Ólafur Andrés Guðmundsson fæddist 26. ágúst 1929. Hann lést 21. nóvember 2024.

Útför Ólafs fór fram 12. desember 2024.

Ég man þegar ég var lítill og fór í heimsókn til Óla afa og ömmu Hillu á Álfaskeiðinu. Afi sat þá oft í ruggustólnum sínum og tók mig í bóndabeygju, mér fannst fátt skemmtilegra, svo potaði hann í magann á mér og gerði blísturshljóð með samankrepptum vörum. Afi var einstaklega barngóður og kunni mörg fleiri brögð til að gleðja krakka, eins og t.d. að spila tónlist á tennurnar á sér og að búa til hljóð eins og verið væri að taka tappa úr flösku með því að stinga vísifingri upp í sig og láta smella í kinninni. Hann var líka alltaf glaður og skemmtilegur og það var alltaf stutt í grín. Þegar við fórum saman á jólaball Oddfellow fyrir fáum árum og ég var að taka mynd af þriggja ára dóttur minni í fanginu á jólasveininum sagði afi „fæ ég ekki mynd líka?“, svo settist hann á lærið á jólasveininum og brosti framan í myndavélina, þá kominn á tíræðisaldur.

En afi var ekki bara fyndinn og skemmtilegur, hann var líka listasmiður og gat búið til og gert við hvað sem er á verkstæðinu sínu í bílskúrnum þar sem hann var með rennibekki, borvélar, sagir og flest þau verkfæri sem gott verkstæði þarf að hafa. Þangað fór hann alla daga á meðan heilsan leyfði og þegar maður kom í heimsókn á Álfaskeiðið fór maður fyrst inn og kyssti ömmu og svo beint út í skúr að sjá hvað afi væri að bardúsa. Afi tók alltaf vel á móti manni í skúrnum og sýndi hvað hann var að gera og hvernig hann gerði það og hvaða tól eða skapalón hann þurfti að smíða fyrst til að geta gert það, ef hann vantaði skrúfu þá smíðaði hann hana bara. Óli afi
var kennari af guðs náð og var alltaf að miðla af þekkingu sinni þegar hann fékk heimsókn í skúrinn, enda kenndi hann lengi vel rennismíði við Iðnskóla Hafnarfjarðar. Eftir að ég hóf nám í verkfræði breyttist tónninn reyndar aðeins og hann fór að tala um mig sem „verkfræðinginn“ og þegar ég skildi ekki eitthvað eða þegar ég var ósammála honum um hvernig best væri að gera hlutina þá sagði hann ósjaldan, og hafði mjög gaman af, „ertu ekki verkfræðingur?“ En hann gat líka verið þver og í eitt skipti þegar ég mætti með hjól til hans í viðgerð, danskan forngrip frá 1970 sem mér hafði áskotnast, þá greindi okkur svo á um hvernig best væri að laga það að við enduðum á að vera sammála um að það væri best að ég lagaði það sjálfur. Ég hugsa að ég hafi erft eitthvað af þrjóskunni frá honum.

Þó að afi hafi notið sín vel í skúrnum og eytt þar flestum stundum þá leið honum hvergi betur en meðal fólks, helst í margmenni í stórveislum, þar sem hann var eins og fiskur í vatni og brast þá oftar en ekki í söng eða hélt ræður við mikla ánægju viðstaddra. Hann lék yfirleitt stórt hlutverk hvert sem hann kom því hann bar af í glæsileika og útgeislun og þegar vinir mínir tala um hann þá er hann oftast bara kallaður flotti afinn.

Elsku afi, við Hrefna og stelpurnar söknum þín sárt en við yljum okkur við allar góðu minningarnar um hjartahlýjan, skemmtilegan og flottan afa.

Brynjar Úlfarsson.

Elsku afi.

Að vera orðin svona fullorðinn eins og við systur erum og eiga afa og ömmu, þá hélt maður bara að þau væru eilíf, svo sjálfsagður hluti af lífinu hafa þau alltaf verið og nú er afi dáinn og maður er bara pínu hissa. Hissa en samt svo þakklátur fyrir öll þessi ár sem við áttum saman.

Að eiga samtal við afa sinn nánast fram á síðasta dag um lífið og tilveruna er ómetanlegt. Hann fylgdist alla tíð vel með fólkinu sínu, s.s. hvernig okkur gengi í skólanum, tómstundum og lífinu yfir höfuð. Einnig þegar við áttum okkar börn og svo síðar barnabörn vildi hann vita hvernig gengi hjá öllu okkar fólki.

