Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
Íhaldsflokkurinn danski, sem situr í stjórnarandstöðu eftir kosningarnar í nóvember 2022, er þeirrar skoðunar, samkvæmt flokksformanninum Monu Juul, að orkuskipti í landinu gangi of hægt fyrir sig.
Sem leið til úrbóta leggur flokkurinn til að fjögurra áratuga banni danskra laga við raforkuframleiðslu með kjarnorku verði aflétt. Sjálfbærir og grænir orkugjafar á borð við vinda og sjálfa sólina afkasti ekki þeirri rafmagnsframleiðslu sem Danmörk krefst og því skuli landið taka kjarnorkuna í sína þjónustu. Þetta segir Juul í samtali við dagblaðið Jyllands-Posten.
„Ég hef fullkominn skilning á því að þetta verða þung spor eftir að búið er að tuða eyru okkar full af því hve háskaleg kjarnorkan sé. Tækninni hefur hins vegar fleygt fram og nú er okkur nauðugur einn kostur að binda trúss okkar við aðrar leiðir en jarðefnaeldsneyti,“ segir flokksformaðurinn enn fremur við blaðið.
Orkueyjar gera skráveifu
„Dugi vindur og sól okkur förum við bara þá leiðina, frábært,“ eða „super duper“ eins og formaður Íhaldsflokksins orðar það. „En ég sé ekki glóruna í því að útiloka eina framleiðsluaðferð algjörlega.“
Máli sínu til stuðnings bendir Juul á að svokallaðri orkueyju í Norðursjónum hafi í ágúst verið frestað og verði hún fyrst til reiðu árið 2036. Önnur orkueyja, í því tilfelli Borgundarhólmur, hafi þegar tvöfaldað kostnaðaráætlun sína og muni því kosta 31 milljarð danskra króna, jafnvirði 606 og hálfs íslensks milljarðs.
Í viðtali við viðskiptablaðið Børsen í fyrra dró Juul ekki fjöður yfir að stríðsástand í Úkraínu og Mið-Austurlöndum, að ógleymdri loftslagsógn, þrýsti á skjóta lausn mála og hún ætlaði sér ekki að vera neinn dragbítur á þá lausn. Er það viðtal var veitt var hún þó ekki orðin formaður Íhaldsflokksins, það sæti vermdi þá Søren Pape Poulsen heitinn.
Danska loftslagsráðið, samkoma sérfræðinga sem eru ríkisstjórn landsins til ráðgjafar í málaflokknum, gaf það hins vegar út í fyrra að kjarnorka væri hvorki nauðsynleg né „kostnaðarhagkvæm lausn“.
Juul telur ráðið hins vegar vaða í villu og svíma, ráðsmenn hafi ekki reiknað með allri þeirri gjörbreytingu á iðnaðar- og flutningageira Danmerkur sem standi fyrir dyrum. Formaður ráðsins, Peter Møllgaard, tekur hins vegar til varna og vísar þeirri fullyrðingu Juul á bug.