálum. Þorbjörg átti í góðu samstafi við Þorstein Thorarensen hjá bókaútgáfunni Fjölva. Þorsteinn var giftur náfrænku hennar, Sigurlaugu Bjarnadóttur frá Vigur, og þau Vigursystkin voru náin henni alla tíð.
Þorbjörg bjó lengst af á Grettisgötu 94, en átti gott atlæti síðustu þrjú ár í þjónustuíbúð á Dalbraut 27.
Útför hennar verður gerð frá Háteigskirkju í dag, 16. desember 2024, klukkan 13.
Nú hefur elsku Bebba frænka kvatt þetta jarðlíf og ég minnist hennar með hlýju og væntumþykju. Bebba var uppvaxtarsystir Björns afa míns sem ég því miður náði ekki að kynnast en hann dó fyrir aldur fram 1985. Bebba var því alltaf ein af eldri kynslóðinni í fjölskylduboðum, þessi hnarreista og virðulega frænka sem spurði hvort það væri ekki gaman í skólanum á meðan við hentumst fram og til baka í leik og við að fylla munna af góðgæti.
Mér þótti svo dýrmætt að
fá að kynnast henni þegar ég var sjálf orðin fullorðin í mörgum
af okkar heimsóknum á Grettisgötuna þar sem Bebba bauð iðulega bæði upp á heitt súkkulaði og kaffi. Bebba sagði okkur frá ferðalögum sínum til fjarlægra landa en hún hafði heimsótt marga menningarheima og notið vel.
Hún sagði okkur frá þegar
hún bjó í Evrópu og Kanada og frá bókunum sem hún
hafði unun af. Bebba hvatti mig alltaf áfram í námi og fannst mikið til þess koma hve langskólagengin ég væri. Ég held hún hafi samt ekki alltaf skilið mikið í því hvar áhugi minn lægi í fræðunum, þar kom eflaust ákveðið kynslóðabil fram. En hún hlustaði alltaf af athygli á það sem ég hafði að segja og hafði í frammi ákveðna háttvísi í samræðum sem mér þótti eftirtektarverð. Bebba var heimsborgari af lífi og sál, tamdi sér fágaðan stíl og bar sig iðulega af reisn.
Ein minning af Bebbu stendur mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Það var eitt sinn er ég fór í bókabúðina Eymundsson ofarlega á Laugaveginum þar sem er ágætis kaffihús. Þar sem ég byrja að gæða mér á kaffinu sé ég ljóshærða, hávaxna eldri konu sitja við borðið umkringda dagblöðum. Var þá Bebba á miðbæjarröltinu, komin til að kíkja á blöð á borð við Der Spiegel utan úr heimi. Það var einstaklega gaman að hitta hana þarna og eiga spjall um heimsmálin.
Hjá Bebbu fræddist ég um Veðramótsættina, rýndi í gamlar myndir og sá hvernig sömu svipirnir speglast í andlitum frændsystkina minna og barnahjarðar okkar. Andi Bebbu og allrar þessarar ættar mun halda áfram að svífa yfir vötnum hvort sem við heimsækjum Vigur, Veðramót eða Eymundsson á Laugaveginum.
Nú sígur að sólarlagið
og síðdegisskuggar lengjast.
Í kvöldblænum hlýjum, hljóðum
hugsanir okkar tengjast.
(Ólína Jónasdóttir)
Nanna Hlín.
Látin er í Reykjavík Þorbjörg Bjarnar Friðriksdóttir, 95 ára, dóttir Sigurlaugar Björnsdóttur, afasystur minnar frá Veðramóti, og Friðriks Hansen á Sauðárkróki.
Hún var kölluð Bebba og voru þær samrýndar frænkur, Hildur Þorbjarnardóttir, móðir mín heitin, og hún.
Fyrr á þessu ári dó hálfsystir Bebbu, Jósefína Friðriksdóttir Hansen, sem var töluvert yngri en Bebba, en hún var um skeið elskuleg samferðakona mín. Báðar voru þessar konur merkilegar um margt, hvor á sinn hátt.