Hann afi okkar var mikill gleðigjafi. Hann var söng- og kóramaður, spilaði á munnhörpu og gítar og hélt oftast ræður á hátíðarstundum í lífi stórfjölskyldunnar. En hann afi átti ekki bara stóra fjölskyldu heldur var hann einnig vinamargur og vel liðinn.

Bílskúrinn hans afa var líf hans og yndi, þar gat hann dvalið tímunum saman, ýmist við að gera við hluti, hanna eða smíða eitthvað alveg nýtt. Hann var handlaginn og flinkur með eindæmum og fjöldinn allur af handverki sem liggur eftir hann ber þess skýr merki. Við eigum ýmsa fallega hluti eftir afa sem gott er að njóta og hugsa hlýtt til hans.

Takk fyrir allt, elsku afi.

Guðrún Margrét og
Helga Dögg.

Elsku Óli „bróðir“ er dáinn.

Óli móðurbróðir okkar var yngstur sex systkina, sá þeirra sem náði hæstum aldri og síðastur til þess að kveðja þessa jarðvist. Mjög kært var með þeim systkinum, en fjögur þeirra bjuggu hér í Hafnarfirði og var talsverður samgangur, sérstaklega meðan við krakkarnir voru ung. Svo kært var með þeim að Óli og Hilla skírðu börnin sín nöfnum systkinanna og pabba okkar. Þau systkin töluðu aldrei hvert um annað öðruvísi en að bæta systir eða bróðir aftan við nafnið, svo við lærðum ung að tala þannig. Margar góðar minningar leita á. Óli var mikill söngmaður og spilaði listavel á gítar. Söng ásamt Adda „bróður“ um árabil með karlakórnum Þröstum. Oft var mikið fjör í Prentsmiðjunni þegar Óli „bróðir“ og Addi „bróðir“ spiluðu saman á gítar og munnhörpu eða sungu raddað í partíum. Allar samverustundirnar í Lundargerði, en þar var oft glatt á hjalla, mikið sungið og tjúttað alls konar. Óli og Hilla pössuðu okkur systkinin þar meðan mamma og pabbi fóru í sumarfrí. Það voru ekki leiðinlegir dagar. Falleg mynd er til af Óla og pabba við þriðja mann á hestbaki á leið í veiði. Lengi fóru karlarnir í stórfjölskyldunni í haustveiði í Grímsá og lágu þá við í bústaðnum.

Óli „bróðir“ var dverghagur á málm og eigum við frændsystkinin flest mjög fallega gripi eftir hann. Kunnátta hans á vélar og málma kom foreldrum okkar oft mjög vel, en hann var alltaf boðinn og búinn til aðstoðar ef eitthvað bilaði eða stykki brotnaði í prentvélum, sem ekki var auðvelt að nálgast á fyrri árum.

Varla er hægt að tala um Óla án þess að Hilla sé nefnd í sama orði. Saman hafa þau byggt upp sterka og góða fjölskyldu og hafa börnin þeirra öll myndað ljúfan skjöld utan um þau nú seinni árin svo þau hafa mátt standa á eigin fótum, haldið sinni reisn og haldið sitt fallega heimili fram til þessa dags. Er það mikil gæfa.

Þökkum við systkinin elsku Óla „bróður“ alla elsku og hlýju í gegnum árin og kærleikann sem hann sýndi Steinu „systur“ alla tíð.

Ingibjörg, Guðrún og
Guðmundur Magnús.

Hann Óli frændi okkar er allur. Ættarhöfðinginn hefur kvatt þessa jarðvist 95 ára gamall eftir langt, litríkt og farsælt líf. Hann hafði lifað langan dag, skilið eftir sig fjölda afkomenda og síðustu árin hafði hann horft stoltur um öxl yfir lífsstarfið. Hann var saddur lífdaga, en naut þó allt til enda hvers dags með Hillu eiginkonu sinni til meira en 70 ára, sem lifir mann sinn.

