Þuríður Anna Steingrímsdóttir fæddist 28. júlí 1943. Hún lést 30. nóvember 2024.
Útför hennar fór fram 12. desember 2024.
Elsku mamma.
Að þú skulir vera farin frá okkur hryggir mig mjög. Sem lítill strákur ætlaði ég að fara með þér í kistuna, því án
þín vildi ég ekki vera og vil ekki enn. Að leita til þín var alltaf yndislegt og ráðin góð. Og samvera með ykkur pabba hefur hjálpað mér mikið í gegnum tíðina og mun ég sakna þeirra liðnu samverustunda mikið.
Það var alltaf gaman að koma og spjalla um fiskbúðina, pólitíkina og allt annað sem bar á í lífinu, því yndisleg ráðin þín voru
alltaf hlý og góð, enda varst þú mjög jákvæð og yndisleg manneskja.
Betri mömmu var ekki hægt að hugsa sér, það er ég 100% viss um, því þú varst falleg, hlý og góð. Að koma til ykkar pabba í hádeginu, á kvöldin eða um helgar gerði mikið fyrir mig, Huldu og börnin enda kærleikurinn allsráðandi og þú svo ánægð með þau öll. Elsku mamma. Hvíl í friði, vonandi með ömmum, öfum og öllum hinum sem fallnir eru frá. Sjáumst síðar, elsku mamma.
Þinn
Steingrímur Ólason.
Elsku tengdamóðir mín Þurý lést þ. 30.11. 2024 á líknardeildinni í Kópavogi umvafin eiginmanni og börnum. Mig langar aðeins að minnast hennar.
Óli og Þurý áttu yndislega ævi saman. Til þeirra var ljúft að koma og spjalla. Nú tekur Óli á móti okkur með sorg í hjarta, svo fallegt var þeirra hjónaband. Allar helgar var bakkelsi á borðum því börnin þeirra lögðu leið sína í kaffi annaðhvort laugardag eða sunnudag. Ef Þurý og Óli sáu fram á að vera ekki heima um helgina þá var hringt í alla til að láta vita af því.
Hún Þurý var svo dugleg í höndum hvort sem það var við eldamennsku, bakstur, nú eða við að prjóna á alla kringum sig og fengu mín barnabörn að njóta líka. Við Þurý kynntumst þegar Steini sonur hennar og ég hófum samband fyrir rúmlega 15 árum, og ekki var hægt að hugsa sér betri tengdamóður.
Elsku Þurý mín, ég þakka fyrir dásamleg kynni og mun sakna þín og minnast um ókomna tíð.
Kveðja, þín tengdadóttir,
Hulda Salómonsdóttir.
Ég kynntist Þurý seint á því herrans ári 2008 þegar ég fór að vera með Rúnu minni.
Þegar ég kom fyrst í Kvistalandið man ég sérstaklega hvað hún hafði þægilega og góða nærveru og ég fann hvað mér fannst það notalegt.
Ég var strax boðinn velkominn af bæði Þurý og Óla og náðum við alltaf mjög vel saman.
Þurý var alltaf brosandi, yndisleg og hlý.
Það var ekki til það skipti sem maður leit inn í Kvistalandið og seinna Efstaleitið þar sem ekki var búið að töfra fram hlaðborð af brauði, kökum, pönnsum og við gleymum ekki túnfisksalatinu.
Sumar í Kvistalandi, Þurý á fjórum fótum í beðunum eða túninu og Óli með skóflu eða einhver garðáhöld enda garðurinn ykkar einn sá allra glæsilegasti sem ég hef augum litið.
Eftir að þið fluttuð úr Kvistalandinu í Efstaleiti var það sumarbústaðurinn ykkar flotti; Brimborg. Það var unun að fylgjast með þessum litla kofa sem hann var í upphafi verða að stórglæsilegu sumarhúsi/heilsárshúsi í höndunum á ykkur.
Auðvitað varð umhverfið líka stórkostlegt eftir að þið fóruð höndum um það.
Ferðirnar með ykkur til Parísar og New York voru einstaklega góðar og mikils virði.
Það er með miklum söknuði sem ég kveð þig elsku Þurý, það er stórt skarð sem eftir stendur við fráfall þitt.
