Norður
♠ 10964
♥ 6
♦ ÁK943
♣ ÁD5
Vestur
♠ KD752
♥ ÁD1095
♦ G6
♣ K
Austur
♠ 8
♥ K742
♦ D10875
♣ 1073
Suður
♠ ÁG3
♥ G83
♦ 2
♣ G98642
Suður spilar 5♣ dobluð.
Þegar Aðalsteinn Jörgensen og Birkir Jón Jónsson tóku upp síðasta spilið í Íslandsmótinu í butlertvímenningi þóttust þeir vita að góð úrslit í því myndu tryggja þeim sigur. En slíkt gerist ekki af sjálfu sér og Aðalsteinn ákvað því að opna á 3♣ í suður, ekki beint eftir bókinni. Vestur sagði 4♣ til að sýna báða háliti og Birkir lyfti í 5♣, sem vestur doblaði þegar kom að honum aftur.
Útspilið var spaðakóngur sem Aðalsteinn drap með ás. Hann spilaði laufi og þegar kóngurinn kom frá vestri tók Aðalsteinn nú ás og kóng í tígli og henti spaða, trompaði tígul og spilaði ♥G. Vestur stakk upp drottningu og spilaði litlum spaða sem austur trompaði. Nú gat austur hnekkt spilinu með því að spila trompi en þegar hann spilaði tígli gat Aðalsteinn trompað bæði hjörtun í borði og vann spilið. Það gaf NS 12 stig sem dugðu til að vinna mótið.