Óli frændi var móðurbróðir okkar sem þetta rita. Hann var yngstur fimm systkina, sem öll eru látin. Þau eru Guðmundur, Steinunn, Magnús sem lést ungur, Árni og móðir okkar Margrét, sem var næst Óla í aldri. Systkinin ólust hvað lengst upp á Bræðraborgarstígnum í Reykjavík á heimili foreldra sinna, afa okkar og ömmu, Guðmundar Magnússonar og Guðrúnar Guðmundsdóttur; hann ólst upp á Bolungarvík en hún á Ströndum.

Við bræður eigum góðar og fallegar minningar frá tíðum heimsóknum á Bræðraborgarstíginn, þar sem stórfjölskyldan kom gjarnan saman á helgum og naut samvista. Í þessari litlu þriggja herbergja íbúð var oft þröng á þingi, þegar stór hópur barna og fullorðinna kom saman, en alltaf var pláss fyrir alla. Örlögin höguðu því síðan svo að fjögur systkinanna, þar á meðal Óli, fluttust í Hafnarfjörðinn með sínar fjölskyldur og eru afkomendur þeirra flestir enn búsettir í hinum hýra Hafnarfirði.

Systkinin voru afar samhent í öllu og héldu þéttum samskiptum sín á milli. Og ávörpuðu hvert annað ætíð: „Óli bróðir, Steina systir, Addi bróðir, Mummi bróðir og Magga systir.“ Það undirstrikaði svo fallega hinn sterka streng sem milli þeirra var alla tíð.

Ólafur Guðmundsson var gleðigjafi. Hress og beinskeyttur í fasi, myndarmaður alla tíð og lundléttur. Lét þó engan eiga inni hjá sér og hafði fastmótaðar skoðanir á mönnum og málefnum. Gagnrýninn ef því var að skipta, enda með fastmótaðar pólitískar skoðanir, en aldrei var að finna meinbægni í hans framsetningu. Hann var söngelskur og átti það gjarnan til að safna saman mönnum og konum og taka lagið, enda afburða söngmaður með hljómfagra rödd.

Frændi okkar starfaði við kennslu í Iðnskólanum um langt árabil við góðan orðstír. Hann var enn fremur handhagur í betra lagi og þau mörg meistarastykkin sem hann mótaði og smíðaði, sem bera listamannseðli hans sterkt vitni.

Óli var félagslyndur vel og naut sín í margmenni. Börn hændust mjög að honum, enda var þeim gjöfull og góður.

Óli frændi var farsæll í einkalífi og naut kærleiksríkra samvista við sína góðu fjölskyldu alla tíð. Allt fram á síðasta dag voru og afkomendur hans, börnin og barnabörn, honum og Hillu góð og hjálpsöm í hvívetna. Þar var gagnkvæm hlýja allsráðandi.

Við bræður eigum ljúfar og fallegar minningar af samskiptum við elskaðan frænda okkar, sem við kveðjum hér af virðingu og þakklæti og sendum Hillu, frændfólki okkar og öðrum afkomendum Óla okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Ólafs Andrésar Guðmundssonar. Hvíli hann í friði.

Gunnlaugur, Guðmundur Árni og Ásgeir Gunnar Stefánssynir.

Hann Óli „frændi“ hefur kvatt þessa jarðvist eftir langa og gifturíka vegferð.

Óli var bróðir hennar Möggu tengdamóður minnar, en þó svo miklu meira.

Frá því ég kynntist honum fyrst fyrir tæpum 50 árum hefur mér þótt ofur vænt um hann.

Einhvern veginn náðum við vel saman, áttum ótal samtöl á gleðistundum í fjölskyldunni sem og í Fjarðarkaup og á förnum vegi. Alltaf var jafn gott og gaman að hitta Óla sem auðvitað var alltaf með Hillu sinni hvert sem hann fór.

Ekki þótti mér verra sem ungri, nýkomin inn í stórfjölskylduna, að fregna frá Óla að hann og pabbi minn væru gamlir kunningjar. Höfðu stundað saman nám 17 ára gamlir. Síðan hef ég fært þeim báðum fregnir af hinum. Þannig hafa þeir getað fylgst hvor með öðrum úr lítilli fjarlægð.

Fyrir rúmum tveimur mánuðum heimsóttum við hjónin Óla og Hillu og sú heimsókn gleymist seint. Mikið rætt um pólitík, nýliðnar forsetakosningar, fjölskylduna, börnin hans og barnabörn sem hann var svo stoltur af. Fyrir þessa samverustund með Óla og Hillu verð ég ævinlega þakklát.

