Snorri Másson þingmaður Miðflokksins segir að þrátt fyrir að stjórnarmyndunarviðræður Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins virðast ganga vel þyki sér ekki ólíklegt að sjálft ríkisstjórnarsamstarfið geti súrnað hratt.
„Mér finnst ýmislegt benda til þess að þetta gæti alveg súrnað með tímanum og jafnvel hratt og orðið flókið að hafa stjórn á þessum hópi í sameiningu í gegnum alls konar áskoranir sem blasa við. Ég veit ekkert hvernig það mun ganga, það getur enginn spáð fyrir um það, en maður getur ekki gefið sér að það verði jafn ljúft og þægilegt og einhverjar viðræður kunna að ganga,“ segir Snorri í nýjasta þætti Dagmála.
Snorri mætti í þáttinn ásamt Dagbjörtu Hákonardóttur þingmanni Samfylkingarinnar og var farið yfir ýmis mál eins og til dæmis útlendingamál, rétttrúnað, stöðu vinstrisins, umhverfismál og bann Breta við veitingu kynþroskabælandi lyfja til barna.
Dagbjört var spurð hvort herða ætti útlendingalöggjöfina enn frekar til þess að fækka hælisumsóknum en hún telur það ekki þurfa.
„Það voru auðvitað mjög veigamiklar breytingar gerðar í fyrra á löggjöfinni og sé ekki fyrir mér að það þurfi per se að gera einhverjar umframbreytingar á því,“ segir Dagbjört.