Theódóra Friðbjörnsdóttir fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði 24. nóvember 1975. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á heimili sínu, Hádegisskarði 27a í Hafnarfirði, 7. desember 2024.

Foreldrar Theódóru eru Valgerður Sigurðardóttir, f. 5.11. 1953 og Friðbjörn Björnsson, f. 22.6. 1952.

Systur Theódóru eru: Lucinda Svava, f. 2.10. 1970, gift Erlingi Arnari Óskarssyni, þau eiga fjögur börn, Friðbjörn Óskar, Tinnu, Erling Arnar og Valgerði. Lucinda Svava og Erling Arnar eiga fjögur barnabörn. Ólafía, f. 22.6. 1981, gift Birni Guðjónssyni og eiga þau tvö börn, Soffíu Karen og Arnór Kára.

Theódóra giftist 24.7. 2010 Sveini Pálssyni, f. 24.3. 1978. Foreldrar Sveins eru Helga Guðnadóttir, f. 4.5. 1951, og Páll Bergsson, f. 4.7. 1945, d. 1.5. 1992.

Dætur Theódóru og Sveins eru: Birgitta, f. 29.10. 2002, og Emilía, f. 17.4. 2009. Theódóra og Sveinn skildu. Eftirlifandi eiginmaður Theódóru er Davíð Viðarsson, f. 12.1. 1979. Þau gengu í hjónaband 24.11. 2023. Foreldrar Davíðs voru Edda Sólrún Einarsdóttir, f. 13.2. 1956, d. 14.5. 2005, og Viðar Oddgeirsson, f. 3.8. 1956, d. 24.2. 2017. Börn Davíðs frá fyrri sambúð eru Ágúst og Guðlaug Árný.

Theódóra ólst upp á Hverfisgötu 13b í Hafnarfirði. Ung lauk hún námskeiði hjá Rauða krossinum sem barnapía. Hún lauk grunnskólanámi frá Lækjarskóla og fékk viðurkenningu frá skólanum á skólaslitum 30.5. 1991. Vorið 1993 fór hún sem skiptinemi til Texas í Bandaríkjunum. Hún stundaði nám í Plano Senior High School 1993-1994. Hún útskrifaðist með stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ vorið 1997. Kennarinn blundaði í Theódóru frá barnæsku og útskrifaðist hún með B.Ed.-próf þann 11.6. 2005 frá Kennaraháskóla Íslands. Hún var meðal þeirra sem fylgdu Hraunvallaskóla úr hlaði frá fyrstu dögum skólans haustið 2005 og starfaði þar til 31.7. 2015. Sumarið 2015 fluttu hún, Davíð og stelpurnar í Ólafsvík og kenndi hún þar við Grunnskóla Snæfellsbæjar frá 1.8. 2015 til 31.7. 2021. Samhliða lauk Theódóra M.Ed.-prófi í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á sérkennslufræði í október 2019. Snjallvæðingin var henni einstaklega hugleikin og var meistararitgerð hennar um þróun máls og læsis tvítyngdra unglinga – íslenskunám í snjöllu námsumhverfi. Í kjölfar meistararitgerðarinnar var hún hvött til doktorsnáms. Frá 1.8. 2021 sinnti hún deildarstjórastöðum við Skarðshlíðarskóla. Hún var deildarstjóri upplýsingatækni og kennsluráðgjafi, deildarstjóri stoðþjónustu og fram að andláti sínu var hún deildarstjóri miðstigs.

Áhugamál Theódóru voru golf, skíði og fjölskyldureiturinn í Úthlíð. Meðfram námi í framhaldsskóla starfaði hún við afgreiðslu og framköllun ljósmynda hjá Hans Petersen og fleirum. Þar kviknaði áhugi hennar á ljósmyndun, eignaðist hún flotta myndavél og tók upp frá því mikinn fjölda mynda sem geyma dýrmætar minningar frá lífi hennar og störfum.

Útför Theódóru fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 16. desember 2024, kl. 13.

Ef þú horfir til himins sérðu nýja stjörnu skína þar skært. Það er hún Tedda mín sem æðri máttarvöld hafa kallað til sín af óskiljanlegum ástæðum. Kannski til að aðstoða börn sem hafa villst af leið. Stjarna hennar mun vísa þeim veginn, þá leið sem rétt er, eins og hún gerði fyrir marga.

Að kveðja Teddu mína er óbærilegt og að við höfum einungis fengið tíu ár saman. Þessi ár eru án efa bestu ár ævi minnar. Við gerðum ótrúlega margt skemmtilegt á þessum tíma og eflaust meira en margir gera á heilli ævi. Við vorum dugleg að ferðast og fórum víða og vorum saman í áhugamálum okkar til hinsta dags.

Þessi fallega kona sem ég sá fyrst fyrir utan Laugardalslaugina gerði alla daga betri og fallegri með nærveru sinni. Hún var drífandi, hreif alla með sér, hafði áhuga á fólki og var til dæmis búin að kynnast nýjum herbergisfélögum á LSH samdægurs. Þess vegna á hún svo marga vini og kunningja. Hún var skilningsrík, ástrík, falleg og lifði lífinu til fulls. Það er erfitt að kveðja á þessari stundu konu sem naut lífsins til fulls.

Við áttum eftir að gera svo margt og vorum rétt að koma okkur fyrir í Hádegisskarðinu þegar baráttan við krabbameinið hófst. Við áttum alltaf eftir að ferðast til Grikklands en Tedda vildi meina að hún hefði verið grísk í fyrra lífi, þó svo hún talaði spænsku reiprennandi og hefði farið víða um Spán.

