Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Starfsfólk á kránni The Dubliner í miðborg Reykjavíkur slær ekki slöku við en það vakti athygli Morgunblaðsins þegar inn á ritstjórnina spurðist að þar væri opið alla daga ársins. Hvern og einn einasta.
Nú kann að vera að einhverjir hrökkvi við, því að í eina tíð voru sumir dagar í dagatalinu svo hátíðlegir að veitingamenn gátu ekki ráðið því sjálfir hvort þeir höfðu opið eða ekki. Tímarnir breytast og mennirnir með og nú á dögum má til dæmis draga andann á föstudaginn langa. Eigandi Dubliner, sem aldrei segist vera kallaður annað en Alli, lítur svo á að þarna sé um sjálfsagða þjónustu að ræða við trygga viðskiptavini. Mikill fjöldi ferðamanna á síðustu árum geti svo gert það að verkum að ekki fylgi því tap að vera með fólk á launum alla daga ársins, þar með talið á rauðum dögum.
„Fyrir tæpum áratug birtust myndir af því í fjölmiðlum þegar fjöldi erlendra ferðamanna var á göngu um borgina í kringum jól og áramót og kom alls staðar að læstum dyrum. Hvort sem það voru veitingastaðir, matvöruverslanir eða annað. Þá prófuðum við að hafa opið og þá var troðið en nú eru fleiri sem gera þetta. Írar sem staddir eru á Íslandi halda til dæmis upp á jólin að einhverju leyti hjá okkur,“ segir Alli og Sigurður Sighvatsson vaktstjóri bendir á að hátíðarhöldin séu gjarnan mun óformlegri hjá Írum og Bretum en Íslendingum. Þeir séu vanir því að fara á pöbbinn eftir jólamatinn.
Margir einmana um jólin
Sigurður hefur sjálfur staðið vaktina á aðfangadagskvöld síðastliðin tvö ár en Dubliner er með opið frá 11 til 1 eftir miðnætti bæði 24. og 25. desember. Hann leggur áherslu á að ekki sé um mikið djamm að ræða þessi kvöld heldur sé andrúmsloftið vinalegt, enda þekkjast tryggustu viðskiptavinirnir vel.
„Fólk kíkir við og fær sér öl en enginn er ofurölvi. Þetta er ekki það jólalegasta í heimi en stemningin er heilbrigð og góð. Alla jafna erum við ekki með mat en bjóðum upp á Irish stew á aðfangadag sem er þeirra útgáfa af kjötsúpu. Yfir jólahátíðina er talsvert af erlendum ferðamönnum þótt þeir séu væntanlega enn fleiri yfir áramótin. Margir sem koma vilja helst sjá hvít jól og norðurljósin geta spilað inn í. Á veturna koma fleiri erlendir ferðamenn til okkar en á sumrin og meira er um pör og eldra fólk. Þeir sem eru hér um jólin eru þá í burtu frá sínu fólki og ekki með hefðbundið jólahald á ferðalagi í öðru landi. Þeir koma kannski til okkar til að slaka á og spjalla saman,“ segir Sigurður.
Alli leggur áherslu á að margir séu einmana á jólunum og vilji þá gjarnan vera innan um annað fólk, en líðan einstæðinga á jólunum hefur oft borið á góma í umræðunni í gegnum tíðina.
„Fullt af fólki býr eitt og kemur hingað um jólin. Fastakúnnarnir koma og hitta sína vini. Úr verður hálfgerð fjölskyldustemning. Við gefum fastakúnnunum jólapakka og þeir skiptast ef til vill á gjöfum. Auk þess hafa hlutirnir þróast þannig á Íslandi að fólk hittist í meiri mæli á pöbbunum frekar en að hittast í heimahúsi svona yfirleitt. Það má kannski segja að við sem rekum bari eigum að sinna samfélagsþjónustu með því að skapa umhverfi fyrir fólk sem á ekki fjölskyldu eða aðstandendur. Með því að vera með opið um jólin hefur þetta fólk einhvern stað til að sækja.“