Kæri Óli, Rúna, Þórður, Arna, Steini, Hulda, Ásta Dís, Jakob, barnabörn, barnabarnabörn og systkini, megi góður guð styrkja ykkur og varðveita.
Þinn tengdasonur,
Erlingur Jónsson.
Elsku besta, dásamlega Þurý amma mín hefur kvatt þennan heim.
Ég veit ekki hvar ég á að byrja, hún var ekki bara amma mín, hún var ein af mínum allra bestu og nánustu vinkonum ásamt því að eiga mikið í mér, enda áttum við ófáar stundir saman í gegnum árin, bæði í Kvistalandi og svo seinna í Efstaleiti.
Það var alltaf svo hlýtt og notalegt að koma til ömmu og afa og við gátum setið klukkutímunum saman og spjallað, yfirleitt sátum við það lengi að ég sagðist ætla að koma heim á ákveðnum tíma en mætti svo 1-3 klukkutímum seinna en áætlað var.
Amma var einstök kona, hún var alveg ofboðslega klár að prjóna, hekla og sauma og það kemst aldrei neinn með tærnar þar sem amma hafði hælana í prjóninu, þvílík listaverk sem hún gat búið til, og það á alveg ótrúlega stuttum tíma. Henni var líka margt til lista lagt í eldhúsinu og hélt ég alveg sérstaklega upp á pönnukökurnar, kartöflumúsina, steikta fiskinn og svo má auðvitað ekki gleyma grjónagrautnum. Amma kenndi mér ótrúlega margt í gegnum tíðina og þau voru ófá skiptin sem ég hringdi í ömmu til þess að fá ráð eða spyrja að hinu og þessu, sem yfirleitt endaði svo með klukkutíma spjalli um lífið og tilveruna.
Þegar ég var yngri gisti ég oft hjá ömmu og afa í Kvistalandinu. Það stóð alltaf til boða að sofa ein í „stóra herberginu“ ég hélt nú ekki og alltaf var beddinn dreginn fram fyrir mig og honum komið fyrir við hliðina á ömmu, svo lágum við saman og lásum þangað til að við vorum orðnar þreyttar. Þá leiddumst við inn í draumalandið og amma hvíslaði „guð geymi þig, ástin mín“ áður en við sofnuðum.
Ég minnist þess þegar ég var um fjögurra ára og var með ömmu og afa úti í garði í Kvistalandi að reyna að segja þeim hversu mikið ég elskaði þau og ég horfði á tréð, sem fyrir mér náði til himins og sagði: „Ég elska ykkur meira en stóra tréð.“
Þegar ég var átta ára fékk ég bók í jólagjöf frá Rúnu frænku sem heitir Amma segðu mér og eyddum við amma mörgum stundum saman í gegnum árin við fylla hana út. Það var gaman að heyra allar sögurnar af ömmu og kynnast henni sem barni og ungri konu. Því miður náðum við ekki að klára alla bókina og munum við afi setjast niður saman og klára hana einn daginn.
Ég er ofboðslega þakklát fyrir að bæði börnin mín hafi náð að kynnast ömmu sinni og hún og Tinna María áttu mjög fallegt samband. Við Óli afi munum svo sjá til þess að Styrmir Óli muni líka vita hversu yndisleg og góð langamma hans var.
Takk, elsku amma mín, fyrir öll prjónalistaverkin sem ég á fyrir mig og börnin mín. Takk fyrir allar dýrmætu samverustundirnar, öll ráðin og gleðina í gegnum árin.
Elsku besta vinkona og amma mín, ég verð líklegast aldrei alveg sátt við að þurfa að kveðja þig að mínu mati alltof snemma, en á sama tíma er ég full af þakklæti fyrir þann tíma sem við fengum saman.
Ég elska þig meira en stóra tréð og ég ég hlakka til að hitta þig aftur, elsku besta amma mín.
Guð geymi þig þangað til, takk fyrir allt.
Þín
Jóhanna Helga, Geir Ulrich, Tinna María
og Styrmir Óli.
Mig langar að minnast elsku bestu ömmu minnar með nokkrum orðum.
Amma hefur nú kvatt sinni hinstu kveðju.
Ég á ótal margar ljúfar og skemmtilegar minningar um ömmu.
Öll jólaboðin í Kvistalandinu hjá ömmu og afa.