Tedda mín gat allt, var listræn, fagurkeri, opinská, fjölskyldukona, baráttukona, ofurkona, hin sanna íslenska kona. Hún elskaði mig af einlægni og virðingu fram til loka. Ég er óendanlega þakklátur henni fyrir að hafa drifið mig áfram í lífinu og stutt mig í öllu því sem ég tók mér fyrir hendur. Hún var minn betri helmingur og miklu meira en það. Ég þakka fyrir þann tíma sem við fengum saman þó stuttur væri en hvert sport með henni var auðnuspor. Minningin um Teddu mína lifir og mun lifa áfram í gegnum dætur hennar. Ég mun gera mitt besta í styðja við og vera til staðar fyrir börnin okkar með sama hætti og Tedda hefði gert.

Hún var einstök perla.

Afar fágæt perla,

skreytt fegurstu gimsteinum

sem glitraði á

og gerðu líf samferðamanna hennar

innihaldsríkara og fegurra.

Fáar perlur eru svo ríkulega búnar,

gæddar svo mörgum af dýrmætustu

gjöfum Guðs.

Hún hafði ásjónu engils

sem frá stafaði ilmur

umhyggju og vináttu,

ástar og kærleika.

Hún var farvegur kærleika Guðs,

kærleika sem ekki krafðist
endurgjalds.

Hún var vitnisburður

um bestu gjafir Guðs,

trúna, vonina, kærleikann og lífið.

Blessuð sé minning einstakrar perlu.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Ég elska þig af öllu mínu hjarta og sakna þín meira en orð fá lýst. Hvíldu í friði, ástin mín. Við sjáumst aftur síðar, elsku Tedda mín, takk fyrir allt.

Þinn,

Davíð.

Eftirvæntingin eftir litla barninu sem var á leið í heiminn var mikil. Við foreldrarnir vorum bæði viðstödd og fengum hana glænýja í faðminn, yndislega heilbrigða og fallega stúlku.

Undirbúningurinn fyrir komu Theódóru dóttur okkar var frá fæðingu hennar tengdur jólunum. Afmælisdagur hennar var viðmið jólabaksturs á heimilinu og alls þess er tengdist komu hátíðarinnar.

Hún var litla systir í byrjun en innan fárra ára var hún komin með það mikilvæga hlutverk að vera bæði litla og stóra systir í þriggja systra hópi. Því hlutverki skilaði hún vel.

Tedda eins og við kölluðum hana sýndi snemma hvaða góðu og vel gefnu stúlku hún hafði að geyma. Hún var einlæg og yndisleg og svo hamingjusöm. Hún tileinkaði sér orðin ástsamlegt og dásamlegt strax sem barn þegar hún var að lýsa eigin líðan, tilfinningum og heimili sínu.

Vegna aðstæðna heima fyrir fór hún ekki í leikskóla heldur stundaði róló bæði á Kirkjuveginum og Arnarhrauni. Þegar hún hafði aldur til fór hún í Lækjarskóla og var í þeim góða skóla öll sín grunnskólaár. Þar eignaðist hún vinkonur og vini fyrir lífstíð.

Hún var ábyrg, bjó yfir ríkri réttlætiskennd og var okkur ómetanleg stoð og stytta og var því ekki há í loftinu þegar hún fór að passa litlu systur sína og hjálpa okkur í Fiskverkuninni. Hún lagði sig alla fram, svo jákvæð og áhugasöm um velferð systra sinna, námið sitt og allt það sem heimilisfólkið tók sér fyrir hendur, tilbúin að vera með og aðstoða.

Hún hafði mikla löngun til að ferðast og fræðast. Fór aðeins fjögurra ára með okkur í ferð um Evrópu og var ótrúlegt hvað hún svo ung tók vel eftir því sem fyrir augu bar. Tungumál voru henni hugleikin og eðlislæg og átti hún því svo auðvelt með að kynnast fólki á erlendri grund.

Heimili okkar varð alþjóðlegt og opið fyrir frekari tækifærum til að skoða heiminn um tíma og átti hún stærstan þátt í því. Það var okkur því mikil gleði og ánægja að bjóða erlendum ungmennum gistingu, vitandi að dætur okkar fengu notið sömu tækifæra á heimilum þeirra.

Við sögðum að hún væri dýrahvíslari, hún var mikill dýravinur, átti kisur, páfagauk, hund og hesta. Hún Petra, heimilishundurinn okkar til rúmlega 14 ára, fékk svo verulega notið þess að eiga hana Teddu. Hundar sem urðu á vegi þeirra litu Petru öfundaraugum.

Sem móðir var hún einstök, lagði allt af mörkum fyrir velferð Birgittu og Emilíu, gaf þeim alla sína ást og umhyggju. Systrabörnum sínum sýndi hún mikla hlýju og væntumþykju.

Fræðimaðurinn og kennarinn Theódóra var skólasamfélaginu í Hafnarfirði mikils virði. Hún var meðal þeirra sem fylgdu Hraunvallaskóla úr hlaði og kenndi í honum í tíu ár.

Í Skarðshlíðarskóla vann hún hin seinni ár sem deildarstjóri.