Með þessari litlu kveðju vil ég þakka Óla „frænda“ fyrir dásamlega viðkynningu og samleið og þakka honum fyrir hversu ljúfur og góður hann var mér alltaf.

Elsku Hillu votta ég samúð mína, og bið henni blessunar. Matthildi, Önnu, Steinu, Guðmundi Ragnari, Guðrúnu Margréti og Óla, barnabörnunum og afkomendum þeirra sendi ég hlýjar kveðjur.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Ég bið að heilsa.

Jóna Dóra.

Fallinn er frá stórvinur minn Ólafur Andrés Guðmundsson. Kynni okkar hófust haustið 1959 þegar ég hóf nám í Vélsmiðjunni Kletti fyrir ríflega 65 árum. Síðar lágu leiðir okkar saman haustið 1974, þá báðir orðnir kennarar í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Ólafur hafði verið ráðinn, af þáverandi skólastjóra Sigurgeiri Guðmundssyni, til að setja á stofn verknámskennslu í málmiðnaðardeild en nokkru áður hafði hann farið til Noregs að afla sér þekkingar á starfsemi og kennsluaðferðum norskra iðnskóla. Fyrstu skrefin fólu m.a. í sér að innrétta húsakost deildarinnar og kaupa nauðsynlegan tækjabúnað og verkfæri en af þeim innkaupum má nefna fimm rennibekki, þrjár súluborvélar, einn vélhefil og vélsög. Auk þess voru keypt vinnuborð með skrúfstykki fyrir 12 nemendur. Kennslustofan var með fallegu viðargólfi úr ljósri furu og Ólafur hélt henni alla tíð snyrtilegri og hreinni enda fengu nemendur aldrei að yfirgefa stofuna fyrr en búið var að ganga frá, þurrka af og sópa. Skipulag kennslunnar var þannig að nemendur voru hálfa vikuna í verknámi hjá Ólafi og samkennara Ólafs, Gunnari Guðmundssyni sem einnig kom mikið að uppbyggingu verknámsins, og hinn helminginn í bóknámi hjá mér þar sem ég kenndi þeim öll tæknifögin frá teikningu yfir í stærðfræði en lét öðrum eftir tungumálakennsluna. Skipt var í hádeginu á miðvikudögum og í því hádegi hittumst við alltaf til að samræma verklega og bóklega kennslu og fara yfir framgang námsins hjá hverjum nemanda fyrir sig og áttum við þrír áratuga langt og gott samstarf. Fundirnir á miðvikudögum urðu margir því kennsluárið á þessum tímum var heilar 32 vikur.

Ólafur hætti störfum við Iðnskólann vegna aldurs í ágúst 1996 og sneri sér að smíði listmuna heima í bílskúr. Þar má nefna koparafsteypur af Siglingunni, verki Þorkels heitins Guðmundssonar samkennara okkar, sem stendur við Strandgötuna í Hafnarfirði, en með leyfi Þorkels voru þessar afsteypur notaðar til þess að veita hafnfirskum sjómönnum viðurkenningu á sjómannadaginn. Þá smíðaði hann einnig afsteypur af vitanum, tákni Hafnarfjarðar, fyrst úr kopar en síðar úr stáli og setti í þá ljós. Auk listsköpunarinnar tók hann að sér að gera við gamla muni og er þar að minnast forláta kertastjaka úr Bessastaðakirkju sem skemmdist illa við innbrot en urðu eins og óskemmdir aftur í höndum Ólafs. Fyrir rúmum fimm árum, þegar Ólafur varð níræður, hélt hann svo stórglæsilega sýningu á verkum sínum og var ótrúlegt að sjá hversu miklu hann hafði áorkað.

Ólafur ræktaði vinskapinn og var duglegur að heimsækja skólann eftir að hann hætti störfum og gladdist mikið yfir byggingu nýs skólahúss við Flatahraun. Við áttum okkar hinsta fund þegar ég heimsótti hann á Borgarspítalann rétt fyrir andlátið en þrátt fyrir veikindin og spítaladvölina var alltaf jafn notalegt að hitta Óla og finna hve kært var okkar á milli.

Að leiðarlokum vil ég færa Ólafi mínar dýpstu þakkir fyrir allt sem hann gerði fyrir mig og sendi Borghildi og öðrum ástvinum hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Jóhannes Einarsson.