Hið ljúfa líf
Stefán Einar Stefánsson
ses@mbl.is
Kosningar að baki. Margir vígamóðir. Sumir sigri hrósandi en aðrir niðurlútir. Það er lýðræðið. En allir lifðu af. Það er kosturinn við stjórnmálin, forréttindi sem stríðandi fylkingar búa ekki við. Þess sjáum við stað á of mörgum stöðum, vítt og breitt um heiminn.
Í aðdraganda kosninganna var ég oft spurður út í það hverju menn ættu að súpa á þegar fyrstu tölur kæmu í hús. Og svarið var alltaf það sama. Winston Churchill Cuvée frá Pol Roger. Mér finnst það augljóst og ástæðurnar eru nokkrar. Kampavín sem kennt er við Churchill er pólitískt í eðli sínu. Hann háði marga hildina á því sviði, fyrir utan auðvitað orrusturnar sem hann leiddi þjóð sína í gegnum, fyrst sem flotamálaráðherra í fyrri heimsstyrjöldinni og sem slíkur og í embætti forsætisráðherra á tímum seinna heimsstríðsins.
Á góðu verði
Önnur og ekki síðri ástæða er sú að verðið á þessu einstaka kampavíni er í meira lagi hóflegt hér á landi. Innnes verður ekki sakað um að okra á fólki sem kann mjög gott að meta í kampavíni. Í Vínbúðunum er gegnum sérpöntun hægt að fá flösku af Churchill á 24.990 kr. Og þótt kosningar séu nú að baki er full ástæða til þess að gefa þessu víni gaum. Hátíðarnar nálgast og þá má gera vel við sig. 2012-árgangurinn sem nú er í sölu hér á landi (2015 er komið á markað en ekki hér heima), er afskaplega ljúffengur og vel heppnaður. Margbrotið, marglaga vín sem breytist í glasinu og gefur vínunnendum tækifæri til þess að fara í ferðalag „innan“ vínsins.
Enn önnur ástæða til þess að hafa Churchill sér við hlið er að maður mun alltaf blikna í neyslunni í samanburði við karlinn. Richard M. Langworth, sem rannsakað hefur sögu forsætisráðherrans og stríðsherrans heldur því fram, og færir ágæt rök fyrir máli sínu, að Churchill hafi drukkið samanlagt 42.000 flöskur af kampavíni meðan hann lifði – enginn veit hvað hann hefur drukkið af þessum herlegheitum á himnum, en ljóst má vera að kampavín er á borðum þar.
Ný sería
Og þá komum við að öðru atriði sem mikilvægt er að færa í orð á þessum tímapunkti. Ný fjögurra þátta sería sem segir sögu Churchills í síðari heimsstyrjöldinni leit dagsins ljós á Netflix þann 4. desember síðastliðinn. Þarna er um frábært efni að ræða en höfundar blanda saman leiknu efni og upptökum af Churchill sjálfum og stríðstímunum á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar.
Allir áhugamenn um Churchill og stríðið ættu að renna augum yfir þetta efni. Vissulega er mikið framboð af þáttum og kvikmyndum sem taka á sama efni en jafnvel þeir sem kafað hafa djúpt í þau fræði geta lært margt nýtt og auðvitað barið augum ýmislegt kvikmyndaefni sem þarna er birt og hefur ekki víða komið fyrir augu almennings áður.
Auðvitað má súpa á góðu kampavíni yfir þessum þáttum. Og er ekki eins gott að það sé Churchill Cuvée 2012.