Ótímabæru andláti elsku hjartans ástsamlegu og dásamlegu Teddu fylgir óbærilega djúp sorg og söknuður. Þakklæti og virðing fyrir lífi hennar verður okkur styrkur og orð hennar og gjörðir verða okkur fyrirmyndir til að halda áfram. Minningarnar munu lifa í hugum okkar og hjörtum. Blessuð og varðveitt sé minning dóttur okkar Theódóru Friðbjörnsdóttur.

Mamma og pabbi.

Elsku hjartans systir mín.

Það er svo óraunverulegt að sitja hér og skrifa um þig minningarorð, tárin renna, sorgin og söknuðurinn eru ólýsanlega sár, síðustu dagar hafa liðið í þoku eymd og sárum, elsku systir mín.

24. nóvember 1975 fæddist lítil, falleg stelpa á Sólvangi í Hafnarfirði. Þá stækkaði litla fjölskyldan og stóra systir fékk þig í fangið í fyrsta sinn, ég var fimm ára þegar þú fæddist og ég mann eins og það hefði gerst í gær. Þú varst svo einstök, lítil, dökk og svo óendanlega falleg stelpa. Þann glæsileika barst þú allt þitt líf. Þú hafðir alltaf ríka réttlætiskennd, hlýju og fórst aldrei í manngreinarálit enda elskuðu þig allir sem voru svo heppnir að kynnast þér á lífsleiðinni. Þú elskaðir börnin okkar Arnars og passaðir þau oft og mikið enda elska börnin okkar þig óendanlega mikið. Námið lá því beint við hjá þér og það var að verða kennari. Þú elskaðir að skoða heiminn hvort sem það var innanlands eða utan.

Tómleiki minn er mikill núna en ég reyni eftir fremsta megni að skrifa þessa grein sem aldrei átti að vera skrifuð. Alltaf gat ég leitað til þín með allt sem í brjósti ég bar, hvort sem það tengdist lífi mínu eða námi, enda varstu alltaf úrræðagóð þar.

Við systur áttum svo margt sameiginlegt, ferðirnar okkar óteljandi í Góða hirðirinn með stútfullan bílinn og í hverri heimferð og við alltaf jafn ánægðar með kaupin.

Elsku Tedda, við vorum ekki bara systur, við vorum líka alltaf vinkonur ég gæti skrifað endalaust, svo margt og mikið er að segja frá, þú varst hetjan mín.

Það var ótrúlega sárt að horfa upp á þig í baráttunni við veikindin og þar kom vel fram hversu vel þú varst gerð og gædd miklum mannlegum kostum. Þú barðist hetjulega og af mikilli auðmýkt fram á það síðasta. Þrátt fyrir mikil veikindi þín síðastliðið sumar þá áttir þú þér þann draum að við færum öll fjölskyldan saman til Spánar sem við öll gerðum að veruleika og er það okkur dýrmæt minning í dag og við dáumst að því að þú hafir lagt þetta allt á þig en þannig er þér rétt lýst.

Máltækið segir: „Hugurinn ber mann hálfa leið“, en hann bar þig alla leið allt fram á síðasta dag.

Þú fylgdist alltaf vel með öllum framkvæmdum okkar Arnars af miklum áhuga í gegnum tíðina. Þegar þú komst til okkar í nýja húsið þá varst þú orðin mjög veik en þú lést það ekki stoppa þig í að koma til okkar og er sú minning dýrmæt.

Elsku systir, þú í blóma lífsins sem elskaðir lífið, fallegu stelpurnar þínar, eiginmann, foreldra þína og fjölskyldu, golfferðir, skíðaferðir og að klára fallega húsið ykkar sem að þú fékkst ekki að njóta. Lífið getur verið svo ósanngjarnt og sárt.

Elsku Birgitta, Emilía, Davíð, foreldrar mínir, systir og fjölskylda, guð varðveiti okkur á þessum erfiðu tímum.

Sofðu lengi, sofðu rótt,

seint mun bezt að vakna.

Mæðan kenna mun þér fljótt,

meðan hallar degi skjótt,

að mennirnir elska, missa, gráta
og sakna.

(Jóhann Sigurjónsson)

Elska þig ávallt.

Þín systir,

Lucy (Lucinda).

Stafrófið var lesið hátt og skýrt svo það heyrðist vel fram á gang á Hverfisgötunni. Þarna var Tedda systir búin að stilla upp krítartöflunni sinni og stóð þar í hlutverki kennara fyrir framan fyrsta nemanda sinn, litlu systur sína. Hún var alltaf fyrirmyndin mín í lífinu og gaf endalausa ást og umhyggju sem einkenndi hana alla tíð. Við systurnar þrjár ólumst upp á Hverfisgötu 13b í Hafnarfirði á fallegu og hamingjuríku heimili. Við störfuðum saman í fiskverkun foreldra okkar og áttum yndisleg ár þar sem við fengum allt það frelsi, ást og umhyggju sem fylgir okkur út lífið.

Æskuárin okkar einkenndust af systrakærleik sem fylgdi okkur alla tíð. Við Tedda vorum líkar á margan hátt og deildum hugsjónum og áhugamálum. Við stunduðum saman hestamennsku á árum áður með Nóa og Líber, síðar skíði og golf. Margir sögðu okkur hafa sama raddblæ og aðrir töldu okkur jafnvel vera á sama aldri. Teddu fannst það mjög skemmtilegt enda sex árum eldri en ég. Hún bar með sér kærleik í garð annarra sem gerði hana einstaka.

