Halldóra Sigríður Hallfreðsdóttir, Góa, fæddist 27. janúar 1941. Hún lést 6. desember 2024.
Útför Góu fór fram 12.desember 2024.
Hvernig kemur maður í orð öllu því sem maður vill segja en veit ekki hvar á að byrja? Okkar besta amma Góa kvaddi þann 6. desember. Amma Góa sem var alltaf mætt í hvað sem það var sem tengdist okkur ömmubörnunum. Hún var okkar helsta stuðningskona í öllu. Amma Góa var mikill húmoristi og hló manna hæst að góðum brandara. Hún gerði allt með okkur, hvort sem það var að baka, föndra hvaða skraut sem kom upp í hugann enda mikil listakona sjálf. Fara og kaupa blóm og gróðursetja í Ömmukofa í Kjós. Fara í eltingaleik, kollhnís, drífa sig með okkur í rússíbana eða skjóta upp með okkur flugeldum. Að smakka nýjasta ísinn var mikilvægt enda sameiginlegur ísáhugi milli okkar allra. Amma Góa var bara alltaf með. Við fengum alls konar verkefni þegar við vorum hjá henni og Gunnari afa uppi í Ömmukofa, hvort sem það var að sækja Gunnar afa í kaffi, búa til báta svo hægt væri að sigla þeim á tjörninni, vaða yfir ána og athuga með hestana og gefa þeim brauð eða nammi. Hún töfraði fram hvern bátinn á fætur öðrum, bakaði draumaafmæliskökur og passaði að alls konar furðuverur feldu sig á lóðinni uppi í Ömmukofa. Síðan breyttist allt – amma Góa slasaðist alvarlega 2006 og við tók langt bataferli. En hún hélt samt alltaf í húmorinn, vildi vita allt sem var í gangi hjá okkur. Hún hélt áfram að mála, tálga, baka og ferðast með okkur. Núna vitum við að þú ert komin til Gunnars afa og eruð þið loksins saman í reiðtúr, Gunnar afi á Krumma og þú á Trítli.
Takk fyrir allt og við biðjum að heilsa.
Ömmupúkar,
Gunnar Ingiberg,
Snædís Góa og
Egill Reynir.
Elsku amma Góa.
Það eru margar góðar minningar sem við eigum um þig. Þú bakaðir svo góðar kökur, áttir alltaf ísblóm í frystinum og súkkulaðirúsínur í skálinni. Þið afi Gunnar áttuð fallegan sumarbústað í Kjósinni og þangað var alltaf svo gaman að koma. Skemmtilegast var að sulla í andatjörninni sem þú bjóst til, leika í dúkkukofanum og vaða í ánni. Okkur fannst líka gaman að fara með þér í berjamó. Þið afi kennduð okkur að sitja hest en okkur fannst oft skemmtilegra að borða kex á kaffistofunni en að hjálpa til við að moka út.
Þú varst góð og hlý amma sem við söknum mikið. Við geymum minningu um góða ömmu í hjörtum okkar alla tíð og erum þakklát fyrir að hafa fengið að kveðja þig með kossi. Nú hittir þú afa og Figó sem taka vel á móti þér.
Leiddu mína litlu hendi,
ljúfi Jesús, þér ég sendi
bæn frá mínu brjósti, sjáðu,
blíði Jesús, að mér gáðu.
Hafðu gát á hjarta mínu
halt mér fast í spori þínu,
að ég fari aldrei frá þér,
alltaf, Jesús, vertu hjá mér.
Um þig alltaf sál mín syngi
sérhvern dag, þó eitthvað þyngi.
Gef ég verði góða barnið,
geisli þinn á kalda hjarnið.
(Ásmundur Eiríksson)
Þín,
Freyja, Orri og Dagný.