Bebba bar sig alltaf vel, var skörugleg og glæsileg kona, sem tekið var eftir. Hún var félagslynd, fjölfróð og frændrækin, þekkti vel bókmenntir, fornar sem nýjar. Bebba var lengi kennari við Verzlunarskólann og þýðandi, færði m.a. Buddenbrooks eftir Thomas Mann yfir á kjarngott íslenskt mál.
Við þrjár, mamma, Bebba og ég, áttum ævintýralega sumardaga 1997 á Suðurlandi, gistum í Svínafelli og heimsóttum merkisstaði eins og Bölta, Selið, Hof, bræðurna á Kvískerjum, Fagurhólsmýri og að sjálfsögðu Jökulsárlón. Fyrir skömmu fór ég með myndaalbúmið á Dalbraut til Bebbu og rifjuðum við upp ferðina góðu. Meðal þeirra var mynd af Þorsteini Jóhannssyni, fv. bónda í Svínafelli, með skemmtilega mynd af gamla bænum. Hann hafði brugðið sér inn í bæ til þess að sækja forláta mynd af gamla torfbænum, þeim sama og er mynd af í Íslenzkum fornritum XII um Brennu-Njáls sögu.
Lengi vel hafa frændsystkini Bebbu, börn Björns, sonur Sveinbjarnar og Guðrúnar, systur Sigurlaugar, verið henni náin og innan handar. Sérstaklega hefur Sveinbjörn verið henni góður og eiginlega gengið henni í sonar stað.
Nú er aðeins, að ég held, Þorbjörg Guðmundsdóttir á lífi af þessum stóra barnahópi þeirra Veðramótssystkina.
Blessuð sé minning Bebbu og þeirra allra.
Anna Agnarsdóttir.
Fallin er frá Þorbjörg Bjarnar Friðriksdóttir 95 ára að aldri. Fyrsta minning mín um Þorbjörgu, eða Bebbu frænku eins og hún er alltaf kölluð af fjölskyldunni, er frá aðfangadegi 1955 þegar hún og Bárður eiginmaður hennar ásamt Sigurlaugu móður sinni birtust í stigaganginum á Háteigsvegi 14 með stórt piparkökuhús skreytt sælgæti sem þau færðu okkur systkinunum. Þetta varð að árlegum viðburði og vakti alltaf mikla gleði enda var húsið listilega gert.
Sigurlaug ömmusystir mín var ein fjögurra systra frá Veðramóti í Skagafirði en þær systur voru alla tíð einstaklega nánar. Bebba var eina barn Sigurlaugar og pabbi, Björn Sveinbjörnsson, eina barn foreldra sinna sem hefur sennilega orðið til þess að þau urðu nánari frændsystkini en ella.
Margs er að minnast, veislurnar á Grettisgötunni koma upp í hugann þegar Bebba hóaði árlega í alla fjölskylduna og bauð upp á hnausþykkt heitt súkkulaði með rjóma, randalínur og kleinur.
Bebba var kennari að mennt og starfaði lengst við kennslu við Verzlunarskóla Íslands og þýðingar úr ensku og þýsku. Hún var frásagnarglöð og hafði frá mörgu að segja. Það var dásamlega spennandi að heyra frá ferð sem hún fór með Síberíuhraðlestinni sem var í okkar augum ekkert minna en eins og í ævintýrabók.
Frænka mín var litríkur karakter og sennilega ekki allra. Hún fylgdist vel með erlendum fjölmiðlum, las m.a. Der Spiegel og Newsweek og las mikið og hlustaði á heimsfréttir erlendra sjónvarpsstöðva – og dáðist meðal annars að Trump og Pútín!
Bebbu þótti mjög mikilvægt að eiga góðar bifreiðar. Bíllinn með númeraplötunni R 8511, Rav, árgerð 2005, var í einstöku dálæti hjá Bebbu og jafnvel eftir að hún átti að hafa hætt að keyra (eftir nokkur minni háttar óhöpp) varð bíllinn helst að standa fyrir utan dvalarstað hennar, hvort sem var á Dalbraut eða í Hveragerði. Hún sá einnig til þess að Sveinbjörn bróðir hreyfði bílinn reglulega og þá fór hún með í stutta og langa bíltúra.