Árið 1993 fór Tedda sem skiptinemi í eitt ár til Bandaríkjanna og dvaldi í Plano í Texas. Það voru ófá bréfin sem fóru í gegnum faxtækið á milli okkar fjölskyldunnar. Ég saknaði hennar mikið á meðan hún var úti sem skiptinemi og dvaldi ófáum stundum í herberginu hennar að hlusta á geisladiskana hennar þar sem ég tileinkaði mér nýjan tónlistarsmekk. Hún komst í fótboltaliðið í Plano Senior Highschool og stóð sig með eindæmum vel í náminu þar úti. Enda var allt sem hún tók sér fyrir hendur gert með einstökum metnaði og þrautseigju sem hún bjó yfir. Nokkrum árum seinna áttum við systur ógleymanlegt ferðalag til Plano og heimsóttum meðal annars skólann hennar. Þar þekktu kennararnir hana frá því að hún var þar í námi og voru fagnaðarfundir með þeim. Við keyrðum líka til Roswell til að skoða geimverusafnið. Nýlega minntumst við ferðarinnar með mikilli gleði en við eigum bæði myndir og dagbók frá ferðinni.

Tedda var einstaklega hugljúf og var besta systir, frænka og mágkona sem hægt er að eiga. Soffía og Arnór voru í miklu uppáhaldi hjá henni og munu ylja sér við yndislegar og fallegar minningar og eru svo heppin að hafa átt elsku Teddu frænku sína.

Mig langar að enda á kvæði sem Tedda prentaði sjálf út og rammaði inn á fallega heimili sínu, Davíðs og barnanna. Það einkennir hugsjónir og lífsgleði elsku Teddu okkar og mun vera fjölskyldunni allri leiðarljós allt lífið.

Dans gleðinnar

Það er svo margt að una við,

að elska, þrá og gleðjast við,

jafnt orð sem þögn, og lit sem lag,

jafnt langa nótt, sem bjartan dag.

Mér fátt er kærra öðru eitt.

Ég elska lífið djúpt og heitt,

því allt sem maður óskar næst

og allir draumar geta ræst.

Ég byggi hlátraheima

í húmi langrar nætur.

Af svefni upp, í söngvahug,

með sól ég rís á fætur.

Og augun geisla af gleði

sem grær í mínu hjarta.

En syrti að ég syng mig inn

í sólskinsveröld bjarta.

(Kristján frá Djúpalæk)

Sorgin er óbærileg og missir okkar er ólýsanlegur. Minning um elsku Teddu mun ávallt lifa í hjörtum okkar.

Ólafía, Björn,
Soffía og Arnór.

Elsku hjartans Tedda, frænka okkar, sem lést 7. desember 2024 eftir harða baráttu við krabbamein, var ómetanlegur hluti af lífi okkar fjögurra systkina. Hún var ekki aðeins frænka okkar, heldur fyrirmynd, ráðgjafi og vinur sem hafði djúp áhrif á hvert og eitt okkar.

Tedda var sú manneskja sem allir vildu hafa nálægt sér. Hún var jákvæð, góðhjörtuð og með einstaka réttlætiskennd. Hún hafði þann einstaka hæfileika að láta alla í kringum sig finna til öryggis og tilheyra. Hún var frábær kennari, bæði í eigin starfi og í lífi okkar allra. Hún kenndi okkur hagnýta hluti eins og að reima skó, lesa eða læra á klukku, en líka dýrmætar lífslexíur eins og að trúa á okkur sjálf og njóta augnabliksins.

Minningar okkar um hana eru margbreytilegar, allt frá ævintýrum í barnæsku til sérstakra augnablika síðar á lífsleiðinni. Við minnumst hennar sem manneskju sem var alltaf til staðar, hvort sem það var fyrir hvatningu, ráð eða einfaldlega hlátur og gleði. Hún hafði einstakt lag á að nálgast bæði börn og fullorðna, og hún gaf sér tíma til að hlusta og vera til staðar.

Við systkinin erum sammála um að það voru forréttindi að hafa fengið þá gjöf að eiga Teddu sem stóru frænku okkar. Við eigum ótal fallegar minningar sem við munum varðveita að eilífu.

Að missa hana hefur skilið eftir sig djúpt tómarúm í hjörtum okkar allra. Þú verður alltaf hluti af okkur og það sem þú gafst af þér mun lifa áfram í hjörtum okkar.

Við kveðjum dásamlegu og einstöku frænku okkar með djúpu þakklæti og eilífri ást.

Með ást og virðingu,

Friðbjörn Óskar Erlingsson, Tinna Erlingsdóttir,
Erling Arnar Erlingsson og
Valgerður Erlingsdóttir.

Elsku Tedda frænka, nú er komið að kveðjustund.

Ég kveð þig með miklum söknuði en jafnframt miklu þakklæti í hjarta fyrir að hafa átt frænku eins og þig.

Síðustu daga hef ég verið að hugsa um allar þær yndislegu og skemmtilegu stundir sem við áttum saman og er mér ofarlega í hug þegar við vorum litlar og fórum saman niður í bæ, í bókabúð Böðvars, og keyptum dönsku blöðin fyrir ömmu Svövu. Það var margt við að vera niðri á Hverfisgötu, t.d. þegar við vorum í klettunum eða uppi á reit, eða þegar við fórum saman niður í Ösp og oftar en ekki kom Snúður, kötturinn ykkar, með okkur. Þá eru ógleymanlegar skíðaferðirnar upp í Bláfjöll með ömmu Ernu og afa Sigga á Rauðku og vorum við frændsystkinin öll í eins peysum sem amma Erna prjónaði.

