Jón Sigurgeirsson
Við höfum tvenns konar réttarfarslög hér á landi. Við þekkjum að enginn er sekur nema sekt sé sönnuð í dómsmáli. Þannig er réttarfarið í refsimálum. Í einkamálum verður að finna lausn í deilum manna og oft dæmt eftir því hvað hefur meiri líkur með sér.
Samkvæmt lögum um nálgunarbann er sá sem lúskrað hefur á einhverjum kallaður sakborningur og málið fer eftir lögum um meðferð sakamála.
Ég tel þetta fáránlegt. Þolanda ofbeldisins stendur ógn af viðkomandi og í sumum tilfellum hefur brotaþoli þurft að flýja land eða til annars landshluta. Finnst einhverjum að hagsmunir ofbeldismannsins séu svo miklir að þeir vegi meira en hagsmunir brotaþola um að mega um frjálst höfuð strjúka? Dæmi eru um að brotamaður hafi myrt brotaþolann. Hvort sem hann gerir það eða ekki hljóta margir brotaþolar að vera í stöðugum ótta, ótta sem eyðileggur líf þeirra. Hámarksnálgunarbann er eitt ár. Finnst mönnum það í lagi? Það má ekki framlengja nema brotaþola hafi verið ógnað, og hann verður að sanna það samkvæmt refsilögum.
Ég vil sjá lög sem rekin eru sem opinber mál, þ.e. á kostnað ríkisins,
en sönnun verði samkvæmt einkamálalögum þar sem hagsmunir aðila eru metnir og dæmt af líkum. Ef brotið er samkvæmt þeim ákvæðum
sem tilgreind eru í lögum um nálgunarbann er augljóst hvaða hagsmunir vega meira. Ef þolandinn hefur sýnt einkenni ofbeldis eru líkur meiri um að frásögn þolanda eigi við rök að styðjast.
Eitt ár er allt of stuttur tími. Ég spyr: er ekki hægt að láta ofbeldismanninn sæta geðrannsókn áður en banninu er aflétt? Þá þyrfti ofbeldismaðurinn að sanna í þeirri rannsókn að ekki stafi ógn af honum.
Ef maður brýtur gegn slíku banni ætti að setja á viðkomandi ökklaband sem greinir ferðir hans.
Konur krefjast jafnréttis. Einn mikilvægasti þáttur í því, og sá sem lengst á í land, er að þeim standi ekki slík ógn af ofbeldismönnum. Það finnst mér réttlát krafa, m.a. vegna þess að ég hef kynnst hjá nánu fólki þeim takmörkunum á frelsi sem óttinn við ofbeldismann veldur.
Þetta er einfalt. Ofbeldi takmarkar frelsi manna. Viljið þið að takmörkunin nái aðeins til ofbeldisþola eða viljið þið að takmörkunin verði á ferðum ofbeldismannsins? Mitt svar er augljóst. Hvað finnst þér?
Höfundur er aldraður lögfræðingur.