Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Línuskip Vísis hf. í Grindavík, Sighvatur GK-57, er með mesta afla allra línuskipa í ár og þótt lengra væri litið aftur í tímann, en aflinn er um 5.600 tonn af óslægðu. Rúmlega helmingur aflans þetta árið er þorskur og um fimmtungur ýsa. Aflaverðmætið er um 1.375 milljónir króna, skv. upplýsingum frá útgerð skipsins.
„Það er búið að ganga mjög vel,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vísis í samtali við Morgunblaðið og segist mjög sáttur við að um 70% aflans séu í þorski og ýsu.
„Við höfum stöku sinnum slegið í 5 þúsund tonn, en ekki farið svona hátt áður,“ segir hann og kveðst ekki vita af neinu skipi sem hafi náð jafn miklum afla á línu í ár og Sighvatur GK.
„Það eru gleðitíðindi fyrir mig og mína áhöfn þegar vel gengur, en ég hef ekkert verið að velta mér upp úr því,“ segir Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson, skipstjóri á Sighvati GK, þegar rætt við hann á heimstíminu um metafla skipsins í ár.
Hann segir að í byrjun vikuúthaldsins hafi skipið verið á veiðum í Kolluál og fengið þar ýsu, löngu og þorsk, en síðan fært sig yfir á Breiðafjarðarflákann og fengið þar stóran þorsk og ýsu.
Hann segir að veiðin hafi verið góð í túrnum og aflinn verið 15-20 tonn á dag. Skipið landar venjulega einu sinni í viku nema það hafi fyllt sig áður.
Þegar rætt var við Aðalstein í gær var Sighvatur GK á leiðinni í land og að því stefnt að landa í Grindavík í dag, miðvikudag. Aflinn er um 320 kör, á að giska um 120 tonn upp úr sjó sem hann segir mjög gott. Upppistaðan á þessum árstíma er þorskur og ýsa.
„Ef maður fer yfir 45 kör eða 15 tonn á dag, þá er það mjög gott, en ef menn fá of mikið og of lengi, þá finnst þeim ekkert nógu gott nema algert mok. Við erum þannig mannskepnan að við erum fljótir að gleyma okkur í græðginni,“ segir hann.
Áhöfnin telur 14 manns í hverjum róðri en tvö gengi eru á skipinu, þannig að fjöldi áhafnarmeðlima er 28 karlar í heild.
„Það væri ekki hægt að veiða svona mikið nema að vera með hörkumannskap. Þetta byggist á því að vera með góða menn í öllum stöðum,“ segir Aðalsteinn.
Alls hefur Sighvati GK verið haldið úti í 290 daga það sem af er þessu ári. Skipið hefur verið á línuveiðum eins og fyrr segir og eru krókarnir um 9 milljónir talsins.
Að lokinni löndun í Grindavík í dag fer áhöfnin í jólafrí. Í landlegunni verður viðhaldi skipsins sinnt.