Áhugi frænku minnar á fötum var mikill og hún var alltaf smekklega klædd. Eftir að heilsan fór að gefa sig var ekki eins auðvelt og áður að fara í fatabúðir, að lokum var aðeins um eina verslunarmiðstöð að ræða, Glæsibæ. Húsið Glæsibæ hafði Bárður fyrrverandi eiginmaður hennar hannað. Í hvert sinn sem við fórum þangað saman hafði hún eitthvað um húsið og hönnun þess að segja, t.d. hvers vegna hann Bárður hafi þurft að hafa svona lágt til lofts?
Hún var alveg einstaklega þrjósk á tímum og átti erfitt með að þiggja aðstoð sem henni bauðst, en hún gat líka verið skemmtileg, glettin og snögg til svars. Hún tók alltaf vel á móti börnum og barnabörnunum mínum þegar þau komu með mér til hennar og sýndi þeim einlægan áhuga. Síðustu árin dvaldi hún í góðri umönnun á Dalbraut, þó hún væri alltaf á leiðinni aftur heim á Grettisgötu.
Nú þegar Bebba frænka hefur yfirgefið okkur hugsa ég til hennar með hlýju og þakklæti.
Ólöf Guðríður Björnsdóttir.
Hún Bebba frænka mín er sofnaði svefninum langa aðfaranótt sunnudagsins 1. des. sl. var reyndar skírð Þorbjörg Bjarnar en gekk alltaf undir nafninu Bebba innan ættarinnar. Móðir hennar Sigurlaug Björnsdóttir kallaði hana alltaf Bebbu. Það kom af því að þegar Sigurlaug vann hjá Gyldendal í Kaupmannahöfn kom þar oft í heimsókn á skrifstofuna þekktur landkönnuður með dóttur sína er hann kallaði Bebbu! Sigurlaugu fannst þetta fallegt nafn og kallaði síðan Þorbjörgu sína Bebbu en þá voru komnar margar Þorbjargir í afkomendahóp þeirra hjóna á Veðramóti, Þorbjargar Stefánsdóttur og Björns Jónssonar. Þær voru kallaðar Hobbur (ekki Tobbur), Hobba Jóns, Hobba í Vigur, Hobba Þorbjarnar, Hobba Guðmundar en hún er sú eina eftirlifandi af barnabörnum þeirra Veðramótshjóna.
Sigurlaug vildi tengja nafn dóttur sinnar við báða foreldra og skírði hana Þorbjörgu Bjarnar en millinafnið vísar til Björns föður hennar.
Faðir Þorbjargar var Friðrik Hansen. Þorbjörg spurði móður sína hver faðir hennar væri þegar hún var barn að aldri og hafði áttað sig á að föðurinn vantaði. Svar Sigurlaugar var að þetta væri allt gott fólk en þær mæðgur varðaði ekkert um það. Held að það hafi hvílt á huga Þorbjargar alla ævi. Hún tengdist yngstu systkinum sínum seinna á lífsleiðinni.
Þær systur frá Veðramóti voru fjórar, Guðrún, Heiðbjört, Björg í Vigur og yngst Sigurlaug. Guðrún Þorbjargardóttir Björnsdóttir og Sigurlaug voru mjög nánar en móðir þeirra féll frá þegar Sigurlaug var sjö ára en Guðrún þá 16 ára.
Í lok árs 1925 eignast Guðrún son, Björn, með Sveinbirni Jónssyni en þau bjuggu á Knarrarbergi í Eyjafirði. Svo kom árið 1929 en þá fæðir Sigurlaug dóttur sína Þorbjörgu Bjarnar hjá systur sinni í Vigur. Fljótlega fer Sigurlaug að Knarrarbergi. Þær systurnar Sigurlaug og Guðrún ala þarna börnin upp fyrstu árin á Knarrarbergi. Þorbjörg og Björn faðir minn voru alla tíð sem uppeldissystkini.
Þorbjörg hafði gott skopskyn og frásagnarhæfileika. Það gerði að alltaf var gefandi að ræða við hana. Hafði áhuga á sögu, landafræði, bókmenntum og tungumálum. Eftir að hún hætti í föstu starfi fór hún að þýða bækur. Búddenbrooks eftir Thomas Mann var e.t.v. hennar stærsta verkefni. Fjölva útgáfa gaf verkið út en Þorsteinn Thorarensen var með útgáfuna. Hún þýddi líka ævisögu Einsteins, fyrir Fjölva, en Þorsteinn átti það til að setja fingurna í þýðingar, en verst var þegar hann vildi lagfæra afstæðiskenningu Einsteins, var útgáfa Þorbjargar.
