Þorsteinn Þorsteinsson og Gunnlaugur Sigurðsson
Við undirritaðir höfum í áranna rás upplifað ýmislegt gott í íslenska skólakerfinu og reyndar margt annað sem betur mætti fara. Það var til dæmis til mikilla framfara þegar framhaldsskólar urðu sjálfstæðar stofnanir, hver með sína fjárveitingu á fjárlögum ríkisins. Einnig var það framfaraspor þegar framhaldsskólar voru gerðir að hverfisskólum en framkvæmdin fór úr böndum. Þá var það algjörlega misráðið að reyna að ákveða fjárveitingar til framhaldsskóla eftir fjölda lokinna námseininga. Segja má að styttingu framhaldsskólans hafi eingöngu verið komið á til að spara útgjöld. Þá var misráðið að leggja niður störf námsstjóra í ýmsum greinum í grunn- og framhaldsskólum.
Gott framtíðarskólakerfi
Það er algjör forsenda þess að koma menntamálum í gott lag að ráðamenn þjóðarinnar setji mennta- og skólamál efst á blað allra verkefnalista. Kennarastarfið verður að njóta sérstakrar virðingar, ekki aðeins í orði heldur einnig á borði. Kennarar allra skólastiga frá leikskóla til og með háskóla eiga að vera ríkisstarfsmenn með góð laun. Hver skóli á öllum skólastigum fái sérstaka fjárveitingu frá ríki til að greiða laun annarra starfsmanna.
Eins og nú er þá ráða mörg eða flest sveitarfélög ekki við að sinna rekstri leik- og grunnskóla svo vel sé. Allur annar rekstrarkostnaður á að vera á fjárlögum ríkisins og einnig sérstakar fjárveitingar til skóla til að greiða góðum starfsmönnum bónusa (stofnanasamningar) fyrir vel unnin störf. Skólastjórnendur og skólanefndir setji reglur um veitingu slíkra bónusa og hafi samstarf um ákvörðun allra bónusveitinga.
Byggingarkostnað leik- og grunnskóla eiga sveitarfélög að greiða, svo og viðhald fasteigna. Byggingarkostnaður framhaldsskóla á að skiptast í hlutföllunum 60% ríki og 40% sveitarfélag og viðhald í sömu hlutföllum. Byggingarkostnað háskóla á ríki að greiða og allt viðhald.
Námsmat
Komið verði á samræmdu og miðlægu námsmati í grunnskólum og í ákveðnum greinum á framhaldsskólastigi og árangur hvers skóla kynntur opinberlega. Það er ekki sæmandi að stjórnendur skólamála haldi slíkum upplýsingum leyndum fyrir skólunum og almenningi.
Skólastjórar beri ábyrgð á námi nemenda
Gerðir verði nýir kjarasamningar við skólastjóra og þar komi skýrt fram að þeir beri ábyrgð á námi og námsframvindu þeirra nemenda sinna sem ekki hafa náð 18 ára aldri. Árangur skóla á að vera sýnilegur. Starfsaðstæður kennara þurfa að vera boðlegar s.s. aðbúnaður, fjöldi nemenda í bekk og aðstæður þannig að hægt sé að koma á móts við ólíkar þarfir fjölbreytts hóps nemenda. Skólastjórar eiga að geta losað sig við kennara sem ekki ná settum markmiðum. Skólastjórar, sem ekki ná settum markmiðum, eiga ekki árum saman að stýra menntastofnunum landsins. Í nútímasamfélögum setja menn sér markmið. Í lok hvers skólaárs skoða menn hvar þeir eru staddir og hvort þeir hafi náð settum markmiðum.
Námsframboð og innritun
Leik-, grunn- og framhaldsskólar verði hverfisskólar, er taki inn alla skólaskylda nemendur og veiti nám í samræmi við aðalnámskrá eða námskrá hvers skóla. Framhaldsskólum verði gert kleift að bjóða upp á verklegt grunnnám og í vissum tilvikum í samstarfi við fyrirtæki í viðkomandi sveitarfélagi. Góð reynsla er af slíku samstarfi í nokkrum framhaldsskólum. Þá bjóði allir framhaldsskólar upp á almenna braut fyrir nemendur er ekki hafa náð nógu góðum árangri í grunnskóla og sérdeild fyrir nemendur sem þurfa mikinn og sérstakan stuðning í námi.
Skólabækur og önnur námsgögn
Öll námsgögn eiga nemendur/forráðamenn að greiða fyrir. Reynslan sýnir að börn fara yfirleitt vel með það sem þau þurfa sjálf að kaupa. Engum er hollt að fá allt ókeypis.
Ábyrgð foreldra
Eitt af meginhlutverkum foreldra varðandi skólastarf og eitt það allra mikilvægasta er að kenna börnum sínum að lesa. Þetta hlutverk á að vera samstarf foreldra og leik- og grunnskóla. Það gengur ekki að stór hluti nemenda sitji 10 ár í grunnskóla án þess að geta lesið sér til gagns. Foreldrar eiga að hefja starfið snemma og lesa fyrir börn sín strax í vöggu og fram eftir aldri.
Ríkisútvarpið og umræður um nám og menntun barna
Af og til eru á dagskrá útvarpsins afar fróðlegir og áhugaverðir þættir um skóla- og/eða menntamál en því miður er það allt of sjaldan. Nú nýlega var á dagskrá afar fróðlegur þáttur um læsi og kennslu í leik- og grunnskólum. Miklu máli skiptir að ríkisútvarpið taki sig á og ýti af stað föstum vikulegum útvarpsþáttum um nám og kennslu í leik- og grunnskólum á góðum hlustunartíma. Allir landsmenn eiga ættingja eða vini á barnsaldri. Því er vönduð og regluleg umræða um nám og menntun barna og unglinga afar mikils virði fyrir allt samfélagið.
Niðurlag
Tillögur okkar hafa í för með sér aukin útgjöld ríkisins en á móti er mikilvægt að spara þá á ýmsum sviðum, til dæmis mætti selja eða leggja niður ýmsar ríkisstofnanir en þær eru um 160 talsins. Sem sagt minnka báknið til að efla og tryggja góða menntun í landinu.
Þorsteinn er fyrrverandi skólameistari og Gunnlaugur er fyrrverandi skólastjóri.