Það er gott að eiga góðar minningar, elsku frænka.

Elsku Tedda, nú kveð ég þig með miklum söknuði í hjarta en jafnframt miklu þakklæti fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman í gegnum lífið.

Þín frænka,

Erna Geirlaug.

Okkur setti hljóð þegar fregnin barst laugardaginn 7. desember síðastliðinn.

Hún Tedda okkar er dáin. Hugurinn fer á flug og minningarnar sækja á. Af hverju hún? Af hverju kveður hún svo ung? Svo líða nokkrir dagar og með tímanum víkur reiðin fyrir ljúfum minningum um yndislega manneskju. Þær gerast ekki betri en hún Tedda okkar. Við ákveðum að heiðra frekar líf hennar og minningu en að sitja í treganum. Sorgin hverfur samt ekkert.

Hrafnhildur hefur fylgt frænku sinni frá fæðingu fram á síðasta dag og þekkti hana okkar best. Ég sem þetta rita kom inn í fjölskylduna í byrjun árs 1979 og þá var Tedda á fjórða árinu. Hún var mjög fallegt barn. Við höfum síðan fylgst með henni á lífsins braut breytast úr barni í ungling, sem var í alla staði til fyrirmyndar. Tedda tengdist okkur sterkum böndum. Var m.a. hjá okkur á Ísafirði og gætti krakkanna. Öllum stundum hittumst við í fjölskylduboðum og viðburðum á lífsleiðinni og alltaf var Tedda sem hugur manns, ljúf og góð.

Eins og hennar var von og vísa breyttist hún úr unglingi í bráðfallega unga konu. Kynntist Svenna og þau hófu búskap og eignuðust tvær ekki síður fallegar dætur, þær Birgittu og Emilíu. Þau Tedda og Svenni bjuggu um tíma á Seyðisfirði og voru samskiptin þá mikil. Dvöl þeirra hér eystra var því miður fyrir okkur stutt og við söknuðum þeirra mjög er þau fóru frá Seyðisfirði.

Alla tíð hefur Hrafnhildur fylgst vel með frænku sinni og vitað hvað hún hefur haft fyrir stafni. Þær áttu ýmislegt sameiginlegt tengt vinnu, þar sem þær störfuðu báðar sem sérkennarar.

Segja má að lífshlaup hennar Teddu okkar hafi verið mjög ánægjulegt fram til þess er hún veiktist. Dætur hennar bera því vitni að uppeldið var gott. Hún nældi sér í frábæran mann þar sem hann Davíð hennar er. Hún á hugi og ást allra sem kynntust henni. Ekki er að efa að nemendur hennar sakna hennar svo hugfangin sem hún var af starfinu sínu. Allt hennar lífshlaup er markað ástúð, áhuga og hlýju í garð samferðarmannanna.

Hún Tedda okkar náði ekki háum aldri. Átti afmælisdag fyrir skemmstu og varð þá fjörtíu og níu ára. Við Hrafnhildur komumst ekki í afmælið hennar en nutum þess að heimsækja hana einn eftirmiðdag skömmu síðar. Það var verulega af henni dregið vegna veikindanna, en samt tók hún á móti okkur eins og sú baráttukona sem hún var. Við áttum þarna saman yndislega dagstund. Þau Davíð höfðu búið sér virkilega fallegt heimili í Hafnarfirðinum, sem ber vitni um alúðina sem öllu var ofar í huga Teddu.

Við heiðrum í dag líf Theódóru Friðbjörnsdóttur. Hún var alger hetja sem tókst á við lífið og allt sem það bauð upp á af miklu æðruleysi.

Blessuð sé minning hennar Teddu okkar.

Elsku fjölskylda Teddu, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð vegna fráfalls ástkærrar eiginkonu, móður, stjúpmóður, dóttur, systur, mágkonu og frænku. Missirinn er óbærilegur og hugur okkar er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum. Megi fjölskyldan og vinir finna styrk í þeim dýrmætu minningum sem hún hefur skilið eftir.

Fyrir hönd frændfólksins á Seyðisfirði,

Lárus Bjarnason.

Elsku Tedda mín. „Jú, jú, við finnum tíma.“ Síðustu skilaboðin sem þú sendir mér fyrir nokkrum dögum síðan. „Finnum tíma fyrir kaffibolla.“ Sá tími kemur ekki. Ekki á þessari jörðu. Við tökum bolla með ömmu Ólu þegar sá tími kemur.

Minningarnar streyma fram, allar komnar til ára sinna en verðmætar engu að síður. Ég minnist þess þegar við lékum svo oft saman í Hafnarfirði, ég man eftir stóru dúkkunni sem þú fékkst í jólagjöf frá foreldrum þínum þegar þú varst kannski 6-7 ára. Hvað ég öfundaði þig af henni. Mig langaði líka í svona dúkku. Þú varst ekki há í loftinu en fljót varstu að sjá lausn við dúkkuleysinu hjá mér. Þú sagðir að ég mætti alltaf eiga hana með þér, nema dúkkan þyrfti bara alltaf að sofa heima hjá þér. Þar með varstu búin að leysa þetta. Ég minnist þess þegar við fórum til ömmu og afa í Lúxemborg saman. Sendar tvær aleinar í flugvél, 11 og 13 ára. Jiminn, hvað sú ferð var dásamleg. Þar vorum við í góðu yfirlæti í faðmi ömmu Ólu með nefið okkar ofan í Nutella-dósinni. Skellihlæjandi allan daginn. Við fengum meira segja að hjóla einar út í búð að kaupa meira Nutella. Þar héldum við að það ætti að ræna okkur. Við hlógum ennþá að þessari minningu þegar við hittumst. Og nefin okkar, Tedda. Við áttum það sameiginlegt. Nefið. Nefið sem ég þoldi ekki. En þú kenndir mér að vera stolt af nefinu mínu. „Fjóla, ég er stolt af mínu nefi, þú átt líka að vera það.“ Ég lofa að kunna meta nefið betur, Tedda.