Hún vildi alltaf taka afstöðu á móti ríkjandi skoðunum. Held reyndar að það hafi oftar en ekki verið til að fá rökræður um málefni.
Þegar Þorbjörg var að verða níræð komst hún til hjartalæknis, Gísla Jónssonar, en hann sendi hana í hjartalokuþræðingu á Landspítalanum. Gaf það henni aukin lífsgæði en smátt og smátt fór heilsunni að hraka en hún var alveg skýr fram á síðasta dag. Komst síðan að í þjónustuíbúð á Dalbraut 27, en þar var hún kölluð drottningin. Starfsfólkið þar á þakkir skilið fyrir umönnun hennar.
Kveð Bebbu með söknuð og þakklæti í huga.
Sveinbjörn Egill
Björnsson.
Með fáum orðum kveð ég hér elsku Bebbu og þakka frænku samfylgdina. Átti með henni minnisstæðar og dásamlegar stundir. Alla mína ævi var hún náin frænka, mest urðu nánustu samskipti okkar og kær kynni þegar ég var orðin fullorðin.
Hún var mikill persónuleiki og stórglæsileg falleg kona. Sérstaklega gáfuð og skemmtileg, líka þegar gustaði af henni ef það var eitthvað sem henni líkaði ekki. Drottingin eins og þau sum á Dalbraut kölluðu hana. Sannkölluð hefðardama alla tíð og aðdáunarverð.
Ég mun sakna samræðnanna okkar saman. Fjölskyldufréttir og hennar hjartanlegast var móðurættin hennar, og minnar – Veðramótsættin. Hún var náma af fróðleik og ekki leiðinlegt að geta flett upp í henni um svo margt skemmtilegt og áhugavert.
Bækur voru allt í kringum hana. Heilu bókastaflarnir. Heimsbókmenntir, krimmar – allt bókaritrófið. Sumar bækurnar þýddi hún sjálf. Hún hafði meistaragráðu í bókmenntafræðum frá Kanada.
Hún fylgdist grannt með heimsmálunum, oftar en ekki á erlendum fréttaveitum og tímaritum. Jafnt á þýsku og ensku.
Notalegast fannst henni þó að ræða minningarnar um gömlu góðu gæludýrin. Kisurnar hennar margar og þær að sjálfsögðu voru sérstaklega vitrar. Hún var alla tíð mikill dýravinur.
Sagnfræðin var okkar beggja áhugamál. Við fórum um víðan geim í samræðum, ferðuðumst í tíma og rúmi í sögunni, oftar en ekki á landnámstíma Íslandssögunnar, Grænlands og Vínlands.
Plönuðum oft ferðalög í raunheimum, heimskautanna á milli. Bebba var heimskona og líka víðförul. Hafði ferðast hér áður fyrr til fjarlægra landa, sem sum eru enn í dag ekki algengir ferðamannastaðir. Ævintýraleg ferðalög og sögurnar skreyttar með skemmtilegum lýsingum sem hún kunni að færa í stílinn.
Svo kom að því að tíminn leið og árin færðust yfir. Andlega hress byrjaði líkamlegri heilsu Bebbu að hraka. Það fór illa í hana, átti ekki við hana að missa þróttinn. Tóku nú við tíðar læknisferðir og erfiðar meðferðir. Allt reynt til að reyna halda sér gangandi.
Í nóvember sl., nýorðin 95 ára, var komið nóg. Ferð tilveru hennar lauk. Hún lifði lífinu vel.
Þú gengin ert hugglöð á frelsarans
fund
og fagnar með útvalda skara,
þar gleðin er eilíf, þar grær sérhver
und.
Hve gott og sælt við hinn hinsta
blund,
í útbreiddan faðm Guðs að fara.
(Hugrún)
Minning þín lifir.
Helga Lilja.
Elsku Bebba frænka er dáin. Hún var ekki eilíf eftir allt saman.
