Þingvallakirkja „Það eru tónleikahallir í öllum bæjum, og það eru kirkjurnar,“ segir Örn Elías, eða Mugison, sem hefur nú spilað í 100 kirkjum.
Þingvallakirkja „Það eru tónleikahallir í öllum bæjum, og það eru kirkjurnar,“ segir Örn Elías, eða Mugison, sem hefur nú spilað í 100 kirkjum. — Ljósmynd/Baldur Kristjánsson
Agnar Már Másson agnarmar@mbl.is

Agnar Már Másson

agnarmar@mbl.is

Tónleikaferðalagi Mugisons lauk í Hallgrímskirkju á laugardag en þá hafði hann spilað í hundrað kirkjum um land allt í hundrað póstnúmerum. Að loknum tónleikunum bað hann kærustu sinnar Rúnu Esradóttur fyrir framan hundruð tónleikagesta.

Mugison, réttu nafni Örn Elías Guðmundsson, hóf ferðalagið í apríl á heimaslóðum sínum á Vestfjörðum. Hann skellti síðan hátalaragræjum í skottið á sendiferðabíl auk gamla brotna gítarsins sem hann hefur leikið á í tvo áratugi, og hélt svo af stað í ævintýrið.

Segja má að hann hafi búið í sendiferðabílnum allan þann tíma, hafði komið þar fyrir koju og hitara. „Það var algjör lúxus,“ segir hann. „Það var virkilega kósí að geta verið bara inni í bíl og hitað sér kaffi og súpu. Svo hoppað inn í kirkju og hitt fólk. Þetta ferðalag var bara ævintýri. Ég er eiginlega hálfsorgmæddur yfir að þetta sé búið.“

Örn var yfirleitt einn á ferð en Rúna, sem er nú orðin unnusta hans eftir að hún tók bónorði Arnar á laugardag, fylgdi honum annað slagið. Reyndar kallar hann Rúnu „konuna sína“ þó að þau séu enn ekki gift, en þau hafa verið saman í 23 ár og eiga saman tvo drengi.

„Þetta var bara spontant hugmynd,“ segir Örn um trúlofunina. „Ég var ekki tilbúinn með neina ræðu. Þetta var að einhverju leyti bara unglingalegt hjá okkur. En við trúlofuðum okkur í gær [fyrradag]. Þetta er þá komið á dagskrá.“

Tónleikahallir eru alls staðar fyrir þá sem geta séð

En hvaðan kom hugmyndin að því að fara í hundrað kirkjur í hundrað póstnúmerum?

„Ég er ekki alveg viss,“ svarar Örn, sem telur að tónleikaferðalagið sé í raun „bræðingur“ af nokkrum hugmyndum. „Ég var einhvern tímann í febrúar eða mars í fyrra að öfundast út í Kaleo, Of monsters and men og Sigur rós, sem voru að spila úti um allan heim og gera „show“. Og ég hugsaði: Hvernig gerir maður „show“?“

Þá rann það upp fyrir honum: „Það eru tónleikahallir í öllum bæjum, og það eru kirkjurnar.“

Og þannig hófust kirkjufarirnar hundrað. Ferðalagið byrjaði rólega um vorið, segir Örn, en þegar komið var að sumri fyllti hann nánast hverja einustu kirkju. Örn segir að í 80% tilvika hafi verið „algjört sturlunarástand inni í þessum kirkjum“.

Þessi góða mæting kom Erni á óvart, þar sem hann auglýsti tónleikana lítið. „Ég skil ekki alveg hvernig allt þetta fólk vissi að ég væri í kirkjunum, en einhvern veginn spurðist þetta út.“

Stundum kom það þó fyrir að Örn seldi ekki réttan fjölda miða inn á tónleikana. „Ég er les- og skrifblindur,“ segir hann. „Þannig að ég var ekki alltaf með töluna á hreinu.“ Einu sinni seldi hann 30 miða í stað 130. Annað skipti seldi hann 80 miða þegar hann mátti aðeins selja um 50 og þá hafi verið setið á hverjum bekk, hverju hliðarskipi, á svölunum, á predikunarstól og jafnvel á grátunum. En stemningin varð meiri fyrir vikið.

Kraftaverk að vera lifandi

Erni finnst hann fá annan hóp á kirkjutónleikana en á stórtónleika í Háskólabíói eða Hörpu. Það sé önnur stemning í kirkju, oft mun persónulegri. „Og það er ekki bjór og svona,“ bætir hann við.

„Þarna eru stór móment í lífi fólks. Ég hitti fólk sem sagði „hérna giftum við okkur“ og „hérna jörðuðum við mömmu og pabba“,“ tekur hann fram.

Þar sé eins og allt verði aðeins ýktara, það sem er gróft verði aðeins grófara. Honum hafi þá stundum liðið furðulega að flytja klámvísuna „Gúanó stelpan“ í húsi drottins. „Maður skammast sín eiginlega smá en samt er það smá skemmtilegra.“

Þrátt fyrir kirkjuferðirnar 100 kveðst Örn ekkert sérstaklega trúaður, segist trúa fyrst og fremst á meðvirkni. „Ef ég hitti trúað fólk er ég trúaður þann daginn, en ef ég er nógu lengi einn fer ég að efast mjög mikið,“ segir hann. „En ég trúi alveg á einhvers konar kraftaverk að vera lifandi.“