Þangað til næst, hjartans Tedda mín.

Hér við skiljumst

og hittast munum

á feginsdegi fira;

drottinn minn

gefi dauðum ró,

hinum líkn, er lifa.

(Úr Sólarljóðum)

Elsku Davíð, Emilia, Birgitta, Ágúst og Guðlaug. Elsku Vala og Böddi. Elsku Lucy og Ólafía og fjölskyldur. Guð og allir hans englar vaki yfir ykkur og verndi. Ykkur eru falin þung skref að stíga. Hugur minn er og verður hjá ykkur.

Fjóla.

Við kynntumst Teddu okkar í Kennó, smullum strax saman allar fimm og stofnaður var saumaklúbburinn Drullupjötlurnar. Í gegnum tíðina höfum við brallað mikið saman bæði við pjötlurnar en einnig með fjölskyldum okkar.

Við sitjum hér grátandi og hlæjandi til skiptis og reynum að koma í orð allt sem þú varst okkur og óskiljanlegt að þú mætir ekki í næsta hitting, saumó eða bústaðarferð.

Þú hafðir ótrúlega hlýja nærveru og gott var að vera í kringum þig. Það var alltaf stutt í þinn smitandi hlátur og ófá hlátursköstin sem við fengum saman þar sem aðrir sussuðu á okkur. Þú varst ofboðslega flink í höndunum, mikill fagurkeri og bar heimilið þess merki alla tíð. Stelpurnar þínar Birgitta og Emilía voru þér allt og gaman var að fylgjast með þeim í gegnum þig. Í starfi þínu varstu fagmaður alveg sama hvað þú tókst þér fyrir hendur og kennslan skipti þig miklu máli enda skein í gegn dugnaðurinn og ósérhlífni þar eins og annars staðar.

Það eru ekki allir sem vita að þú varst einnig í stúlknabandinu Vælon sem varð frægt á einni nóttu. Þar hafðir þú sviðsnafnið Tedda tútta. Fyrsta giggið var á árshátíð KÍ á Broadway þar sem við komum upp úr gólfinu með ljósasjói og reykvélum. Þar urðum við allar aftur 15 ára grunnskólapíur og mikið var hlegið. Ferillinn var ekki langur en við náðum þó að gigga í nokkrum brúðkaupum.

Við vinkonurnar kveðjum þig elsku besta með miklum söknuði en einnig þakklæti fyrir allar gleðistundirnar og ljúfu minningarnar.

Elsku Davíð, Birgitta, Emilía og fjölskylda, hugur okkar er hjá ykkur á þessum erfiða tíma.

Hlýjar kærleikskveðjur frá okkur.

Hildur Bára, Fríða Elísa, Guðríður og Jóhanna.

Elsku Tedda.

Við erum saman komnar vinkonurnar sem vorum saman í grunnskóla og höfum haldið og styrkt dýrmætan vinskap okkar nú í fjóra áratugi. Við höfum í gegnum árin hist mjög reglulega, oftast í saumó, þar sem iðulega er mikið spjallað og hlegið. Í dag hittumst við til að hlúa hver að annarri í sameiginlegri sorg okkar vegna fráfalls þíns og setja niður á blað þessi kveðjuorð.

Það er erfitt að trúa því að svona sé staðan. Það er svo erfitt að meðtaka það að þú sért farin, langt fyrir aldur fram. Nú við fráfall þitt skellur á okkur köld áminning um það hversu hverfult lífið er og hversu miklu máli það skiptir að fara vel með það dýrmæta skjól sem svona vinskapur veitir og vera þakklátar fyrir tímann okkar saman.

Þegar hugar reika um farveg vináttu okkar eigum við allflestar sameiginlegar bernskuminningar frá æskuheimili þínu á Hverfisgötunni. Hve ævintýralegt húsið ykkar var og gaman að leika sér þar. Minningar um skíðaferðirnar, skólaferðalögin, stundirnar á Stöðinni á Reykjavíkurveginum, Benidorm ferðin, Þjóðhátíð í Eyjum, böll með Sálinni, árlegu sumarbústaðarferðirnar og svo mætti lengi telja.

Við höfum margt brallað saman og stutt hver aðra í gegnum lífið, í gegnum súrt og sætt. Næst á dagskránni var draumaferðin sem við ætluðum í á næsta ári í tilefni af fimmtugs.

Skarðið sem nú er í hópnum okkar er stórt, það vantar í það þína hlýju útgeislun og gleði, smitandi hláturinn þinn, fallega brosið, spjallið og einlægnina. Sama hve langur tími leið á milli þess sem við hittumst var alltaf eins og við hefðum síðast hist í gær, við áttum djúpar taugar hver til annarrar og elskuðum að spjalla, og gátum gert mikið af því.