Skjáskot úr æsku skjóta upp kollinum. Grá plastleðurtaska sem hún geymdi bókasafnsbækurnar sínar í. Rebbi sem hún vafði um hálsinn en hékk þess á milli í fatahenginu starandi á mann. Stytta af tígrisdýrum að drepa fíl. Kók í gleri ofan á glerborði og paprikuskrúfur í skál. Brauð skorið í hring sem rúmaði nákvæmlega eina sneið af eggi með kavíar doppu ofan á. Heitt súkkulaði með rjóma. Campbells-sveppasúpa með rjóma. Allt var betra með rjóma. Ein eftirminnilegasta jólagjöfin var frá Bebbu frænku, kassetta með Rokklingunum.
Bebba hafði áhuga á fólki. Ungum sem öldnum. Spurði spurninga og sagði sögur. Hún ljáði dýrum rödd og persónuleika. Hún hafði mikið dálæti á Grími mínum. Bardagahundi sem var tegund sinni til skammar fyrir einstakt jafnaðargeð.
Þegar ég keyrði Bebbu á Akranes í mjaðmakúluaðgerð var hún hin rólegasta því hún treysti lækninum vel. Hann hafði svo fallega rithönd og því hlaut hann að vera góður með hnífinn. Það skemmdi ekki fyrir að hann var einstaklega fallegur.
Enginn var þó jafn fallegur og hann pabbi sem hún sá ekki sólina fyrir. Henni fannst ótækt að hann ætti fjórar dætur og engin þeirra bauðst til að þrífa hjá honum og elda fyrir hann þegar hann og mamma skildu. En okkur var fyrirgefið.
Ég vona að þú haldir áfram dansinum við finnska forsetann, nú í konungshöll prýdda gulli. Hvíldu í friði elsku Bebba frænka.
Júlía Guðrún
Sveinbjörnsdóttir.
Þorbjörgu hitti ég í síðasta skipti fáeinum dögum áður en ég hélt í ferðalag til Kosta Ríka. Þegar hún heyrði að ég mundi koma við í Toronto á báðum leiðum lyftist hún öll og fannst mikið til koma því þar hafði hún verið við háskólanám sem ung kona. Hún sagði mér að Toronto væri mikil heimsborg og að nafnið á borginni kæmi úr indíánamáli. Hún sagði mér líka að hún hefði séð námsmönnum af indíánakyni mismunað við háskólann sem henni þótti ljótt. Ég lofaði að koma fljótt aftur að segja henni frá ferðinni, þó hún væri ekki sérlega spennt fyrir Kosta Ríka sem slíkri. En þá gerist það að ég frétti andlát hennar einmitt í þessari sömu borg, Toronto, þegar ég var á heimleið. Þorbjörg var hámenntuð kona í tungumálum. Menntun hennar var meiri en langflestra kvenna af hennar kynslóð. Hún kenndi við Verslunarskólann og eftir hana liggja þýðingar á heimsbókmenntum yfir á íslensku sem hafa verið gefnar út. Þorbjörg hafði alla tíð mikinn áhuga á ferðalögum, sérstaklega þó um slóðir sem geymdu mikla menningarsögu. Hún las alla tíð mikið og átti mikið bókasafn og voru bækurnar á ýmsum tungumálum. Þorbjörg kunni þá miklu list, samræðuna. Hlusta, íhuga og svara af einlægni. Hún eignaðist víða vini enda stórskemmtileg. Hún hafði áhuga á fólki almennt án þess þó að vera hnýsin, hins vegar opin fyrir skoðunum þess og fordómalaus. Hún kynntist alls konar fólki, t.d. í hádeginu á Vitatorgi á meðan hún fór þangað í mat eða þegar hún dvaldi á heilsuhælinu í Hveragerði. Hún var andlega lifandi, minnug og fróð. Spurði mig einatt út í hvað ég hefði verið að lesa undanfarið þegar við sátum og spjölluðum. Hún var lánsöm, hélt andlegri reisn alla tíð og sá og heyrði ágætlega. Þorbjörgu þakka ég fyrir rúmlega tuttugu ára góð og gefandi kynni. Hún var barnlaus en átti góða að og votta ég frændfólki hennar og vinum mína innilegustu samúð.
Guðný Bjarnadóttir.