Steindór Tryggvason fæddist á Akureyri 9. september 1957. Hann lést á líknardeild Landspítalans 4. desember 2024.

Foreldrar Steindórs voru hjónin Þórunn Steindórsdóttir, f. 14. apríl 1932, d. 18. júlí 1998, og Tryggvi Kristjánsson, f. 14. júní 1921, d. 20. janúar 2010. Systkini Steindórs eru Helga, f. 1947, d. 2021, Kristján, f. 1954, Sigurbjörn, f. 1962, og María Albína, f. 1972.

Steindór ólst upp á Akureyri og lagði stund á frjálsar íþróttir og hlaup með skólagöngu, lærði íþróttafræði í Köln í Þýskalandi eftir stúdentinn frá MA. Síðar lærði hann iðntæknifræði á Íslandi og ökukennarann. Steindór starfaði við ýmis störf svo sem kennslu í stærðfræði, íþróttum og lengst við ökukennslu. Einnig starfaði hann hjá Iðntæknistofnun sem iðntæknifræðingur og þjálfaði frjálsar íþróttir, rútuakstur og leiðsögn erlendra ferðamanna. Steindór giftist Asta Jocaite 23. apríl 1997 og eignuðust þau eina dóttur, Lauru, 14. ágúst 1996. Þau bjuggu bæði á Íslandi og í Þýskalandi en skildu árið 2003.

Steindór var afar fróðleiksfús og var víðlesinn. Hann ferðaðist mikið, var mikill dýravinur, hafði mikinn áhuga á pólitík og heimsmálum. Hann spilaði bridge og var í bridge-félaginu Laufaásinn. Einnig lagði hann mikið upp úr hreyfingu og heilsusamlegu líferni. Auk þess hafði hann mjög gaman af því að segja sögur.

Útför Steindórs verður gerð frá Garðakirkju í dag, 16. desember 2024, og hefst athöfnin klukkan 15.

Kynni okkar Steindórs tæknifræðings og ökukennara hófust í janúar 1988 þegar við hófum nám í iðnrekstrarfræði og svo iðnaðartæknifræði í framhaldinu. Nokkrir félagar úr hópnum héldu sambandi eftir að námi lauk en 1998 flutti Steindór til Þýskalands og má segja að hann hafi þar með horfið sjónum okkar í nokkur ár, en Steindór flutti aftur heim til Íslands fimm árum síðar. Steindór útskrifaðist sem ökukennari vorið 2006 og þá hófst annar kafli í okkar vinasambandi, þá sem ökukennarar.

Steindór aflaði sér kennsluréttinda á alla flokka ökutækja. Hann kenndi á bifhjól í nokkur ár og hóf svo að kenna á stór ökutæki sem varð hans aðalatvinna síðustu árin.

Steindór tók virkan þátt í starfi Ökukennarafélags Íslands. Meðal ökukennara var Steindór einstaklega vel liðinn, mikill ljúflingur og góður félagi, alltaf stutt í brosið og hláturinn.

Í júní 2003 fórum við fjölskyldan á forláta húsbíl í ferðalag til Evrópu. Í þeirri ferð heimsóttum við og gistum í nokkrar nætur hjá Steindóri, sem bjó þá í Aschaffenburg í Þýskalandi. Hann var áhugasamur að sýna okkur um og síðasta daginn keyrði hann á undan okkur á sínum Mazda-skutbíl. Þann dag enduðum við á tjaldstæði í Rínardalnum. Steindór átti ekki neinn útilegubúnað svo hann keypti sér eins manns tjald sem hann gisti í. Steindór hafði dröslað með sér rúmdýnu að heiman, sem við náðum einhvern veginn að koma fyrir í tjaldinu. Það var nú ekki mikið pláss í tjaldinu þegar dýnan var komin þar inn en Steindór náði að koma sér fyrir ofan á dýnunni. Steindór hafði orð á því að hann hafi aldrei sofið betur en þessa nótt í litla tjaldinu sínu á tjaldstæði í Rínardalnum.

Steindór var einstaklega nægjusamur, traustur vinur og drengur góður.

Við vottum Lauru, systkinum og fjölskyldu okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Takk fyrir allt Steindór.

Björgvin Þór Guðnason.

Steindór fæddist á Akureyri 9. september árið 1957. Hann var íþróttafræðingur að mennt en hafði áhuga á að afla sér frekari menntunar og lauk námi í iðnfræði við Tækniskólann í Reykjavík. Hann aflaði sér síðar menntunar sem ökukennari við Kennaraháskóla Íslands og lauk prófi þaðan í desember árið 2006 með glæsilegum árangri. Fljótlega eftir það gekk Steindór til liðs við Ökukennarafélag Íslands og gerðist virkur félagi í þeim félagsskap.

Það var því mikill fengur fyrir félagið að fá slíkan afburðamann sem Steindór var í sínar raðir. Hann átti um alllangt skeið sæti í stjórn félagsins, bæði í aðalstjórn þess sem og varastjórn. Nú þegar andlát hans ber að höndum sat hann í varastjórn félagsins.

Steindór var, eins og oft er sagt, ljúfur drengur og í reynd hvers manns hugljúfi. Hann hafði mikla ánægju af að fást við alls konar útreikninga og stærðfræðiformúlur. Því var það mikill hvalreki fyrir okkar ágæta félagsskap, Ökukennarafélag Íslands, að fá slíkan snilling í sínar raðir en þessi þekking hans og áhugi nýttist sérstaklega vel þegar kom að því að fjalla um kraftafræði við stjórnun ökutækja sem og hemlunarskilyrði. Við uppbyggingu Ökuskóla 3 var alveg ómetanlegt að geta sótt þekkingu varðandi þessi atriði í smiðju til Steindórs.

Hann aflaði sér réttinda til kennslu fyrir alla réttindaflokka ökutækja og gat brugðið fyrir sig ökukennslu á öllum sviðum ökunáms. Hann starfaði alla tíð sem sjálfstæður ökukennari til b-réttinda (almennt ökunám) en inni á milli greip hann í bifhjólakennslu. Stóran hluta starfstíma síns starfaði hann við ýmsa ökuskóla, bæði við svokallað fræðilegt ökunám og þá til allra réttindaflokka ásamt því að sinna verklegu námi fyrir stærri ökutæki. Nú síðast starfaði hann einnig við Nýja ökuskólann, þar sem hann annaðist verklega kennslu. Þá má og geta þess að í námsferðum á vegum ökukennarafélagsins til Þýskalands sá Steindór stundum um að túlka fyrir hópinn það sem fram fór því hann var vel að sér í þýsku eftir að hafa starfað í Þýskalandi á árum áður.

Með þessum fátæklegu orðum viljum við kveðja góðan dreng og þakka honum samfylgdina og mikilvæg störf í þágu ökunáms á Íslandi.

Fjölskyldu hans sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Ökukennarafélags Íslands,

Arnaldur Árnason,
Guðbrandur Bogason.