Bílastæðagjöld Innheimtuseðlar eru ekki lengur sendir heim til fólks.
Bílastæðagjöld Innheimtuseðlar eru ekki lengur sendir heim til fólks. — Morgunblaðið/Eggert
Sem íbúi í Þingholtunum hef ég fengið sendan heim ársreikning til þess að mega leggja bílnum nálægt heimili mínu. En nú bregður svo við að enginn nýr ársreikningur berst, engin aðvörun. Borgin hefur þá tekið upp á því að senda alla sektarmiðana til…

Sem íbúi í Þingholtunum hef ég fengið sendan heim ársreikning til þess að mega leggja bílnum nálægt heimili mínu. En nú bregður svo við að enginn nýr ársreikningur berst, engin aðvörun. Borgin hefur þá tekið upp á því að senda alla sektarmiðana til fólks sem kallar sig Inkasso! Þetta lið gerir svo ekkert annað en hækka þá upp úr öllu valdi!

Hvenær voru þau lög afnumin að fyrirtæki á Íslandi skyldu heita íslenskum nöfnum? Þegar reikningur barst frá Inkasso var hann strax greiddur í banka. Kemur þá í ljós að margir aðrir reikningar eru mallandi í kerfinu. Tekur þá við um hálfs mánaðar píslarganga milli Pontíusar og Heródesar. Borg og Inkasso vísa hvort á annað, erfitt að ná símasambandi við borg og ferðir í Inkasso skila heldur engu. Þessi fyrirtæki vísa bara hvort á annað.

Hafa þessi fyrirtæki rétt á að krefjast þess að eldri borgarar á níræðisaldri séu allir appa-væddir? Það er ljótur leikur að hengja svona Damóklesarsverð yfir höfuð eldri borgara.

Það verður undirrituðum loks til bjargar að vera í félagsskap með lögmanni Alþýðusambandsins sem tekst að höggva á þennan hnút. Sjálfur hafði hann þurft að takast á við þetta kerfi og verða fyrir miklum fjárútlátum.

Guð hjálpi fólki sem stendur illa fjárhagslega að lenda í þessu kerfi. Stenst þessi starfsemi lög?

Reykjavíkurborg og undirstofnanir: vinsamlegast sendið mér þá reikninga sem mér ber að greiða en fóðrið ekki Inkasso eins og púkann í fjósi Sæmundar á minn kostnað.

Ásgeir Sigurðsson, eldri borgari.