Menntakerfi Íslenskir nemendur hafa ekki tekið þátt í TIMSS-könnuninni frá árinu 1995. Þátttökulönd fengu niðurstöður í byrjun mánaðar.
Menntakerfi Íslenskir nemendur hafa ekki tekið þátt í TIMSS-könnuninni frá árinu 1995. Þátttökulönd fengu niðurstöður í byrjun mánaðar. — Morgunblaðið/Karítas
Í brennidepli Hólmfríður María Ragnhildard. hmr@mbl.is

Í brennidepli

Hólmfríður María Ragnhildard.

hmr@mbl.is

Nýjar niðurstöður reglulegrar könnunar, þar sem lögð er áhersla á stærðfræði og náttúruvísindi, hafa varpað meira ljósi á stöðu menntamála á Norðurlöndum, að Íslandi undanskildu.

TIMSS-könnunin (Trends in International Mathematics and Science Study) er lögð fyrir nemendur á fjögurra ára fresti, síðast vorið 2023 og tóku þá 64 lönd þátt í henni. Bárust niðurstöðurnar í byrjun þessa mánaðar. Öll lönd á Norðurlöndum hafa lagt könnunina fyrir nemendur sína frá upphafi árið 1995, fyrir utan Ísland sem hefur aðeins tekið þátt einu sinni.

Bilið milli nemenda breikkar

Finnskir nemendur komu sem endranær nokkuð vel út úr TIMSS-könnuninni. Eru niðurstöður þeirra yfir meðaltali annarra ríkja sem tóku þátt, þrátt fyrir að þær hafi lækkað lítillega síðustu ár. Meðal nemenda í fjórða bekk voru 18 lönd með hærra meðaltal í stærðfræðihluta könnunarinnar og aðeins níu í náttúruvísindahlutanum. Meðal nemenda í áttunda bekk voru 14 lönd með hærra meðaltal í stærðfræðihluta könnunarinnar og einungis fjögur með hærra meðaltal í náttúruvísindahlutanum.

„Finnsk skólabörn eru enn sterk á sviðum stærðfræði og náttúruvísinda,“ greinir finnski ríkismiðillinn Yle frá.

En þrátt fyrir að heildarmeðaltalið komi vel út hafa Finnar áhyggjur af því að munurinn á þeim nemendum sem gengur vel annars vegar og illa hins vegar haldi áfram að aukast.

„Færni þeirra sem gengur illa minnkar mest,“ hefur Yle eftir Jouni Vettenranta, rannsakanda við menntavísindastofnun háskólans í Jyväskylä. Þá segir hann þeim nemendum fjölga sem standa illa að vígi í raungreinum. Hefur Vettenranta áhyggjur af þeirri þróun.

Norski menntamálaráðherrann kveðst óánægður með niðurstöður norskra nemenda. Ríflega fimm þúsund fjórðu bekkingar tóku þátt fyrir hönd Noregs og ríflega sex þúsund nemendur í áttunda bekk.

Frammistaða margra sýndi að þeir byggju yfir lítilli þekkingu í stærðfræði og náttúruvísindum. Frammistaða nemenda í áttunda bekk var þó svipuð og í síðustu rannsókn á meðan frammistaða nemenda í fjórða bekk var aðeins verri, að því er NRK greinir frá.

„Við getum ekki sætt okkur við þá staðreynd að 43 prósent nemenda í níunda bekk séu á neðsta þrepi í náttúruvísindum,“ er haft eftir menntamálaráðherranum Morten Rosenkvist í yfirlýsingu til fjölmiðla vegna niðurstaðnanna.

Stúlkur eftirbátar drengja

Norðmennirnir eru ekki einir á báti en Danir hafa einnig áhyggjur af sínum nemendum sem hafa sýnt sífellt verri frammistöðu í stærðfræði og náttúruvísindagreinum í könnuninni frá árinu 2015.

Rune Müller Kristensen, dósent í menntunarfræðum og einn af rannsakendunum á bak við TIMSS, segir niðurstöðurnar valda áhyggjum og nefnir sérstaklega þann mun sem er á frammistöðu stúlkna og drengja í stærðfræði.

„Frá 2007 til 2019 höfum við séð lítinn en stöðugan mun á færni drengja og stúlkna, en nú hefur hann tvöfaldast,“ er haft eftir Kristensen í umfjöllun danska ríkismiðilsins.

„Þetta samsvarar því að stelpurnar séu um það bil hálfu eða fjórðungi af skólaári á eftir drengjunum í stærðfræði þegar nemendur fara í fjórða bekk,“ bætir hann við.

Kristensen tekur fram að þessi tölfræði merki þó ekki að drengirnir standi sig með prýði, þvert á móti standi danskir nemendur, strákar og stelpur í fjórða bekk, sig verst í könnuninni samanborið við nemendur í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.

Meðaltal drengjanna hækkar þó ögn miðað við síðustu könnun, sem lögð var fyrir 2019, á meðan meðaltal stúlknanna lækkar frá síðustu könnun og hefur aldrei verið lægra.

Frammistaða drengja og stúlkna var nánast óbreytt í náttúruvísindum frá því að könnunin var lögð fyrir árið 2019. Komu stúlkur jafnframt aðeins betur út í því fagi.

Góðar fréttir í Svíþjóð

Þegar komið er til Svíþjóðar gætir bjartsýni. Ólíkt þeirri þróun sem sést annars staðar á Norðurlöndum, og raun víðast hvar í heiminum, tóku nemendur miklum framförum í stærðfræði samanborið við fyrri ár. Nemendur í áttunda bekk hafa ekki staðið sig jafn vel í þessari könnun á þessari öld. Þá hafa nemendurnir í fjórða bekk aldrei staðið sig eins vel og á síðasta ári.

„Í dag geta ekki bara nemendurnir sem tóku þátt, heldur líka allir stærðfræðikennarar, verið stoltir vitandi af þeim framförum sem hafa átt sér stað í sænskum skólum,“ er haft eftir Önnu Castberg, sem er yfir greiningardeild sænsku menntamálastofnunarinnar.

Eins og í Danmörku stóðu sænskir drengir sig betur í stærðfræði en stúlkurnar. Castberg segir óljóst hvers vegna þetta gæti verið en bendir á að víðast hvar í heiminum komi drengir betur út í þessu fagi.

Í fyrri könnunum hafa sænskir nemendur verið undir meðaltali ríkja Evrópusambandsins og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í stærðfræði, en annað er uppi á teningnum í dag. Frammistaða nemenda í fjórða bekk er nú svipuð meðaltali nemenda annarra ríkja Evrópusambandsins og OECD. Frammistaða nemenda í áttunda bekk er þó langt yfir meðaltalinu og eru þeir meðal tíu efstu þjóðanna.

Það sem veldur þó áhyggjum er, að sögn Castberg, sá mikli munur sem er á frammistöðu þeirra nemenda sem standa sig best og verst.

„Það er alvarlegt hvað það ríkir mikill munur á milli nemenda. Við þurfum að gera meira til að brúa bilið,“ er haft eftir Castberg í sænska ríkismiðlinum.

Lítil breyting er á frammistöðu nemenda í náttúruvísindahlutanum frá könnuninni 2019. Er frammistaða nemenda þar enn yfir meðaltali ríkja Evrópusambandsins og OECD.