Það hefur verið huggun í harminum sem veikindum þínum fylgdi að verða vitni að því hversu fallegt og sterkt hjónaband þið Davíð áttuð. Það hefur verið aðdáunarvert að verða vitni að styrk ykkar, samstöðu og trú í gegnum þetta ferli. Og eins hversu öflugur samtakamáttur fjölskyldu ykkar Davíðs hefur verið, sem sló upp skjaldborg í kringum þig elsku Tedda og leiddi þig hvert einasta skref.

Við allar endurminningarnar brýst út samhliða sorginni, tilfinning þakklætis. Við náðum allnokkrar að eiga einstaklega dýrmæta kvöldstund nú í nóvemberlok þar sem við fögnuðum 49 afmæli elsku Teddu okkar. Það var ljúfsár stund og innileg. Þá vissum við allar innst inni að þetta var jafnframt kveðjustundin. Þessi kvöldstund mun fylgja okkur sem þarna vorum og ylja um ókomna tíð.

Stúlkurnar þínar fallegu elsku Tedda, þínir dýrmætustu eðalsteinar, munu nú þurfa að læra að fóta sig í breyttri tilveru og við trúum því að það fallega veganesti sem þú hefur gefið þeim með lífsgleði þinni, kærleika, styrk og seiglu muni vera þeim ljós á leið sinni.

Gull á ég ekki að gefa þér,

og gimsteina ekki neina.

En viltu muna að vináttan er,

verðmætust eðalsteina.

(Hjálmar Freysteinsson)

Elsku Davíð, Birgitta, Emilía, Ágúst, Guðlaug, Valgerður, Friðbjörn, Lucinda og Ólafía, missir ykkar er mikill og við vottum ykkur okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd æskuvinkvennahópsins úr Lækjó,

Hilda Bára, Katrín Sif, Sóley Á., Hrönn, Jóna,

Ingibjörg, Kristjana

og Ásta.

Kæra vinkona mín, Tedda.

Mig langar að minnast þín með þessum orðum og rifja upp allar dýrmætu stundirnar sem við áttum saman. Þú varst fjórum árum eldri en ég. Frá því ég var aðeins eins árs og við kynntumst sem nágrannar urðum við vinkonur. Við deildum ótal ævintýrum á bernskuárunum, ásamt systkinum okkar og nágrönnum. En það var eftir unglingsárin sem við urðum nánari vinkonur, eins og vináttan okkar dýpkaði með hverju árinu sem leið. Foreldrar okkar voru einnig góðir vinir, og pabbar okkar, stórútgerðarmenn með meiru, gáfu okkur sterkan grunn til að byggja vináttu okkar á.

Við fórum í sama menntaskóla, urðum mömmur á svipuðum tíma og ákváðum báðar að verða kennarar. Lokaverkefnið okkar í Kennó var lýsandi fyrir samband okkar, skrifað á sömu tölvuna á sama tíma, hlið við hlið. Áður en við vissum af vorum við farnar að gera eitthvað allt annað, eins og að flísaleggja baðherbergið hjá þér! Í Hraunvallaskóla héldum við áfram að skapa ógleymanlegar minningar.

Svo margt í okkar lífi var fullt af gleði, sköpun og hlátri. Við stofnuðum okkar eigin stúlknahljómsveit, Vælon, sem var jafn klikkuð og hún var frábær. Við settumst líka niður við saumavélar og ætluðum að verða ríkar á því að sauma klúta og selja. Okkar einstaki „geðveikisljósi“ saumaklúbbur var eins og við; fullur af lífi og hlátri.

Stelpurnar þínar, Birgitta og Emilía, voru ljós þitt og yndi. Það var augljóst öllum sem þekktu þig hversu óendanlega stolt og hamingjusöm þú varst með þær. Þú varst ekki aðeins yndisleg móðir heldur líka snillingur í að skapa fegurð í kringum þig, hvort sem það var á heimilinu, meðal vina eða bara í hversdagsleikanum með þinni einstöku nærveru.

Þegar ég flutti til Noregs tókum við vináttuna okkar yfir á FaceTime. Ég man öll símtölin okkar, þar sem við hlógum og spjölluðum undir „ljósinu“, alltaf í góðum gír. Þó að hafið hafi verið á milli okkar, varst þú alltaf nærri, aðeins símtal í burtu, eins og við sögðum.

Ég er óendanlega þakklát fyrir dásamlegar samverustundir okkar í október. Þegar ég ætlaði að fara baðstu mig að vera ögn lengur. Þú sagðir mig fylla þig af góðri orku. Sannleikurinn er þó sá að það var á hinn veginn. Innst inni held ég að við höfum báðar vitað að þetta væri síðasta skiptið sem við hittumst augliti til auglitis.

Síðustu skilaboðin þín til mín þann 28. nóvember geymi ég að eilífu í hjarta mínu. Þau voru stutt en svo óendanlega dýrmæt: „Skila því mín kæra. Elska þig meira en allt.“ Þessi orð endurspegla allt sem þú varst; kærleiksrík, hlý og alltaf svo örlát á sjálfa þig og ástina þína.

Elsku Birgitta, Emilía, Davíð, Vala, Böddi, Lucý, Ólafía og fjölskylda. Ég sendi ykkur allan minn styrk og hlýju. Tedda var einstök og mun lifa áfram í hjörtum okkar allra.

Tedda mín, þú varst ljós í lífi allra sem þekktu þig. Ég mun sakna þín meira en orð fá lýst, en hláturinn okkar, kærleikurinn og allar minningarnar lifa áfram.