Amma bakaði heimsins bestu pönnukökur og kökurnar hennar voru þær bestu í heimi.
Amma hafði svo sannarlega græna fingur, það sást best á garðinum hennar. Hann var svo glæsilegur og stóra tréð sem allir muna eftir.
Amma var líka ótrúleg handverkskona, prjónaði og heklaði endalaus listaverk bæði á mig, stelpurnar mínar, barbídúkkurnar þeirra og dúkkur.
Þú varst alltaf svo góð elsku amma mín, ég á eftir að sakna þín svo mikið.
Þú varst besta amma sem nokkur hefði getað hugsað sér að eiga, ég mun alltaf hugsa hlýtt og fallega til þín.
Vona svo innilega að þér líði vel þar sem þú ert núna.
Elsku afi minn, minningin um fallegu góðu ömmu mun lifa í hjörtum okkar allra.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni.
Sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sigurður Jónsson)
Elska þig endalaust.
Þín
Hanna Þurý.
Amma var alveg einstök kona, brosmild, góðhjörtuð og hlý og lýsti upp öll rými sem hún steig fæti inn í.
Ég er svo innilega þakklát fyrir allar ógleymanlegu stundirnar sem ég hef átt með ömmu síðustu 19 árin og allar þær fallegu minningar sem við sköpuðum á þeim tíma sem við áttum saman.
Við systurnar vorum báðar mikið hjá ömmu og afa þegar við vorum yngri og það er svo fallegt að hugsa til þess hvað þessi yndislega kona passaði vel upp á okkur af mikilli nærgætni og ást.
Ef ég var þreytt og köld eftir fótboltaæfingar fór ég til ömmu.
Ef ég var veik þá passaði amma upp á mig og ef ég þurfti ráð við hverju sem er hringdi ég í ömmu.
Það skipti engu máli hvað það var, ég gat alltaf stólað á ömmu að vera til staðar og það er mér mikill heiður að bera fallega nafnið okkar.
Elsku yndislega amma mín, orð fá því ekki lýst hvað ég sakna þín mikið á hverjum degi.
Þar til við sjáumst næst, fallega nafna mín.
Elska þig meira en stóra tréð.
Þín
Þuríður Anna (Þurý).
Elsku amma mín.
Mín helsta fyrirmynd, guðmóðir og trúnaðarvinkona.
Ég á erfitt með að koma því í orð hversu mikilvæg þú varst og ert enn í lífi mínu.
Þó að ég hafi vitað í hvað stefndi hélt ég að við hefðum meiri tíma. Jólin hef ég aldrei haldið án þín. Mér fannst þú
eilíf og ég á erfitt með að ná utan um það að þú sért ekki í Efstaleitinu að prjóna og hlusta á hljóðbók. Þú barðist af öllu afli og gerðir allt sem stóð þér til boða að gera. Ég er svo stolt af þér, amma mín.
Þú ert sú fyrsta sem ég vildi tala við um það sem gekk á í lífi mínu. Þegar ég tók mig til og hreinsaði garðinn hjá Mikael, Emmu og Theu þá hafði ég samband við þig. Hvað myndi henta best í garðinn, hvernig get ég gert þetta fallegt og hvað finnst þér, amma mín? Ef mér datt í hug að hekla eitthvað talaði ég við þig og í síðustu heimsókn minni til þín í Efstaleitið spurðir þú mig hvort ég væri nú ekki með einhverja handavinnu. Allt sem ég heklaði kom í eftirlit til þín, enda varstu alltaf með góð ráð og hvattir mig til dáða. Þær stundir er við sátum inni í stofu að hekla, prjóna og spjalla mun ég varðveita þar til við hittumst aftur.
Þegar ég ákvað að segja frá mínu dýpsta leyndarmáli þá sagði ég þér fyrst – ég man hvað þú horfðir djúpt í augun á
mér og fullvissaðir mig um að þetta væri allt í lagi. Þú gafst mér kjark til þess að vera ég sjálf og fyrir það er ég þér ævinlega þakklát.
Takk fyrir að vera til staðar fyrir mig, að veita mér öryggi og ró, takk fyrir hvatninguna, spjallið, ráðin, umhyggjuna og ástina, takk fyrir þín síðustu orð til mín. Ég elska þig.
Allt í lagi, amma mín, bless í bili.
Ísabella Anna.