Þín vinkona að eilífu,

Guðríður Guðnadóttir.

Við burtför þína er sorgin sár

af söknuði hjörtun blæða.

En horft skal í gegnum tregatár

í tilbeiðslu á Drottin hæða,

og fela honum um ævi ár

undina dýpstu að græða.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Elskulega fjölskylda, við sendum ykkur innilegustu samúðarkveðjur og biðjum Guð að styrkja ykkur á erfiðum stundum.

Blessuð sé minning elsku Teddu.

Erna S. Mathiesen
og fjölskylda.

Missirinn er mikill, sorgin sár og svo virðist sem engin orð geti lýst því hvers konar yfirburðamanneskja Tedda var. Mikið var ég heppin að fá að kynnast fallegu og góðu Teddu og vera vinkona hennar.

Ég er þakklát fyrir alla gleðina, vináttuna, samveruna og allar skemmtilegu stundirnar undanfarin ár. Við kynntumst fyrst þegar þið Davíð fóruð að máta ykkur saman og það var ótrúlegt hvað þú passaðir strax vel inn í vinahópinn, varst líklega púslið sem vantaði. Við áttum margar góðar stundir saman og kynntumst vel þegar við vorum saman í mastersnámi og það var ómetanlegt að eiga þig að sem námsfélaga og seinna sem vinkonu. Við vorum svo heppnar að deila áhugamáli og áttum óteljandi stundir saman á golfvellinum, bæði hérlendis og erlendis, í góðu veðri og slæmu veðri, gott golf og slæmt golf og allt þar á milli. Golfhópurinn okkar verður aldrei eins án þín. Það er ekki hægt að lýsa hve óraunverulegt og ósanngjarnt það er að þú sért farin frá okkur. Elsku Tedda, þú varst hjartahlý, geislandi, glaðlynd, brosmild, dugleg og með frábæra nærveru sem heillaði alla sem komust í kynni við þig. Þú munt alltaf vera hjá mér þó leiðir okkar hafi skilið að sinni. Takk fyrir samfylgdina.

Það er mikil sorg og söknuður sem fylgir því að kveðja góða og fallega vinkonu sem tókst á við veikindi sín með aðdáunarverðri seiglu og óþrjótandi bjartsýni. Ég sendi fjölskyldu Teddu og ástvinum allan minn kærleik og styrk á þessum erfiðu tímum. Sorgin og söknuðurinn er yfirþyrmandi en minningin um yndislega og einstaka konu lifir.

Edda Guðrún Pálsdóttir.

Hún Tedda okkar, Theódóra Friðbjörnsdóttir, lést laugardaginn 7. desember sl. Við höfðum fylgst með henni úr fjarlægð í nokkurn tíma glíma við þennan illvíga sjúkdóm sem hafði betur. Þessi harmafrétt var högg í hjörtu okkar allra sem kynntumst henni þó að vissulega værum við meðvituð um að baráttan væri óvægin.

Tedda og Davíð fluttu til Ólafsvíkur sumarið 2015 og byggðu sér fallegt heimili. Þau höfðu þá keypt hús sem þau gerðu að sínu, breyttu og bættu svo að eftir var tekið og varð mikil bæjarprýði. Tedda var mjög opinn persónuleiki og gefandi félagsvera þannig að hún átti auðvelt með að kynnast fólki og laðaði að sér fólk með hlýlegu viðmóti. Hún hafði húmor fyrir sjálfri sér og var ófeimin við að segja hrakfallasögur sem hægt var að hafa gaman af.

Tedda starfaði við Grunnskóla Snæfellsbæjar frá hausti 2015 til vors 2021 eða sex skólaár. Á þeim tíma gegndi hún fjölbreyttum störfum við skólann, m.a. sem umsjónarkennari, verkefnastjóri og sérkennari. Hún var fagleg og lausnamiðuð, axlaði ábyrgð á þeim verkefnum sem henni voru falin. Jákvæðni, hvatning og umhyggja fyrir náunganum eru eiginleikar sem samstarfsfólkið og þau sem kynntust henni rifja upp í minningu hennar. Henni var umhugað um árangur og líðan nemenda, sinnti þeim af alúð og umhyggju þannig að þeir minnast hennar með hlýju.

Hún var frumkvöðull í eðli sínu, fékk góðar hugmyndir og framkvæmdi þær. Sem dæmi má nefna að hún var áhugasöm við að innleiða upplýsingatækni í skólastarfið, t.d. notkun snjalltækja í kennslu, og var ein af þeim fyrstu hér á landi að nota og þróa „mystery skype“ í skólastarfi.

Tedda var tilfinningavera, með stórt hjarta og góða nærveru sem smitaði út frá sér í hópinn sem hún tilheyrði hverju sinni og var sannur vinur vina sinna. Fjölskyldan átti stóran hluta af hjarta Teddu og það leyndi sér ekki hvað Davíð, dæturnar og fjölskyldan öll voru henni.

Minningin um yndislegu Teddu okkar lifir og þakklæti fyrir allar góðu samverustundirnar jafnt innan sem utan skólastarfsins.

Hugur okkar er hjá Davíð, Birgittu, Emilíu og fjölskyldu hennar allri. Við sendum þeim fallegar hugsanir og innilegar samúðarkveðjur.

Hinsta kveðja frá starfsfólki Grunnskóla Snæfellsbæjar.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfin úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Vilborg Lilja Stefánsdóttir.